Hraungos hafið í Holuhrauni

Birta á :
Skjámynd af vefmyndavél Mílu þar sem hægt er að fylgjast með eldgosinu.
Skjámynd af vefmyndavél Mílu þar sem hægt er að fylgjast með eldgosinu.  Nú sjást eingöngu gufustrókar, óvíst er hvort gosið sé enn í gangi.

Gosið er  á um 1 km. langri sprungu og því sem stendur mjög lítið.  Það gat varla komið upp á heppilegri stað, utan jökuls og ekki nær Öskju en þetta.  Hraun sem kemur upp á þessum stað þarf að renna svo langt til að valda skaða að það má telja útilokað að það gerist.

Meðan þarna er gos þá ætti kvikugangurinn ekki að lengjast þ.e. ef gosið nær að létta af mesta þrýstingnum.  Miðað við hve lítið gosið er þá er það hinsvegar alls ekki víst.  Það er enn margfalt meira magn kviku sem hefur verið á ferðinni heldur en er að koma upp í þessu gosi þannig að óvíst er að þetta smágos marki lok þessarar hrinu.

Rétt er þó að benda á að stórir kvikugangar storkna oft í jörðu án þess að ná yfirborði þannig að spurningin núna er hvort það sé að hægjast á uppstreymi kvikunnar úr kvikuþrónni undir Bárðarbungu, sé svo þá gæti þetta markað lok þessarar lotu í hrinunni að  minnsta kosti.  Óróatímabil í Bárðarbungu gæti hinsvegar staðið í áratugi með mörgum misöflugum gosum. Við bendum sérstaklega á vefsíðu Mílu þar sem hægt er að fylgjast með gosinu í beinni útsendingu.

.

Mynd fengin af vefsjá Veðurstofunnar 29.ágúst kl. 0645
Mynd fengin af vefsjá Veðurstofunnar 29.ágúst kl. 0645

Myndin hér til hliðar er tekin af skjálftavefsjá veðurstofunnar og þar sést greinilega að mesta virknin er nálægt gosstöðvunum rétt norðan Dyngjujökuls, þ.e. i Holuhrauni sem myndaðist í gosi árið 1797.  Menn hafa hingað til hallast að því að það hraun hafi sprottið úr eldstöðvakerfi Öskju en má telja víst að það hafi runnið i kjölfar kvikuhlaups frá Bárðarbungu.

Fréttir af gosinu í fjölmiðlum:

Mbl.is: Eldgos hafið norðan Dyngjujökuls

Ruv.is:  Eldgos hafið i Holuhrauni

Visir.is: Sprungan talin vera um 1 kílómetri á lengd

.

UPPFÆRT KL. 12 50

GOSINU LOKIÐ, SMÁGOS SEM BREYTIR ENGU UM FRAMVINDUNA.  Það fór eins og lá strax nokkuð ljóst fyrir að gosið var alltof lítið til þess að létta þrýstingi af kvikuganginum frá Bárðarbungu út í Holuhraun.  Því er lokið í bili amk. en skjálftavirknin hefur haldið áfram og aukist síðustu klukkustundir.  Tveir stórir skjálftar urðu um hádegisbilið við norðanverða Bárðarbunguöskjuna, annar M 4,8 og hinn 5,2. 

Vísindamenn eru nokkuð sammála um að aðeins brotabrot af kvikunni sem er á ferð kom upp, þetta var í raun aðeins örlítill leki upp úr kvikuganginum.  Mikil skjálftavirkni er á þeim slóðum sem gosið varð, þ.e. við enda kvikugangsins en hann hefur lítið sem ekkert skriðið fram síðustu sólarhringa og virðist því vera einhver fyrirstaða í berginu sem stöðvar hann í bili að minnsta kosti.  Áframhaldandi skjálftavirkni þýðir einfaldlega að kvika er enn að streyma upp úr kvikuþró Bárðarbungu og inn ganginn fram eftir Dyngjujökli.  Óvissan og möguleiki á stóru gosi er þvi enn fyrir hendi.

Þá vekur athygli að skjálftar raða sér nokkurnveginn hringinn í kringum Bárðarbunguöskjuna.  Mjög fróðlegt væri að vita hvað GPS færslur segja um hvort hún hefur sigið síðustu sólarhringa,  sumir vísindamenn segja að skjálftarnir í öskjunni séu vegna aðlögunar og sigs en nefna ekki hvort þetta sig sjáist á GPS mælingum sem framkvæmdar hafa verið.

