Reykjanesskagi

Snarpur jarðskjálfti á Reykjanesskaga

Skjálfti um stærð M 5.0 varð um 1,6 km NV af Fagradalsfjalli á Reykjanesskaga kl. 23 36 í gærkvöldi. Skjálftinn fannst meira og minna um allt suðvesturland, einnig í Vestmannaeyjum.

Upptök jarðskjálfta á Reykjanesskaga síðustu sólarhringa. Stóri skjálftinn í gærkvöldi er rauði hringurinn á miðri myndinni. Gögn fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Samkvæmt vef Veðurstofu Íslands varð skjálftinn á 10,4 km dýpi sem er óvenju djúpur skjálfti meðað við það sem gengur og gerist á Reykjanesskaga. Fjöldi eftirskjálfta hefur mælst, þar af amk. tveir yfir M 3 og hafa því fundist vel í nágrenninu.

Síðustu daga hefur verið enn ein hrinan í gangi í Svartsengiskerfinu nærri Grindavík, sem tengist landrisinu á þeim slóðum. Hvort þessir skjálftar við Fagradalsfjall tengist þessu landrisi á einhvern hátt er óljóst en það eru um 9-10 km á milli upptakasvæðanna.

Skjálftar eru algengir við Fagradalsfjall en þar hefur þó ekki gosið í um 6000 ár af því að talið er. það þýðir þó að sjálfsögðu ekki að þar geti ekki orðið gos.

Þar með eru upptakasvæði jarðhræringa á Reykjanesskaganum sem staðið hafa linnulítið frá áramótum orðin þrjú, Reykjaneskerfið vestast á skaganum, Svartsengi við Grindavík og nú Fagradalsfjall.

Harður jarðskjálfti við Reykjanestá – Landris hafið aftur við Svartsengi

Upptök jarðskjálfta á Reykjanesi síðasta sólarhring.
Upptök jarðskjálfta á Reykjanesi síðasta sólarhring.

Snarpur jarðskjálfti M4,2 varð kl. 10:32 í morgun nokkra kílómetra norðvestan við Reykjanestá.  Fjölmargir eftirskjálftar hafa mæst og virkni er stöðug.  Enginn gosórói er sjáanlegur.  Þá er einnig virkni á svæðinu norðan og norðaustan við Grindavík og talið er að landris sé hafið aftur við Svartsengi.

Hvorutveggja er framhald á mikilli jarðsjálftavirkni og landrisi sem hefur verið í gangi nú meira og minna í tvo mánuði þrátt fyrir rólegar vikur inn á milli.  Telja verður sífellt líklegra að það sé að hefjast rek-og gliðnunarhrina á Reykjanesskaganum enda hrinan orðin ansi þrálát.

Þó er rétt að geta þess að til er sú kenning að orsök landrisins sé niðurdæling affallsvatns frá orkuverinu í Svartsengi.  Rökin fyrir því eru vissulega til staðar, þ.e. að landrisið á sér stað nákvæmlega á þeim stað þar sem niðurdælingin fer fram og jarðskjálftavirknin er nær engin akkúrat á því svæði, heldur nokkuð austan og vestan við svæðið sem rís.  Jarðfræðingar virðast þó almennt þeirrar skoðunar að kvikusöfnin sé skýringin á landrisinu og aflögunin valdi jarðskjálftum í jaðri þess svæðis.

Það er þó erfitt að sjá hvernig niðurdælingin geti tengst atburðunum við Reykjanestá sem er um 10-15 km vestar.

SKJÁLFTI M 5,2 SKAMMT FRÁ GRINDAVÍK

Upptök skjálftanna í morgun. Ath að vegna fjölda skjálfta þá er staðsetningin ekki endilega nákvæm.  Mynd fengin af vef Veðurstofu Íslands.
Upptök skjálftanna í morgun. Ath að vegna fjölda skjálfta þá er staðsetningin ekki endilega nákvæm. Mynd fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Mjög snarpur jarðskjálfti varð um 4,9 km norðaustan við Grindavík kl.10 25 í morgun.  Skjálftinn fannst um allt suðvestanvert landið og gott betur en það reyndar.  Skjálftinn varð á um 6,1 km dýpi.  Eftirskjálftavirkni er stöðug og mikil.

