Reykjanesskagi

HARÐIR JARÐSJÁLFTAR NÆRRI KRÝSUVÍK

Snarpur jarðskjálfti fannst á suðvesturlandi kl. 13 45 í dag og allsnarpir eftirskjálftar hafa einnig fundist. Stærð stærsta skjálftans virðist nokkuð á reiki, í fyrstu var hann talinn M 5,7 en nú metur Veðurstofan hann M 4,4 sem er þó undarlega lágt miðað við hversu snarpur hann var og fannst víða.

Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir upptök skjálftanna í dag.

Upptökin eru 4.4 km VNV af Krýsuvík , nokkurnveginn á milli eldstjöðvanna sem kenndar eru við Krýsuvík og Fagradalsfjall. hann varð á 3,7 km dýpi. Það hversu grunnur hann er getur skýrt hve snarpur hann virtist vera.

UPPFÆRT: Nú hefur Veðurstofan fært hann upp í M 5,6 af því er virðist vera á vef Veðurstofunnar. Það er líka mun líklegri tala miðað við hversu öflugur skjálfinn var.

Engin merki eru um gosóróa enda að öllum líkindum um brotaskjálfta að ræða. Hinsvegar er þetta framhald þess mikla óróa sem hefur verið á Reykjanesskaganum allt þetta ár en umbrotin virðast færast austur eftir skaganum.

Snarpur eftirskjálfti mældist kl. 14:31 og var M 4,0 af stærð og fannst vel á suðvesturlandi.

Snarpir skjálftar við Fagradalsfjall

Skjálfti af stærðinni M 4,2 varð um 3,2 km austur af Fagradalsfjalli á Reykjanesskaga kl. 16 15 í dag. Rúmum tveim tímum áður hafði orðið skjálfti upp á M 3,7 á sömu slóðum. Fjöldi eftirskjálfta hafa mælst og þar af þrír yfir M 3,0. Skjálftarnir eru nær allir á 5-7 km dýpi.

Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir upptök skjálftanna

Þetta er framhald þeirrar atburðarásar sem hefur verið í gangi nær allt árið á Reykjanesskaganum þar sem kvikuinnskot vestar á skaganum valda spennubreytingum á stóru svæði. Nú virðast skjálftarnir vera að færast austar, þessi hrina við Fagradalsfjall er nokkrum km. austar heldur en skjálftarnir sem urðu 20. júlí sl.

Það má því algjörlega reikna með skjálftum áfram á skaganum og það nokkuð sterkum. Virknin er nú að færast nær Krísuvíkureldstöðinni og því svæði þar sem jarðskjálftar verða reglulega og ekki ólíklegt að þar fari í gang virkni á næstu vikum og mánuðum.

Snarpur jarðskjálfti á Reykjanesskaga

Skjálfti um stærð M 5.0 varð um 1,6 km NV af Fagradalsfjalli á Reykjanesskaga kl. 23 36 í gærkvöldi. Skjálftinn fannst meira og minna um allt suðvesturland, einnig í Vestmannaeyjum.

Upptök jarðskjálfta á Reykjanesskaga síðustu sólarhringa. Stóri skjálftinn í gærkvöldi er rauði hringurinn á miðri myndinni. Gögn fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Samkvæmt vef Veðurstofu Íslands varð skjálftinn á 10,4 km dýpi sem er óvenju djúpur skjálfti meðað við það sem gengur og gerist á Reykjanesskaga. Fjöldi eftirskjálfta hefur mælst, þar af amk. tveir yfir M 3 og hafa því fundist vel í nágrenninu.

Síðustu daga hefur verið enn ein hrinan í gangi í Svartsengiskerfinu nærri Grindavík, sem tengist landrisinu á þeim slóðum. Hvort þessir skjálftar við Fagradalsfjall tengist þessu landrisi á einhvern hátt er óljóst en það eru um 9-10 km á milli upptakasvæðanna.

Skjálftar eru algengir við Fagradalsfjall en þar hefur þó ekki gosið í um 6000 ár af því að talið er. það þýðir þó að sjálfsögðu ekki að þar geti ekki orðið gos.