UPPFÆRT 31 ÁGÚST KL. 9 15

GOSIÐ Í HOLUHRAUNI HAFIÐ AFTUR – MUN STÆRRA

Í nótt hóf að gjósa á nýjan leik í holuhrauni , að huta til á sömu sprungu og fyrir 2 dögum en hún nær þó mun lengra í norður en áður og út fyrir svæðið sem hraunið og sprungan frá 1797 nær yfir.  Sprungan mun vera vel á annan kilómeter á lengd og kvikustrókar ná um 60  metra hæð að sögn sjónarvotta.

Þrátt fyrir að þetta sé stærra gos en “slysið”  fyrir tveim dögum þá er um smágos að ræða.  Það má etv. líta á þessi gos sem einskonar yfirfall frá aðrennslisæðinni neðanjarðar, þ.e. það er bara sáralitið brot af kvikunni að skila sér upp á yfirborðið.

Mjög hefur dregið úr skjálftavirkni á svæðinu síðustu klukkustundir sem bendir til þess að kvikustreymið fari minnkandi í bili en það má fastlega reikna með því að virknin aukist aftur miðað við hvernig atburðarrásin hefur verið síðust tvær vikur.

Hér er slóð á vefmyndavél Mílu á svæðinu en veðrið er afleitt þar þessa stundina og sést lítið til gossins.

SIGKATLAR Í JÖKLI OG NÝJAR SPRUNGUR UTAN JÖKULS

Birta á :
Mynd af skjálftavefsjá veðurstofunnar í dag 28.ágúst kl 0935.  Kvikugangurinn hefur ekki lengst síðasta sólarhring en öflug skjálftavirkni er þó nærri enda hans.
Mynd af skjálftavefsjá veðurstofunnar í dag 28.ágúst kl 0935. Kvikugangurinn hefur ekki lengst síðasta sólarhring en öflug skjálftavirkni er þó nærri enda hans.

ÓRÓINN Í BÁRÐARBUNGU HELDUR ÁFRAM, SKJÁLFTI UPP Á 5 STIG MÆLDIST Í ÖSKJUNNI, SIGKATLAR HAFA MYNDAST VIÐ SUNNANVERÐA BÁRÐARBUNGUÖSKJUNA SEM BENDA TIL AÐ ÞAR HAFI ORÐIÐ LÍTIÐ GOS EN ÞAÐ ER EKKI Á ÞVÍ SVÆÐI SEM ÓRÓINN HEFUR VERIÐ OG ÞVÍ ENN EITT ÁHYGGJUEFNIÐ.  ÓLJÓST ER HVAÐ HEFUR ORÐIÐ UM HLAUPVATNIÐ EN LÍKLEGA HEFUR ÞAÐ SAFNAST FYRIR Í GRÍMSVÖTNUM.

YFIRBORÐSSPRUNGUR HAFA MYNDAST OFAN VIÐ KVIKUGÖNGIN OG LITLIR SIGKATLAR Í DYNGJUJÖKLI SEM BENDA TIL ÞESS AÐ KVIKA NÆR AÐ HITA YFIRBORÐIÐ, Þ.E. KVIKUGÖNGIN LIGGJA SENNILEGA GRYNNRA EN ÁÐUR VAR TALIÐ.

Það er því ekkert lát á þessum umbrotum sem enn halda áfram að koma flestum vísindamönnum í opna skjöldu.  Ef eitthvað er jákvætt að frétta síðan í gær þá er það þá helst að kvikugangurinn hefur ekki teygt sig nær Öskju en hinsvegar er enn mikil skjálftavirkni við norðurendann og ef kvikuinnstreymi í hann heldur áfram af krafti eins og verið hefur þá eru allar líkur á því að hann skríði fram.

Úr því sem komið er væri þó sennilega best að fá gos á þeim slóðum þar sem gangurinn endar nú, þ.e. á svo til auðri jörð og ekki nærri eldstöðvakerfi Öskju.  Það væri lán í óláni ef svo færi.

