Stærsti skjálfti frá goslokum í Bárðarbungu

Birta á :
Upptök jarðskjálfta í Vatnajökli síðustu sólarhringa.  Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.
Upptök jarðskjálfta í Vatnajökli síðustu sólarhringa. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Í nótt varð skjálfti norðan til í Bárðarbunguöskjunni M 4,2 en þetta er stærsti skjálftinn í eldfjallinu frá goslokum i Holuhrauni fyrir rúmu ári síðan.  Annar skjálfti M 3,5 mældist skömmu síðar á sömu slóðum.  Upptök skjálftanna eru á 3-4 km dýpi og verða líkast til á hringsprungum í öskjunni vegna þrýstings frá kviku sem leitar upp í kvikuhólfið sem talið er að sé á um 10-15 km dýpi.  Enginn gosórói mældist og því er ekkert sem bendir til þess að gos sé yfirvofandi.

Jarðskjálftarnir eru að verða sífellt öflugri frá goslokum sem bendir til vaxandi kvikuinnstreymis að neðan.  Miðað við lotubundna sögu Bárðarbungu þar sem rek- og gliðnunarhrinur virðast geta staðið yfir í áratugi þá má ætla að hún láti aftur á sér kræla á næstu árum og þangað til má búast við enn aukinni og öflugri skjálftavirkni.

Fréttir fjölmiðla um skjálftann:

Mbl.is – Jarðskjálfti i Bárðarbungu

Ruv.is  – Snarpur jarðskjálfti við Bárðarbungu

Dv.is – Jarðskjálfti að stærð 4,2 í Bárðarbungu: Sá stærsti frá goslokum

Visir.is – Stór skjálfti í Bárðarbungu

 

 

Skjálftar á Krýsuvíkursvæðinu

Birta á :
Upptök jarðskjálftanna við Krýsuvík.  Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.
Upptök jarðskjálftanna við Krýsuvík. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Jarðskjálftahrina hófst í kvöld skammt NA af Krýsuvík við Kleifarvatn.  Hrinan hófst á skjálfta upp á M 3,9 en hann fannst víða á Reykjanesskaga og höfuðborgarsvæðinu.  Nokkrir smáir eftirskjálftar fylgdu en svo róaðist svæðið.  Rétt fyrir miðnætti tók hrinan sig upp að nýju.  Skjálftarnir eru flestir á 4-8 km dýpi og virðast vera hefðbundnir brotaskjálftar.

Krýsuvíkursvæðið er mjög virkt jarðskjálftasvæði og síðast varð svipuð hrina á þessum slóðum í maí 2015.

Jarðskjálftahrina í Öxarfirði

Birta á :
Jarðskjálftar í Öxarfirði.  Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.
Jarðskjálftar í Öxarfirði. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Undanfarna sólarhringa hefur staðið yfir smáskjálftahrina í Öxarfirði.  Upptakasvæðin eru tvö, annarsvegar um 10-12km VNV af Kópaskeri og svo aftur um 30 km VNV af Kópaskeri, líklega þó á sömu sprungunni á Tjörnesbrotabeltinu.  Fjöldi smáskjálfta er kominn yfir 200 en aðeins einn hefur mælst yfir M3 enn sem komið er.   Hér er um brotaskjálfta að ræða og tengjast ekki kvikuhreyfingum eða eldvirkni.

Stórir skjálftar eru þó alþekktir á þessu svæði, svo vill til að fyrir réttum 40 árum, þann 13.janúar 1976 varð skjálfti á þessum slóðum sem mældist rúmlega M6 og olli miklum skemmdum á Kópaskeri og í nágrenni.

Árin 2012 og 13 urðu öflugar hrinur á Tjörnesbrotabeltinu en þær urðu Eyjafjarðarmegin á beltinu.

Jarðskjálftahrinur á þessum slóðum eiga það til að vera þrálátar og standa jafnvel vikum saman með hléum þannig að þessi hrina gæti vel undið uppá sig.

Skjálftar í Bárðarbungu taldir tengjast kvikuinnstreymi

Birta á :
Skjálftar í Bárðarbungu.  Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.
Skjálftar í Bárðarbungu. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Tveir nokkuð snarpir skjálftar urðu í norðausturbarmi Bárðarbunguöskjunnar sunnudaginn 20.desember.  Mældist sá stærri M 3,5 og hinn M 3,1.  Jarðfræðingar telja þessa skjálfta merki um kvikuinnstreymi undir eldstöðina og að gos geti jafnvel orðið innan tveggja ára.

Það er vitað að gos í Bárðarbungueldstöðinni eru sjaldan stök, þar verða gos- og rekhrinur sem geta staðið yfir í áratugi og verður að telja mjög líklegt að slík hrina hafi hafist í ágúst í fyrra þegar gaus í Holuhrauni.  Ómögulegt er að segja til um hvar í sprungukerfi Bárðarbungu næsta gos verður en fjallið sjálft, þ.e. Bárðarbunga er alltaf líklegasti staðurinn og þá yrði gosið væntanlega undir jökli.

Vaxandi óróa og skjálftavirkni fór að gæta í Bárðarbungu í sumar og virðist skjálftavirknin aukast hægt og örugglega.  Þá hafa einnig mælst af og til djúpir (um 20km) lágtíðniskjálftar undir Bárðarbungu en þeir eru klárlega merki um kvikuhreyfingar.

Visir.is: Skjálftar í Bárðarbungu merki um kvikustreymi

 

Haustskjálftar í Kötlu

Birta á :
Jarðskjálftar í Kötlu og á Torfajökulssvæðinu undanfarna sólarhringa.  Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.
Jarðskjálftar í Kötlu og á Torfajökulssvæðinu undanfarna sólarhringa. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Hrina af grunnum jarðskjálftum varð í Kötlu í Mýrdalsjökli í nótt.  Stærsti skjálftinn mældist M 3,3 og hefur tæplega fundist í byggð, til þess þurfa skjálftar í Kötlu að vera töluvert öflugri.    Þar sem skjálftarnir eru grunnir þá bendir það til jarðhitavirkni frekar en að kvika sé á hreyfingu.

Jarðskjálftavirkni í Kötlu er að jafnaði meiri á haustin en á öðrum árstímum og orsakast væntanlega af þrýstingsbreytingum vegna bráðnunar á jöklinum yfir sumartímann.  Í sögunni hafa einnig flest eldgosin þar hafist að hausti til, oftast í október.  Fremur rólegt hefur verið yfir Kötlu hin allra síðustu ár.  Hlaupvatn komst þó í ár sem renna frá jöklinum í júlí 2014 í kjölfar jarðskjálftavirkni en ekkert meira varð úr því.

Í heild hefur verið afar rólegt yfir landinu síðan gosinu í Holuhrauni lauk, helst að snarpar jarðskjálftahrinur á Reykjaneshrygg hafi vakið athygli.

Nú gætum við verið að horfa fram á óróatíð hvað varðar Kötlu sem gaus síðast árið 1918.  Einnig hefur verið nokkuð um smáskjálfta á Torfajökulssvæðinu norðan við Mýrdalsjökul en það gerist endrum og eins og tengist tæplega Kötlu.

Þá virðist órói vera að aukast aftur í grennd við Bárðarbungu og jafnvel taldar líkur á að kvika sé farin að safnast saman aftur í iðrum eldfjallsins.

Scroll to Top