Hlaup í Múlakvísl — Hræringar í Kötlu
Hlaup hófst í Múlakvísl sem rennur undan Mýrdalsjökli í gærkvöldi. Talið er að mjög aukinn jarðhiti valdi hlaupinu. Nú undir morgun var búið að loka þjóðvegi eitt þar sem vatn var tekið að flæða yfir brúna á Múlakvísl. Samkvæmt fréttum RÚV hafa verið hræringar í Mýrdalsjökli í nótt og órói mælst á mælum allt vestur í Grafning. Ekki er þó talið að um gosóróa sé að ræða. Svipuð hlaup áttu sér stað 1955 og 1999 í Múlakvísl og í fyrra skiptið var talið að smágos hafi orðið undir jökli en ekki náð upp á yfirborðið.
Lengi hefur verið búist við gosi í Kötlu en síðast gaus í fjallinu árið 1918. Hér má sjá umfjöllun um Kötlu.
UPPFÆRT KL. 07 25
HUGSANLEGT AÐ LÍTIÐ GOS SÉ HAFIÐ Í KÖTLU
Samkvæmt mbl.is gæti lítið gos verið í gangi í Kötlu enda bendir órói á mælum til þess. Þetta gos er þó mjög lítið og allt eins víst að það nái ekki upp úr jökli sem er mjög þykkur á þessum slóðum. Samskonar atburður átti sér líklega stað 1955 en þá voru mælitæki ekki jafn fullkomin og nú.
UPPFÆRT KL. 2045
Allar líkur eru á að lítið gos hafi orðið í suðaustur horni Kötluöskjunnar í nótt en það hafi ekki náð uppúr ísnum sem er allt að 700 metra þykkur í Kötluöskjunni. Þetta er því mjög svipaður atburður og átti sér stað árið 1955 en þá varð að öllum líkindum smágos í norðurenda öskjunnar. Barmar sigkatlanna sem mynduðust í jöklinum í nótt eru allt að 50 metra háir og verður að telja mjög ólíklegt að jarðhiti einn og sér valdi svo snöggri og mikilli bráðnun. Líklega hefur minniháttar kvikuinnskot náð til yfirborðs undir jöklinum.
Þetta gæti verið einskonar “forgos” líkt og á Fimmvörðuhálsi í fyrravor en þetta gæti líka verið stakur atburður. Hinsvegar hafa verið hræringar í Kötlu undanfarnar vikur, margir smáskjálftar sem bendir til þess að hreyfing sé að eiga sér stað í kvikuhólfinu. Framhaldið er óljóst en fjallið er vel vaktað. Snarpir jarðskjálftar ca 4-5 ár Richter eru að jafnaði undanfarar venjulegs Kötlugoss og þeir færu ekki framhjá neinum.
Brúin yfir Múlakvísl sópaðist í burtu í hamförunum sem þó eru aðeins örlítið sýnishorn af Kötluhlaupi eins og þau eru þegar um meiriháttar gos er að ræða. Hér að neðan er youtube videó sem sýnir skemmdir og jakahröngl á þjóðvegi eitt eftir hlaupið.
httpv://www.youtube.com/watch?v=oMTTyztwKpg&feature=player_embedded