Það bendir margt til þess að hér sé um að ræða upphafið af meiriháttar atburðum, jafnvel miklu stærri en núlifandi kynslóðir Íslendinga hafa orðið vitni að.  Ástæðan er sú að það virðist hafa opnast svokallaður “megingangur” þ.e. kvikan kemur úr geysistórri kvikuþró mjög djúpt að eða jafnvel beint úr möttlinum en ekki kvikuhólfi eins og algengast er undir megineldstöðvum.   Slíkt er  oftar en ekki ávísun á stórgos og eru allar líkur á að flest stærstu gos Íslandssögunnar hafi orðið með þeim hætti.  Ef við setjum stórgos í samhengi við “venjuleg” gos þá komu upp um 0.3 rúmkílómetrar í gosinu í Eyjafjallajökli.   Í Eldgjárgosinu komu um 20-25 rúmkílómetrar upp og eilítið minna í Skaftáreldum. Þetta voru semsagt um 50-60 sinnum framleiðnari gos en gosið í Eyjafjallajökli 2010.

Enn hefur ekki orðið gos sem hefur náð yfirborði og meðan svo er þá er vissulega sá möguleiki fyrir hendi að kvikuinnstreymið hætti og hrinan lognist útaf á næstu dögum.  Það er þó ekkert i dag sem bendir til þess að svo fari en meðann enn ekki gýs, þá er von.

Fréttir dagsins:

mbl.is: Fyrstu ummerki um gos á yfirborði

Visir.is: Skjálfti af stærð fimm við Bárðarbungu

Ruv.is: Kvikugangur virðist færast ofar

Berggangurinn nálgast Öskju með óþekktum afleiðingum

Birta á :
Skjálftarnir mælast nú aðallega fyrir norðan Dyngjujökul en þeir stærstu eru samt sem áður Bárðarbunguöskjunni.
Skjálftarnir mælast nú aðallega fyrir norðan Dyngjujökul en þeir stærstu eru samt sem áður Bárðarbunguöskjunni.

.

Atburðarrásin í Bárðarbungu heldur áfram að koma á óvart og valda vísindamönnum miklum heilabrotum.  Mjög öflugur jarðskjálfti í Bárðarbunguöskjunni í nótt M 5,7 virðist ekki hafa breytt miklu um þróunina.  Berggangurinn er nú orðinn um 40 km. langur og stefnir svo að segja beint á kvikuþróna undir Öskju og vantar líklega aðeins 10-15 km. upp á það.

HVAÐ GERIST EF BERGGANGURINN HITTIR FYRIR KVIKU Í ÖSKJU?

Það gæti orðið í meira lagi áhugavert ef svo fer fram sem horfir að berggangurinn keyrir beint inn í kvikuhólfið undir Öskju.  Það eru orðin nokkur dæmi um að Bárðarbunga hafi valdið eldgosum í öðrum eldstöðvakerfum.  Sigilt dæmi er gosið í Gjálp 1996 og svo hefur kvika frá Bárðarbungu tvivegis á sögulegum tíma þrýst nógu mikið á Torfajökulskerfið til að koma þar af stað gosum.  Það var í kjölfar eða samtímis gosinu i Vatnaöldum um landnám og í Veiðivatnagosinu 1480.

Það skildi þó aldrei vera að í þau skipti hafi berggangur frá Bárðarbungu komist alveg að öskjunni undir Torfajökli?  Má efast um að mönnum hafi hreinlega dottið það í hug fyrir þá atburði sem nú eru að eiga sér stað sem gætu varpað ljósi á ýmislegt sem gerst hefur í fortíðinni.

En aftur að Öskju.  Þar hefur verið talsverður órói undanfarin ár eins og menn vita og gæti kerfið því verið enn viðhvæmara fyrir “utanaðkomandi áreiti” fyrir vikið.  Á næstu 2-3 sólarhringum gæti kvikan frá Bárðarbungu hitt fyrir kvikuna i Öskju.  Einnig er talið að svokallaðir “súrir gúlar” séu til staðar í Öskjukerfinu og er einmitt talið að basísk kvika hafi hitt fyrir súran gúl og valdið hinu feiknarlega sprengigosi sem varð í Öskju árið 1875.  Sá möguleiki skal heldur ekki útilokaður á þessari stundu.

.

UPPFÆRT 27. ÁG. KL. 11 00

Snarpir skjálftar urðu í Bárðarbunguöskjunni í nótt og tveir þeirra yfir 5 stig.  þá mældist skjálti uppá 4,2 við Öskju en það er stærsti skálfti á þeim slóðum í 22 ár.  Jarðvísindamenn hafa túlkað stóru skjálftana undir Bárðarbunguöskjunni sem svo að samfall verði í öskjunni þegar kvika streymir úr kvikuhólfinu.  Samkvæmt Haraldi Sigurðssyni eldfjallafræðingi, þá er þessi túlkun ekki rétt, enda sjáist ekki á GPS mælum að askjan sé að síga.  Hann telur skjálftana þvert á móti verða vegna kvikuinnstreymis að neðan undir öskjuna og það sem styður hans kenningu er að eftir þessa stóru skjálfta virðist virknin í enda kvikuganganna aukast sem bendir til þess að meiri kvika er að troðast þar inn í bergið og veldur skjálftum.  Þessi kenning verður að teljast afar líkleg.