Þar með eru upptakasvæði jarðhræringa á Reykjanesskaganum sem staðið hafa linnulítið frá áramótum orðin þrjú, Reykjaneskerfið vestast á skaganum, Svartsengi við Grindavík og nú Fagradalsfjall.

Harður jarðskjálfti við Reykjanestá – Landris hafið aftur við Svartsengi

Upptök jarðskjálfta á Reykjanesi síðasta sólarhring.
Upptök jarðskjálfta á Reykjanesi síðasta sólarhring.

Snarpur jarðskjálfti M4,2 varð kl. 10:32 í morgun nokkra kílómetra norðvestan við Reykjanestá.  Fjölmargir eftirskjálftar hafa mæst og virkni er stöðug.  Enginn gosórói er sjáanlegur.  Þá er einnig virkni á svæðinu norðan og norðaustan við Grindavík og talið er að landris sé hafið aftur við Svartsengi.

Hvorutveggja er framhald á mikilli jarðsjálftavirkni og landrisi sem hefur verið í gangi nú meira og minna í tvo mánuði þrátt fyrir rólegar vikur inn á milli.  Telja verður sífellt líklegra að það sé að hefjast rek-og gliðnunarhrina á Reykjanesskaganum enda hrinan orðin ansi þrálát.

Þó er rétt að geta þess að til er sú kenning að orsök landrisins sé niðurdæling affallsvatns frá orkuverinu í Svartsengi.  Rökin fyrir því eru vissulega til staðar, þ.e. að landrisið á sér stað nákvæmlega á þeim stað þar sem niðurdælingin fer fram og jarðskjálftavirknin er nær engin akkúrat á því svæði, heldur nokkuð austan og vestan við svæðið sem rís.  Jarðfræðingar virðast þó almennt þeirrar skoðunar að kvikusöfnin sé skýringin á landrisinu og aflögunin valdi jarðskjálftum í jaðri þess svæðis.

Það er þó erfitt að sjá hvernig niðurdælingin geti tengst atburðunum við Reykjanestá sem er um 10-15 km vestar.

SKJÁLFTI M 5,2 SKAMMT FRÁ GRINDAVÍK

Upptök skjálftanna í morgun. Ath að vegna fjölda skjálfta þá er staðsetningin ekki endilega nákvæm.  Mynd fengin af vef Veðurstofu Íslands.
Upptök skjálftanna í morgun. Ath að vegna fjölda skjálfta þá er staðsetningin ekki endilega nákvæm. Mynd fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Mjög snarpur jarðskjálfti varð um 4,9 km norðaustan við Grindavík kl.10 25 í morgun.  Skjálftinn fannst um allt suðvestanvert landið og gott betur en það reyndar.  Skjálftinn varð á um 6,1 km dýpi.  Eftirskjálftavirkni er stöðug og mikil.

Tiltölulega rólegt hafði verið á Grindavíkursvæðinu síðustu tvær vikurnar og meginhluti skjálftavirkninnar sem fylgdi landrisinu hafði fært sig vestar í átt að Reykjanestá, en þar var einnig orðið rólegra.  Landrisið virðist einnig hafa hætt og líklega er þessi skjálfti afleiðing af landrisinu, þ.e. svæðið er að aðlagast breytingunum sem fylgja því.  Hinsvegar þegar svona stórir skjálfta verða á eldvirkum svæðum þá geta þeir sem slíkir líka valdið aflögun og breytingum og jafnvel opnað fyrir kvikuuppstreymi og eldgos í kjölfarið.

Á þeim stað sem skjálftinn varð væri þó líklega hagstæðast að fá eldgos ef út í það er farið.  Grindavík yrði tæplega ógnað og ekki heldur mannvirkjum við Bláa lónið, amk. ekki í minniháttar gosi sem er langlíklegast að yrði.

Ekkert bendir þó enn til að gos sé í aðsigi en fyrirvarinn gæti reyndar orðið mjög stuttur.

 

Scroll to Top