Yfir 100 skjálftar í Kötlu í dag

Birta á :
Jarðskjálftar í Kötlu síðasta sólarhringinn.  Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.
Jarðskjálftar í Kötlu síðasta sólarhringinn. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Yfir 100 jarðskjálftar hafa mælst í Kötluöskjunni  í Mýrdalsjökli síðasta sólarhringinn sem er mesta tíðni skjálfta þar síðan amk. árið 2011.  Skjálftarnir eru flestir grunnir og smáir.  Ekki fylgir gosórói og ekkert sem bendir enn til þess að skjálftarnir tengist kvikuhreyfingum í eldstöðinni.  Líklegast tengjast skjálftarnir jarðhitavirkni í jöklinum.  Stærstu skjálftarnir eru um M3 af stærð en fyrir réttum mánuði mældust skjálftar um M 4,5 sem voru þá stærstu skjálftar í Kötlu í tæp 40 ár.   Þá er fremur há leiðni í Múlakvísl sem aftur bendir til þess að jarðhitavirkni valdi skjálftunum.

Þrátt fyrir að ekki virðist um kvikuhreyfingar að ræða og eldgos því fremur ólíklegt í óbreyttri stöðu þá hefur virkni verið með mesta móti í Kötlu þetta haustið.

——–

 

UPPFÆRT 30.SEPT KL 1800

ÓVISSUSTIGI LÝST YFIR OG SKJÁLFTARNIR NÚ TALDIR TENGJAST KVIKUHREYFINGUM

Skjálftahrinan hefur haldið áfram af fullum krafti í dag og mældust nokkrir skjálftar yfir M3 um hádegisbilið.  Í framhaldi af því hefur verið lýst yfir óvissustigi vegna Kötlu sem þýðir að stærri atburðir séu mögulegir.  Nákvæm skilgreining á óvissustigi samkvæmt vef Almannavarna er þessi:

“Óvissustig almannavarna þýðir að aukið eftirlit er haft með atburðarrás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað. Að lýsa yfir óvissustigi er hluti af verkferlum í skipulagi almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf á milli viðbragðsaðila.”

Vísindamenn funduðu um stöðu mála í dag og telja skv. fréttum á Rúv að skjálftarnir tengist kvikuhreyfingum undir eldstöðinni.   Það vekur óneitanlega athygli hversu grunnir skjálftarnir mælast því vitað er að kvikuhólf Kötlu er á nokkurra kílómetra dýpi.  Þessir skjálftar mælast hinsvegar við yfirborð öskjunnar.  Skýringin gæti verið sú að þrýstingur að neðan vegna kvikuhreyfinganna brjóti upp bergið ofar í öskjunni.  Ef sú er raunin þá er alls ekki hægt að útiloka eldgos í framhaldinu en enn verður að meta það svo að meiri líkur eru á  því að hrinan lognist útaf.

Hinsvegar eru menn einnig á varðbergi gagnvart svipuðum atburðum og urðu árið 2011 þegar allstórt hlaup kom í Múlakvísl og nú er talið að það hafi verið vegna lítils eldgoss sem náði ekki að bræða sig í gegnum jökulinn.  Slíkt kann oft að hafa gerst áður en ekki er vitað um tíðni þessara “leynigosa” en atburðir undanfarin ár bæði í Mýrdalsjökli og Vatnajökli benda til þess að þau kunni að vera nokkuð tíð.

Fréttir af jarðskjálftunum í Kötlu

Visir.is:  Fimmtíu jarðskjálftar í Kötlu

Ruv.is: Aukin skjálftavirkni í Kötluöskju

Mbl.is: Skjálftahrinur í Kötlu

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt.

Scroll to Top