Ágúst Guðmundsson prófessur við jarðvísindadeild Lundúnarháskóla er einnig með mjög áhugaverðar kenningar í viðtali við Vísi.is og Fréttablaðið í morgun.  Hann bendir réttilega á að hér sé um stóratburð að ræða og hvergi á Íslandi komi upp meira magn kviku í eldgosum en einmitt á þessu svæði.  Kvikan sem nú er á hreyfingu virðist ekki koma úr grunnstæðu kvikuhólfi heldur miklu dýpra að.  Það styður að vissu leyti einnig þá kenningu sem Haraldur setur fram. 

Þess er rétt að geta að nánast öll stærstu gos Íslandssögunnar hafa orðið eftir langa flutninga kviku í sambærilegum göngum neðanjarðar.  Eldgjárgosið á 10.öld varð eftir kvikuhlaup frá Kötlu og opnaði mjög langa sprungu á jökullausu landi norðan Mýrdalsjökuls en einnig gaus í jöklinum sjálfum.  Bárðarbunga á svo tvö þessara gosa, Vatnaöldugosið og Veiðivatnagosið, hvorutveggja stórgos með margra tuga kílómetra löngum gossprungum.  Kvikan í Lakagígagosinu kom frá Grímsvötnum einmitt i sambærilegum kvikugangi.  Það sem flækir stöðuna enn meir núna er að kvikugangurinn hefur tekið stefnuna beint á eldstöðvakerfi Öskju og er þegar farinn að valda skjálftum þar.

Best væri ef innstreymi kviku undir Bárðarbungu stöðvaðist sem allra fyrst en það er ekkert sem bendir til þess að það sé að fara að gerast.  Að öllu óbreyttu verður þjóðin að búa sig undir mögulegar hamfarir á Öskju-Bárðarbungusvæðinu.

 

ÓSTAÐFEST ELDGOS Í DYNGJUJÖKLI

Birta á :

 

 

Jarðskjálftar í Dyngjujökli.  Rauðu punktarnir eru nýjustu skjálftarnir og þar er eldgos sennilega hafið.
Jarðskjálftar í Dyngjujökli. Rauðu punktarnir eru nýjustu skjálftarnir og þar er eldgos sennilega hafið.

Veðurstofan telur að kvika hafi komist í snertingu við jökulinn í dag m.ö.o. að eldgos hafi hafist en vísindamenn á flugi á svæðinu hafa ekki getað staðfest atburðinn.

Hvað sem því líður þá jókst órói til mikilla muna og skjálftum fjölgaði mikið á svæðinu laust fyrir hádegi.  Um kl. 2 í dag varð svo skjálfti uppá M 4.5.   Hvort sem gos er hafið eða ekki þá er þróunin öll í þá átt að eldsumbrot eru að hefjast á svæðinu og mikið magn kviku streymir um bergganga neðanjarðar og hráefni í eldgos svo sannarlega til staðar.

NÝJUSTU FRÉTTIR FJÖLMIÐLA.

Mbl.is:  Útilokar ekki stórt gos

Visir.is: Hraungos hafið undir Dyngjujökli

Ruv.is:  Gosið talið lítið

.

UPPFÆRT 24. ÁGUST KL. 09 00

TVEIR GRÍÐARSTERKIR JARÐSKJÁLFTAR RIÐU YFIR MEÐ UPPTÖK Í BÁRÐARBUNGUÖSKJUNNI Í NÓTT. SÁ FYRRI VARÐ UM MIÐNÆTTI OG MÆLDIST M 5.3  SÁ SEINNI UM KL 5 30 VAR UM M 5 AF STYRKLEIKA. 

Skjálftum hefur fjölgað til muna, enn lengist berggangurinn til norðurs og órói virðist aukast í kviðum.  Þegar þetta er ritað virðist sem lágtíðniórói frá athugungarstöð á Dyngjuhálsi gefi merki um kviku mjög nálægt yfirborði en það er óstaðfest.