Tiltölulega rólegt hafði verið á Grindavíkursvæðinu síðustu tvær vikurnar og meginhluti skjálftavirkninnar sem fylgdi landrisinu hafði fært sig vestar í átt að Reykjanestá, en þar var einnig orðið rólegra.  Landrisið virðist einnig hafa hætt og líklega er þessi skjálfti afleiðing af landrisinu, þ.e. svæðið er að aðlagast breytingunum sem fylgja því.  Hinsvegar þegar svona stórir skjálfta verða á eldvirkum svæðum þá geta þeir sem slíkir líka valdið aflögun og breytingum og jafnvel opnað fyrir kvikuuppstreymi og eldgos í kjölfarið.

Á þeim stað sem skjálftinn varð væri þó líklega hagstæðast að fá eldgos ef út í það er farið.  Grindavík yrði tæplega ógnað og ekki heldur mannvirkjum við Bláa lónið, amk. ekki í minniháttar gosi sem er langlíklegast að yrði.

Ekkert bendir þó enn til að gos sé í aðsigi en fyrirvarinn gæti reyndar orðið mjög stuttur.

 

Hratt landris við Svartsengi vegna kvikusöfnunar

Ferðafólk virðir fyrir sér Bláa Lónið í Svartsengi sem er í mikilli hættu ef það verður gos á svæðinu.
Ferðafólk virðir fyrir sér Bláa Lónið í Svartsengi sem er í hættu ef það verður gos á svæðinu.    Mynd: Óskar Haraldsson

 

Síðastliðna viku hefur land risið nokkuð hratt í svokölluðu Svartsengiskerfi sem er eitt eldstöðvakerfanna á Reykjanesskaganum.  Nær öruggt má telja að kvika sé að troða sér upp úr möttli og inn í sprungur og glufur ca 4-5 km. undir yfirborði.

Jarðskorpan á Reykjanesskaganum er mjög þunn og í eldstöðvakerfunum þar eru ekki kvikuhólf eins og algengast er í megineldstöðvum.

.

ERU LÍKUR Á ELDGOSI Í KERFINU Á NÆSTUNNI ?

Þegar kvikusöfnun eða innskot á sér stað er alltaf hætta á að kvikan nái til yfirborðs í formi eldgoss.  Hinsvegar eru ákveðin atriði sem virðist draga úr líkum á að eldgos sé yfirvofandi.

Í fyrsta lagi þá er algengt að kvikusöfnun verði án eldgosa og dæmi frá síðustu áratugum eru mörg.  Dæmi:  Hengillinn rétt fyrir aldamót, Eyjafjallajökull sýndi merki um kvikusöfnun í nærri tvo áratugi fyrir gosið þar,  Öræfajökull – þar virðist kvikusöfnun hafa stöðvast.  Landris átti sér stað við Krísuvík á árunum 2010-2012 sem nær örugglega var vegna kvikusöfnunar.  Það stöðvaðist.  Þá má nefna kvikuinnskot i grennd við Herðubreið sem var viðvarandi á svipuðum tíma og gaus í Holuhrauni, þar er að mestu rólegt núna.

.

Myndin er skjáskot af skjálftavefsjá á vef Veðurstofu Íslands og sýnir upptök skjálfta síðustu 7 daga. Nýjustu skjálftarnir eru rauðir og stærð hringja markar stærð skjálftanna.  Smellið á myndina til að stækka.
Myndin er skjáskot af skjálftavefsjá á vef Veðurstofu Íslands og sýnir upptök skjálfta síðustu 7 daga. Nýjustu skjálftarnir eru rauðir og stærð hringja markar stærð skjálftanna. Smellið á myndina til að stækka.

