.
Atburðarrásin í Bárðarbungu heldur áfram að koma á óvart og valda vísindamönnum miklum heilabrotum. Mjög öflugur jarðskjálfti í Bárðarbunguöskjunni í nótt M 5,7 virðist ekki hafa breytt miklu um þróunina. Berggangurinn er nú orðinn um 40 km. langur og stefnir svo að segja beint á kvikuþróna undir Öskju og vantar líklega aðeins 10-15 km. upp á það.
HVAÐ GERIST EF BERGGANGURINN HITTIR FYRIR KVIKU Í ÖSKJU?
Það gæti orðið í meira lagi áhugavert ef svo fer fram sem horfir að berggangurinn keyrir beint inn í kvikuhólfið undir Öskju. Það eru orðin nokkur dæmi um að Bárðarbunga hafi valdið eldgosum í öðrum eldstöðvakerfum. Sigilt dæmi er gosið í Gjálp 1996 og svo hefur kvika frá Bárðarbungu tvivegis á sögulegum tíma þrýst nógu mikið á Torfajökulskerfið til að koma þar af stað gosum. Það var í kjölfar eða samtímis gosinu i Vatnaöldum um landnám og í Veiðivatnagosinu 1480.
Það skildi þó aldrei vera að í þau skipti hafi berggangur frá Bárðarbungu komist alveg að öskjunni undir Torfajökli? Má efast um að mönnum hafi hreinlega dottið það í hug fyrir þá atburði sem nú eru að eiga sér stað sem gætu varpað ljósi á ýmislegt sem gerst hefur í fortíðinni.
En aftur að Öskju. Þar hefur verið talsverður órói undanfarin ár eins og menn vita og gæti kerfið því verið enn viðhvæmara fyrir “utanaðkomandi áreiti” fyrir vikið. Á næstu 2-3 sólarhringum gæti kvikan frá Bárðarbungu hitt fyrir kvikuna i Öskju. Einnig er talið að svokallaðir “súrir gúlar” séu til staðar í Öskjukerfinu og er einmitt talið að basísk kvika hafi hitt fyrir súran gúl og valdið hinu feiknarlega sprengigosi sem varð í Öskju árið 1875. Sá möguleiki skal heldur ekki útilokaður á þessari stundu.
.
UPPFÆRT 27. ÁG. KL. 11 00
Snarpir skjálftar urðu í Bárðarbunguöskjunni í nótt og tveir þeirra yfir 5 stig. þá mældist skjálti uppá 4,2 við Öskju en það er stærsti skálfti á þeim slóðum í 22 ár. Jarðvísindamenn hafa túlkað stóru skjálftana undir Bárðarbunguöskjunni sem svo að samfall verði í öskjunni þegar kvika streymir úr kvikuhólfinu. Samkvæmt Haraldi Sigurðssyni eldfjallafræðingi, þá er þessi túlkun ekki rétt, enda sjáist ekki á GPS mælum að askjan sé að síga. Hann telur skjálftana þvert á móti verða vegna kvikuinnstreymis að neðan undir öskjuna og það sem styður hans kenningu er að eftir þessa stóru skjálfta virðist virknin í enda kvikuganganna aukast sem bendir til þess að meiri kvika er að troðast þar inn í bergið og veldur skjálftum. Þessi kenning verður að teljast afar líkleg.
Ágúst Guðmundsson prófessur við jarðvísindadeild Lundúnarháskóla er einnig með mjög áhugaverðar kenningar í viðtali við Vísi.is og Fréttablaðið í morgun. Hann bendir réttilega á að hér sé um stóratburð að ræða og hvergi á Íslandi komi upp meira magn kviku í eldgosum en einmitt á þessu svæði. Kvikan sem nú er á hreyfingu virðist ekki koma úr grunnstæðu kvikuhólfi heldur miklu dýpra að. Það styður að vissu leyti einnig þá kenningu sem Haraldur setur fram.
Þess er rétt að geta að nánast öll stærstu gos Íslandssögunnar hafa orðið eftir langa flutninga kviku í sambærilegum göngum neðanjarðar. Eldgjárgosið á 10.öld varð eftir kvikuhlaup frá Kötlu og opnaði mjög langa sprungu á jökullausu landi norðan Mýrdalsjökuls en einnig gaus í jöklinum sjálfum. Bárðarbunga á svo tvö þessara gosa, Vatnaöldugosið og Veiðivatnagosið, hvorutveggja stórgos með margra tuga kílómetra löngum gossprungum. Kvikan í Lakagígagosinu kom frá Grímsvötnum einmitt i sambærilegum kvikugangi. Það sem flækir stöðuna enn meir núna er að kvikugangurinn hefur tekið stefnuna beint á eldstöðvakerfi Öskju og er þegar farinn að valda skjálftum þar.
Best væri ef innstreymi kviku undir Bárðarbungu stöðvaðist sem allra fyrst en það er ekkert sem bendir til þess að það sé að fara að gerast. Að öllu óbreyttu verður þjóðin að búa sig undir mögulegar hamfarir á Öskju-Bárðarbungusvæðinu.