Hér sést á mynd af skjálftavefsjá Veðurstofunnar hvernig berggangurinn nálgast jökulröndina þar sem flestir rauðu punktarnir eru þ.e. nýjustu skjálftarnir.
Hér sést á mynd af skjálftavefsjá Veðurstofunnar hvernig berggangurinn nálgast jökulröndina þar sem flestir rauðu punktarnir eru þ.e. nýjustu skjálftarnir.

Þessi mikla gliðnunarhrina í Bárðarbungu er hvergi nærri yfirstaðin og virðist færast í aukana ef eitthvað er.  Innstreymi kviku í bergganginn virðist enn mikið, jafnvel meira síðasta sólarhringinn en sólarhringana þar áður. 

.

Hér birtum við mynd af vef Veðurstofunnar sem sýnir óróann frá mælum á bardarbunga_oroiDYN24ag2014Dyngjuhálsi. Þarna sést vel hvenær hrinan hefst þann 16.ágúst þegar miklar breytingar verða öllum tíðnisviðum en það eru einkum toppar i grænu og rauðu litunum sem þýðir lágtiðniskjálfta/óróa sem ber að fylgjast með.  Þarna sést toppurinn frá því í gær þegar menn töldu eldgos hafið og annar slíkur toppur er að eiga sér stað núna.  Hann gæti þýtt að kvika sé á ferð nálægt yfirborði.

MIKIÐ MAGN KVIKU Á FERÐ UNDIR BÁRÐARBUNGU

Birta á :
Mynd fengin af vefsjá Veðurstofunnar.  Hér sést hvernig framrásin er hægari en mikið af skjálftum engu að síður.
Mynd fengin af vefsjá Veðurstofunnar. Hér sést hvernig framrásin er hægari en mikið af skjálftum engu að síður.

Jarðskjálftahrinan í Bárðarbungu er enn í fullum gangi og gefur ekkert eftir nema síður sé.  Kl. 1614 í dag varð skjálfti sem mældist 3,2 af stærð um 4 km. norðaustur af Bárðarbungu.  Þá hafa síðustu tvo sólarhringa mælst um 1700 skjálftar á svæðinu, langflestir í þyrpingunni sem hefur skriðið fram Dyngjujökul austan við Bárðarbungu.  Það virðist sem hægt hafi á framrásinni en skjálftunum fækkar ekki neitt sem þýðir að kvika er að troða sér í bergganga á þessu svæði og þeir taka enn við henni.

Það er orðið ljóst vegna fjölda skjálfta og af GPS mælingum að um stóratburð er að ræða því magn kvikunnar er mikið og verði gos þá getur það orðið mjög stórt, en það fer eftir því hve mikið af kvikunni kemur upp.   Kvikan streymir frá möttli í kvikuþró sem talin er vera á 10-20 km dýpi undir Bárðarbungu, þaðan í gegnum sprungur i kvikuhólf undir Bárðarbungu á 5-10 km dýpi og þaðan í berggöngum og sprungusveimum til norðausturs þar sem hún virðist nú safnast fyrir á talsverðu dýpi ennþá.  Mjög góða skýringarmynd er að finna á Visir.s

Það er ljóst að því meiri kvika sem flæðir eftir þessari leið, því meiri verður þrýstingurinn á að hún leiti yfirborðs í eldgosi.  Núverandi þróun getur tæplega leitt til annars haldi hún mikið lengur áfram.

Frá landnámi hafa orðið þrjár meiriháttar eldsumbrotahrinur í Bárðarbungu og margt bendir til þess að sú fjórða sé að hefjast.

Sú fyrsta gekk yfir rétt fyrir og um landnám (um árið 870)þar sem stærsti atburðurinn var stórgos á hálendinu suðvestur af Bárðarbungu þar sem nú heita Vatnaöldur.  Í kjölfarið eða samtímis gaus á Torfajökulssvæðinu nærri Landmannalaugum og er álitið að kvika frá Bárðarbungukerfinu hafi þrýst á Torfajökulskerfið með þeim afleiðingum.  Mjög líklegt verður að telja að einnig hafi gosið í jöklinum við Bárðarbungu í þessari hrinu.

Mynd fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir hinn mikla fjölda skjálfta sem er að eiga sér stað.  Staðsetning þeirra er þó nákvæmari á efri myndinni.
Mynd fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir hinn mikla fjölda skjálfta sem er að eiga sér stað. Staðsetning þeirra er þó nákvæmari á efri myndinni.

