MIKIÐ MAGN KVIKU Á FERÐ UNDIR BÁRÐARBUNGU

Birta á :
Mynd fengin af vefsjá Veðurstofunnar.  Hér sést hvernig framrásin er hægari en mikið af skjálftum engu að síður.
Mynd fengin af vefsjá Veðurstofunnar. Hér sést hvernig framrásin er hægari en mikið af skjálftum engu að síður.

Jarðskjálftahrinan í Bárðarbungu er enn í fullum gangi og gefur ekkert eftir nema síður sé.  Kl. 1614 í dag varð skjálfti sem mældist 3,2 af stærð um 4 km. norðaustur af Bárðarbungu.  Þá hafa síðustu tvo sólarhringa mælst um 1700 skjálftar á svæðinu, langflestir í þyrpingunni sem hefur skriðið fram Dyngjujökul austan við Bárðarbungu.  Það virðist sem hægt hafi á framrásinni en skjálftunum fækkar ekki neitt sem þýðir að kvika er að troða sér í bergganga á þessu svæði og þeir taka enn við henni.

Það er orðið ljóst vegna fjölda skjálfta og af GPS mælingum að um stóratburð er að ræða því magn kvikunnar er mikið og verði gos þá getur það orðið mjög stórt, en það fer eftir því hve mikið af kvikunni kemur upp.   Kvikan streymir frá möttli í kvikuþró sem talin er vera á 10-20 km dýpi undir Bárðarbungu, þaðan í gegnum sprungur i kvikuhólf undir Bárðarbungu á 5-10 km dýpi og þaðan í berggöngum og sprungusveimum til norðausturs þar sem hún virðist nú safnast fyrir á talsverðu dýpi ennþá.  Mjög góða skýringarmynd er að finna á Visir.s

Það er ljóst að því meiri kvika sem flæðir eftir þessari leið, því meiri verður þrýstingurinn á að hún leiti yfirborðs í eldgosi.  Núverandi þróun getur tæplega leitt til annars haldi hún mikið lengur áfram.

Frá landnámi hafa orðið þrjár meiriháttar eldsumbrotahrinur í Bárðarbungu og margt bendir til þess að sú fjórða sé að hefjast.

Sú fyrsta gekk yfir rétt fyrir og um landnám (um árið 870)þar sem stærsti atburðurinn var stórgos á hálendinu suðvestur af Bárðarbungu þar sem nú heita Vatnaöldur.  Í kjölfarið eða samtímis gaus á Torfajökulssvæðinu nærri Landmannalaugum og er álitið að kvika frá Bárðarbungukerfinu hafi þrýst á Torfajökulskerfið með þeim afleiðingum.  Mjög líklegt verður að telja að einnig hafi gosið í jöklinum við Bárðarbungu í þessari hrinu.

Mynd fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir hinn mikla fjölda skjálfta sem er að eiga sér stað.  Staðsetning þeirra er þó nákvæmari á efri myndinni.
Mynd fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir hinn mikla fjölda skjálfta sem er að eiga sér stað. Staðsetning þeirra er þó nákvæmari á efri myndinni.

Árin 1477-1480 gekk mikil goshrina yfir.  Aftur hleypur kvikan til suðvesturs og stórgos á amk. 30 km langri sprungu myndar Veiðivatnasvæðið eins og við þekkum það í dag.  Mörg veiðivatnanna eru gígar frá þessum umbrotum.  Aftur gerist það að eldgos verður svo að segja samtímis í Torfajökulskerfinu.  Árið 1480 varð mikið gos í jöklinum í eða við Bárðarbungu.  Má vera að þau hafi verið fleiri um þetta leiti enda yfirleitt aðeins allra stærstu atburða getið í heimildum þar sem gos verða fjarri mannabyggðum.

Á 18. öld var langvarandi óróleiki í Bárðarbungu en gaus þó ekki utan jökulsins.  Urðu amk. 10 gos í jöklinum umhverfis Bárðarbungu á árunum 1702 – 1780, flest staðfest með gjóskulagarannsóknum.  Teljum við þetta þriðju meiriháttar hrinuna þó hún hafi hegðað sér öðruvísi en tvær hinar fyrri.

Árin 1862-64 varð fremur lítið en langvinnt gos norðan við jökulinn, á Dyngjuhálsi, og varð til hraun sem nú heitir Tröllahraun.  Þetta var að öllum líkindum stakt gos fremur en goshrina.

Það sem núverandi atburðir eru ekki síst að leiða í ljós er hvernig þessi færsla kvikunnar tugi kílómetra neðanjarðar á sér stað.  Enn getum við sagt til allrar hamingju er kvikan að færast til norðurs og norðausturs en ekki til suðvesturs inná Veiðivatnasvæðið og er rétt að vona að það gerist ekki því þá gætum við fengið samskonar gos á því svæði eins og árin 870 og 1477 og líklega einnig gos á Torfajökulssvæðinu í kjölfarið.

Aðaláhyggjuefnið núna er hið mikla magn kviku sem er á ferðinni, að öllum líkindum margfalt magn kvikunnar sem kom upp i gosinu í Gjálp milli Bárðarbungu og Grímsvatna 1996 og olli hamfarahlaupi á Skeiðarársandi.  Hinsvegar er enn von og ekki útilokað að kvikustreymið stöðvist og þessi kvika sem verið hefur á hreyfingu storknar þá neðanjarðar.

Jarðvísindamenn telja nú skv. frétt Rúv að um 80-90 milljón rúmmetrar af kviku séu í innskotinu og að enn streymi kvika upp í Kvikuhólfið undir Bárðarbungu.  Þetta mun vera svipað magn og í innskotunum undir Eyjafjallajökul skömmu fyrir gosið í toppgígnum árið 2010.  Það skilaði þó ekki nærri allt sér upp í gosinu.

.

UPPFÆRT 22.ÁGÚST KL. 10 00

Jarðskjálfti sem mældist M 4,7 varð í Bárðarbunguöskjunni laust fyrir miðnætti í gærkvöldi.  Skjálftum i öskjunni hefur farið fjölgandi og túlka jarðvísindamenn það sem svo að um sig sé að ræða í öskjunni vegna færslu kviku frá henni til norðausturs.   Má þá einnig ætla að kvikuinnstreymi að neðan hafi minnkað og nái ekki að fylla öskjuna jafnóðum lengur.

Skjálftavirkni hefur einnig minnkað í þyrpingunni á Dyngjujökli og þetta samanlagt bendir til þess að innskotið hafi náð hámarki og virknin fari minnkandi.  Má því ætla miðað við þessar forsendur að líkur á eldgosi í þessari hrinu hafi minnkað verulega.  Þó er ótímabært að afskrifa gos.

.

UPPFÆRT 23. ÁGÚST KL 11 45

Enn er talsverð skjálftavirkni i öskjunni og skjálftar yfir 3 mælast af og til.  Virknin í þyrpingunni á Dyngjujökli tók nýjan kipp í morgun og eftir nokkra sólarhringa stöðnun á svipuðum slóðum færðist hún skyndilega fram jökulinn og nálgast nú jökulröndina.  Virðist því sem einhvernskonar fyrirstaða hafi rofnað.  Ekki er þó að sjá að skjálftarnir hafi færst ofar í jarðskorpuna.  Það er því allt eins útlit fyrir að ef það gýs þá gæti það orðið á jökullausu landi norðan við Dyngjujökul.  Sú sprunga gæti þó auðveldlega teygt sig inná jökulinn en varla þó langt inná hann ef svo fer fram sem horfir.

 

 

Scroll to Top