Stærstu skjálftar í Kötlu í 39 ár

Birta á :

Katla29ag2016Tveir snarpir jarðskjálftar urðu í Kötlu laust fyrir kl. 2 í nótt.  Mældust þeir M 4,6 og 4,5 sem eru stærstu skjálftar í Mýrdalsjökli síðan árið 1977 þegar skjálfti upp á M 5.1 varð í Kötluöskjunni.

Stóru skjálftarnir nú áttu upptök nærri sigkötlum norðarlega í öskjunni en einnig urðu skjálftar sunnan til í henni.  Skjálftarnir munu hafa fundist í Langadal í Þórsmörk en ekki annarsstaðar.  Enginn gosórói hefur mælst og ólíklegt að eldgos sé yfirvofandi en svona stórir skjálftar í eldfjalli setja menn þó í viðbragðsstöðu.  Samkvæmt heimildum um fyrri Kötlugos þá gerir hún boð á undan sér  með hörðum jarðskjálftum sem verður vart í byggð.  Til þess þurfa þeir líkast til að vera yfir M 5 af stærð.

Nú í haust eru 98 ár síðan Katla gaus síðast sem er eitt lengsta goshlé sem orðið hefur í eldstöðinni síðan land byggðist.  Nokkur órói var í Kötlu í kjölfar gossins í Eyjafjallajökli og árin 2011-12 og svo aftur 2014 þegar hlaupvatns varð vart í ám frá Mýrdalsjökli.  Skjálftavirkni í Kötlu er yfirleitt mest á haustin og á þeim árstíma hafa einnig orðið flest eldgos í eldstöðinni.  Skýringin á haustjarðskjálftunum er væntanlega þrýstingsbreytingar vegna sumarbráðnunar í jöklinum.

Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir upptök skjálfta í Mýrdalsjökli síðustu sólarhringa.

Fréttir af atburðunum í Kötlu:

Ruv.is : Enginn gosórói en fylgst með Kötlu

Mbl.is : Jarðskjálftahrina í Kötluöskjunni

Visir.is : Katla minnir á sig með öflugri jarðskjálftahrinu

 

 

Skjálftavirkni úti fyrir Norðurlandi

Birta á :

TjörnesbrotabeltiðNokkur virkni hefur verið á Tjörnesbrotabeltinu undanfarna sólarhringa með skjálftum upp undir M 4 af stærð.  Stærsti skjálftinn, M 3.7 varð um 8 km NNV af Gjögurtá aðfaranótt sunnudags en sólarhring áður hafði orðið skjálfti upp á M 3.4 skammt norðaustur af Grímsey.  Tjörnesbrotabeltið er í raun þrjú stór misgengi.  Í þessu tilviki er virknin á tveimur þeirra en það gerist alloft að fleiri en eitt misgengi eru virk samtímis.  Skjálftar eru algengir á þessum slóðum og standa hrinurnar oft vikum saman.  Af og til verða mjög öflugar hrinur á þessum slóðum. Þannig mældust skjálftar vel yfir M 5 árin 2012 og 2013 en síðan hefur verið heldur rólegra á svæðinu.

Meðfylgjandi mynd sem fengin er af vef Veðurstofu Íslands sýnir vel hvernig misgengin á Tjörnesbrotabeltinu liggja og upptöks skálfta þar.  Hringir utan um ártöl segja til um stærstu skjálfta sem orðið hafa á svæðinu en sumir þeirra hafa náð M 7 af stærð t.d. Skagafjarðarskjálftinn árið 1963.

Öskjusigið í Bárðarbungu rannsakað

Birta á :

Í Holuhraunsgosinu, aðdraganda þess og í kjölfarið gafst vísindamönnum sjaldgæft tækifæri til að rannsaka öskjusig meðan á því stóð.  Askjan í Bárðarbungu seig um allt að 65 metra á þeim 6 mánuðum sem gosið stóð yfir.  Öskjusig fylgir gjarnan stórgosum og í flestum íslenskum eldstöðvum eru öskjur.  Þó eru dæmi um eldfjöll sem hafa ekki enn myndað öskjur eins og t.d. Hekla, en hún mun eflaust gera það í fjarlægri framtíð.