Árin 1477-1480 gekk mikil goshrina yfir.  Aftur hleypur kvikan til suðvesturs og stórgos á amk. 30 km langri sprungu myndar Veiðivatnasvæðið eins og við þekkum það í dag.  Mörg veiðivatnanna eru gígar frá þessum umbrotum.  Aftur gerist það að eldgos verður svo að segja samtímis í Torfajökulskerfinu.  Árið 1480 varð mikið gos í jöklinum í eða við Bárðarbungu.  Má vera að þau hafi verið fleiri um þetta leiti enda yfirleitt aðeins allra stærstu atburða getið í heimildum þar sem gos verða fjarri mannabyggðum.

Á 18. öld var langvarandi óróleiki í Bárðarbungu en gaus þó ekki utan jökulsins.  Urðu amk. 10 gos í jöklinum umhverfis Bárðarbungu á árunum 1702 – 1780, flest staðfest með gjóskulagarannsóknum.  Teljum við þetta þriðju meiriháttar hrinuna þó hún hafi hegðað sér öðruvísi en tvær hinar fyrri.

Árin 1862-64 varð fremur lítið en langvinnt gos norðan við jökulinn, á Dyngjuhálsi, og varð til hraun sem nú heitir Tröllahraun.  Þetta var að öllum líkindum stakt gos fremur en goshrina.

Það sem núverandi atburðir eru ekki síst að leiða í ljós er hvernig þessi færsla kvikunnar tugi kílómetra neðanjarðar á sér stað.  Enn getum við sagt til allrar hamingju er kvikan að færast til norðurs og norðausturs en ekki til suðvesturs inná Veiðivatnasvæðið og er rétt að vona að það gerist ekki því þá gætum við fengið samskonar gos á því svæði eins og árin 870 og 1477 og líklega einnig gos á Torfajökulssvæðinu í kjölfarið.

Aðaláhyggjuefnið núna er hið mikla magn kviku sem er á ferðinni, að öllum líkindum margfalt magn kvikunnar sem kom upp i gosinu í Gjálp milli Bárðarbungu og Grímsvatna 1996 og olli hamfarahlaupi á Skeiðarársandi.  Hinsvegar er enn von og ekki útilokað að kvikustreymið stöðvist og þessi kvika sem verið hefur á hreyfingu storknar þá neðanjarðar.

Jarðvísindamenn telja nú skv. frétt Rúv að um 80-90 milljón rúmmetrar af kviku séu í innskotinu og að enn streymi kvika upp í Kvikuhólfið undir Bárðarbungu.  Þetta mun vera svipað magn og í innskotunum undir Eyjafjallajökul skömmu fyrir gosið í toppgígnum árið 2010.  Það skilaði þó ekki nærri allt sér upp í gosinu.

.

UPPFÆRT 22.ÁGÚST KL. 10 00

Jarðskjálfti sem mældist M 4,7 varð í Bárðarbunguöskjunni laust fyrir miðnætti í gærkvöldi.  Skjálftum i öskjunni hefur farið fjölgandi og túlka jarðvísindamenn það sem svo að um sig sé að ræða í öskjunni vegna færslu kviku frá henni til norðausturs.   Má þá einnig ætla að kvikuinnstreymi að neðan hafi minnkað og nái ekki að fylla öskjuna jafnóðum lengur.

Skjálftavirkni hefur einnig minnkað í þyrpingunni á Dyngjujökli og þetta samanlagt bendir til þess að innskotið hafi náð hámarki og virknin fari minnkandi.  Má því ætla miðað við þessar forsendur að líkur á eldgosi í þessari hrinu hafi minnkað verulega.  Þó er ótímabært að afskrifa gos.

.

UPPFÆRT 23. ÁGÚST KL 11 45

Enn er talsverð skjálftavirkni i öskjunni og skjálftar yfir 3 mælast af og til.  Virknin í þyrpingunni á Dyngjujökli tók nýjan kipp í morgun og eftir nokkra sólarhringa stöðnun á svipuðum slóðum færðist hún skyndilega fram jökulinn og nálgast nú jökulröndina.  Virðist því sem einhvernskonar fyrirstaða hafi rofnað.  Ekki er þó að sjá að skjálftarnir hafi færst ofar í jarðskorpuna.  Það er því allt eins útlit fyrir að ef það gýs þá gæti það orðið á jökullausu landi norðan við Dyngjujökul.  Sú sprunga gæti þó auðveldlega teygt sig inná jökulinn en varla þó langt inná hann ef svo fer fram sem horfir.

 

 

Scroll to Top