Í öðru lagi er eldgosavirkni á Reykjanesskaganum lotubundin en goshlé er vissulega orðið langt, síðasta gos á Reykjanesskaga varð árið 1240 eða fyrir 780 árum.   Goshléin eru talin standa að jafnaði í um 6-800 ár og því í sjálfu sér eðlilegt að hléið sé senn á enda.  Hinsvegar amk. í síðustu tveim goshrinum hefur gosvirknin hafist austast á Reykjanesskaganum, þ.e. í Brennisteinsfjallakerfinu (Bláfjöll, Hellisheiði) og unnið sig svo vestur eftir skaganum á næstu 2-3 öldum.  Ef það færi að gjósa í Svartsengiskerfinu þá er þessi “regla” brotin!  Goshlé í Brennisteinsfjallakerfinu er lika orðið mun lengra en annarsstaðar á skaganum, þar með talið Svartsengiskerfinu sem lætur illa núna.   Lítið hefur verið um jarðhræringar í Brennisteinsfjallakerfinu undanfarin ár í samanburði við Krísuvíkur- og Svartsengiskerfin.

.

Þrátt fyrir þetta verður að hafa varann á vegna nálægðar mögulegra eldstöðva við byggð, það er jú vissulega kvika á ferð.  Gossprunga gæti opnast einhverja kílómetra frá Grindavík í mögulegu eldgosi en ólíklega það nærri að ekki gæfist ráðrúm til að forða íbúum frá bænum.

Öðru máli gegnir því miður um mannvirkin í Svartsengi, virkjunina og Bláa Lónið, þau eru beinlínis inni á mögulegu svæði þar sem gossprungur geta opnast.

Þá er miðað við líklegustu staðsetningu á gossprungu samkvæmt jarðfræðingum , norðvestan við fjallið Þorbjörn sem mundi þá veita Grindavík ákveðið skjól fyrir hraunrennsli.  Ekki er þó loku fyrir það skotið að það geti gosið austar í kerfinu, í eða við svokallaða Sundhnúkasprungu en hún teygir sig inn fyrir bæjarmörk Grindavíkur.  Landrisið hefur þó ekki orðið þar en hinsvegar virðist mesta skjálftavirknin vera á því svæði,

Hafa ber í huga að gos í kerfinu eru alltaf hraungos eða svokölluð flæðigos þar sem hraunrennsli getur verið talsvert í byrjun gossins.   Það er því full ástæða til að taka þetta landris og kvikusöfnun mjög alvarlega og fylgjast grannt með stöðu mála.

Uppfært:  Milli kl 4:30 og 5 í morgun 29. janúar urðu tveir snarpir skjálftar, M 3,5 og 3,2.  Upptök þeirra eru nánast við bæjarmörk Grindavíkur að norðanverðu.

Á næstu sólarhringum verður kaflinn um Reykjanesskagann á eldgos.is uppfærður enda mikil þekking bæst við hjá vísindamönnum eftir að hann var ritaður og búið að endurnefna og fjölga  eldstöðvakerfunum í samræmi við nýjar upplýsingar.

Snarpur jarðskjálfti á Hellisheiði

Upptök jarðskjálfta á Hellisheiði.  Myndin er fengin af jarðskjálftavefsjá Veðurstofu Íslands.
Upptök jarðskjálfta á Hellisheiði. Myndin er fengin af jarðskjálftavefsjá Veðurstofu Íslands.

Rétt fyrir kl.3 í nótt vöknuðu margir íbúar á suðvesturhorni landsins við jarðskjálfta.  Greina mátti drunur á undan skjálftanum og svo titring sem stóð yfir í fáeinar sekúndur.   Skjálftinn átti upptök sunnarlega á Hellisheiði, rúma 3 km vsv af Skálafelli og mældist M 4,4 af stærð.

Skjálftinn hefur væntanlega verið harðastur í Hveragerði, Selfossi, Ölfusi og byggðarlögum suður með sjó, t.d. Þorlákshöfn. Um 25 eftirskjálftar hafa mælst 10 klst. síðar en allir litlir.

Þetta er brotaskjálfti á flekaskilum og þó hann eigi upptök á mjög eldbrunnu svæði þá bendir ekkert til annars en að um stakan brotaskjálfta sé að ræða.

Þetta er jafnframt við vestari endann á Suðurlandsskjálftasvæðinu.   Í skjálftunum árin 2000 og 2008 vantaði í raun stóran skjálfta á þessu svæði til að “klára” ferlið.  Þetta er þó klárlega ekki sá skjálfti, til þess hefði hann þurft að vera mun stærri.  Hvort að sá skjálfti komi yfirhöfuð fyrr en í næstu Suðurlandsskjálftahrinu er erfitt að segja til um.

Scroll to Top