BardarbungaStærstu eldgos Íslandssögunnar eiga það sameiginlegt að verða tugi kílómetra frá megineldstöðvum.  Þannig var um Lakagígagosið 1783, Eldgjárgosið um árið 934,  Vatnaöldugosið 870 og Veiðivatnagosið um árið 1480.  Tvö þau síðastnefndu tilheyra eldstöðvakerfi Bárðarbungu en í þau skipti hljóp kvikan til suðvesturs og komu upp sem mikil sprungugos á Veiðivatnasvæðinu.  Það verður að segjast eins og er að mikil mildi var að kvikan hljóp til norðurs í Holuhraunsgosinu en ekki til suðvesturs inná Veiðivatnasvæði þar sem margar stórar vatnsaflsvirkjanir eru staðsettar.

Í öllum þessum gosum er nær öruggt að öskjusig hefur orðið.  Eldgjárgosið átti uppruna sinn í Kötlu og askjan í Kötlu hefur eflaust sigið um tugi metra.  Eldgjárgosið er það það mesta síðan land byggðist, amk. 10 sinnum meiri kvika kom upp í því heldur en í Holuhraunsgosinu.  Lakagígagosið varð í kjölfar kvikuhlaups úr Grímsvötnum í Vatnajökli.  Þar er stór askja sem eflaust hefur sigið mikið í þeim hamförum.

Það virðist hafa verið regla að stórgos verður í eldstöðvakerfi Bárðarbungu á um 5-700 ára fresti.  Um 600 ár líða frá Vatnaöldugosinu um 870 að Veiðivatnagosinu 1480 og svo 535 ár að Holuhraunsgosinu.  Þrátt fyrir að þau umbrot séu etv. ekki að fullu yfirstaðin þá verður að telja afar ólíklegt að annað gos af þessari stærðargráðu verði í þessari hrinu en minniháttar gos gætu vel orðið á næstu árum og þá líklegast undir jökli.

Hér má sjá grein um rannsóknina á öskjusiginu inná vef Veðurstofunnar.

 

Skjálfti upp á 4,4 í Bárðarbungu

Birta á :
Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir upptök skjálfta í Vatnajökli síðustu sólarhringa.
Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir upptök skjálfta í Vatnajökli síðustu sólarhringa.

Skjálftavirkni heldur áfram að aukast í Bárðarbungu og skjálftarnir verða öflugri með hverjum mánuðinum.  Í morgun varð skjálfti upp á M 4,4 sem er stærsti skjálftinn frá goslokum.  Um 20 eftirskjálftar fylgdu í kjölfarið, þar af tveir yfir M 3.  Stóri skjálftinn var á um 6 km dýpi

Ekki verður annað séð en að þessi þróun haldi áfram þar til það dregur til frekari tíðinda.

Stærsti skjálfti frá goslokum í Bárðarbungu

Birta á :
Upptök jarðskjálfta í Vatnajökli síðustu sólarhringa.  Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.
Upptök jarðskjálfta í Vatnajökli síðustu sólarhringa. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Í nótt varð skjálfti norðan til í Bárðarbunguöskjunni M 4,2 en þetta er stærsti skjálftinn í eldfjallinu frá goslokum i Holuhrauni fyrir rúmu ári síðan.  Annar skjálfti M 3,5 mældist skömmu síðar á sömu slóðum.  Upptök skjálftanna eru á 3-4 km dýpi og verða líkast til á hringsprungum í öskjunni vegna þrýstings frá kviku sem leitar upp í kvikuhólfið sem talið er að sé á um 10-15 km dýpi.  Enginn gosórói mældist og því er ekkert sem bendir til þess að gos sé yfirvofandi.

Jarðskjálftarnir eru að verða sífellt öflugri frá goslokum sem bendir til vaxandi kvikuinnstreymis að neðan.  Miðað við lotubundna sögu Bárðarbungu þar sem rek- og gliðnunarhrinur virðast geta staðið yfir í áratugi þá má ætla að hún láti aftur á sér kræla á næstu árum og þangað til má búast við enn aukinni og öflugri skjálftavirkni.

Fréttir fjölmiðla um skjálftann:

Mbl.is – Jarðskjálfti i Bárðarbungu

Ruv.is  – Snarpur jarðskjálfti við Bárðarbungu

Dv.is – Jarðskjálfti að stærð 4,2 í Bárðarbungu: Sá stærsti frá goslokum

Visir.is – Stór skjálfti í Bárðarbungu

 

 

Scroll to Top