Katla

Smáskjálftahrina og órói í Kötlu

Í dag hefur gengið yfir enn ein smáskjálftahrinan í Kötlu.  Sem fyrr eiga flestir skjálftarnir upptök i öskjunni.  Samkvæmt mynd af upptökum skjálftanna á vef Veðurstofunnar virðast upptökin raða sér á tvær sprungur með V-A stefnu í miðri öskjunni og sunnan til í henni eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.   Skjálftarnir eru litlir, flestir á bilinu 0,5-2 á Richter en fjöldi þeirra er heldur meiri en vanalegt er á svo stuttum tíma.  Þá hefur einnig komið fram órói á mælum sem helst líkist vatnsrennsli samkvæmt fréttum RÚV en ekki er enn vitað hvað er um að ræða.  Almannavörnum hefur verið gert viðvart um ástandið þó hætta sé ekki talin yfirvofandi að svo stöddu.

Nú er sá tími sem helst er að vænta goss í Kötlu sé miðað við söguna.  Eins og sést á töflunni hér að neðan um þau gos í Kötlu sem tímasetning er nákvæmlega vituð, þá hefjast öll gosin á tímabilinu maí- nóvember og langflest reyndar að hausti til.  Þetta tengist snjóbráðnun og þ.a.l. þrýstingslétti á jöklinum en eldstöðin virðist viðkvæm fyrir slíkum breytingum og kemur þetta fram í aukinni skjálftavirkni á haustin.  Enn er of snemmt að segja til um hvort gos verði í Kötlu þetta haustið en það verður ekki hjá því horft að það er líklegra en oft áður miðað við óróann undanfarna mánuði.

Ár gos hefst
1580 11. Ágúst
1612 12. Október
1625 2. September
1660 3. Nóvember
1721 17. Maí
1755 17. Október
1823 26. Júní
1860 8. Maí
1918 12. Október

Fréttir um atburði dagsins:

mbl.is

Rúv.is

Visir.is

Mjög fróðlegt Youtube videó um Kötlu:

httpv://www.youtube.com/watch?v=ji-yY3OmAZY&feature=player_embedded#!

Ár gos hefst
1580 11. Ágúst
1612 12. Október
1625 2. September
1660 3. Nóvember
1721 17. Maí
1755 17. Október
1823 26. Júní
1860 8. Maí
1918 12. Október

Skjálfti yfir 3 á Richter í Kötlu

Um kl 18 45 í gærkvöldi varð jarðskjálfti í Kötlu upp á 3,2 á Richter samkvæmt sjálfvirkum mælum Veðurstofunnar.  Mældist skjálftinn á tæplega 3ja kílómetra dýpi í norðvestur- hluta öskjunnar.  Nokkuð hefur verið um skjálfta á svæðinu í allt sumar og langflestir þeirra í öskjunni.  Þó er einnig alltaf eitthvað um skjálfta vestar á svæðinu, í grennd við Goðabungu.

Það er alkunn staðreynd að skjálftum fjölgar í Mýrdalsjökli þegar nær dregur hausti og tengist það ísbráðnun á jöklinum sem nær hámarki á þessum árstíma.  Flest eldgos á sögulegum tíma í Kötlu hafa orðið á tímabilinu ágúst-nóvember.  Aukin jarðhitavirkni og nýjir sigkatlar í jöklinum ásamt nokkurri skjálftavirkni gefa fulla ástæðu til að fylgjast með þó of snemmt sé að segja að eldgos sé yfirvofandi.  Meðfylgjandi mynd er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Mikil leiðni í Múlakvísl

Enn og aftur er Katla að valda mönnum áhyggjum.  Leiðni jókst í kvöld í Múlakvísl og einnig vatnshæð og hitastig.  Af öryggisástæðum var þjóðveginum um Mýrdalssand lokað tímabundið meðan verið var að kanna aðstæður.  Er þetta enn eitt dæmið um aukinn jarðhita í Mýrdalsjökli.  Sigkötlum hefur fjölgað og þeir sem fyrir voru hafa stækkað til muna undanfarna daga.  Katla er því nánast komin í gjörgæslu vísindamanna.

Mbl.is – Náið fylgst með Mýrdalsjökli

Ruv.is – Breytingar i Múlakvísl

Visir.is – Aukin leiðni í Múlakvísl og órói í Mýrdalsjökl

Næturskjálftar í Kötlu

Í nótt varð jarðskjálftahrina í Kötlu.  Stærsti skjálftinn var samkvæmt upphaflegum mælingum 3.8 ár Richter en eitthvað virðist stærð skjálftans á reiki því skömmu síðar var hann lækkaður í 2.6.  Hann virðist þó hafa verið hækkaður aftur skv. vef veðurstofunnar í upprunalegan styrk.  Skjálftarnir röðuðu sér á SV-NA línu frá miðri öskjunni og til norðausturs.  Ró komst aftur yfir svæðið síðla nætur.

Þetta er framhald þess óróa sem verið hefur í Mýrdalsjökli undanfarið og bendir til einhverra hreyfinga í kvikuhólfi Kötlu.  Enn sem komið er eru skjálftar þó tiltölulega vægir miðað við það sem vænta má í undanfara Kötlugoss ef um slíkt er að ræða.  Myndin er fengin af vef veðurstofunnar og sýnir upptök skjálfta í Kötlu undanfarinn sólarhring.

Hlaup í Múlakvísl — Hræringar í Kötlu

Hlaup hófst í Múlakvísl sem rennur undan Mýrdalsjökli í gærkvöldi.  Talið er að mjög aukinn jarðhiti valdi hlaupinu.  Nú undir morgun var búið að loka þjóðvegi eitt þar sem vatn var tekið að flæða yfir brúna á Múlakvísl.  Samkvæmt fréttum RÚV hafa verið hræringar í Mýrdalsjökli í nótt og órói mælst á mælum allt vestur í Grafning.  Ekki er þó talið að um gosóróa sé að ræða.  Svipuð hlaup áttu sér stað 1955 og 1999 í Múlakvísl og í fyrra skiptið var talið að smágos hafi orðið undir jökli en ekki náð upp á yfirborðið.

Lengi hefur verið búist við gosi í Kötlu en síðast gaus í fjallinu árið 1918.  Hér má sjá umfjöllun um Kötlu.

UPPFÆRT KL. 07 25

HUGSANLEGT AÐ LÍTIÐ GOS SÉ HAFIÐ Í KÖTLU

Samkvæmt mbl.is gæti lítið gos verið í gangi í Kötlu enda bendir órói á mælum til þess.  Þetta gos er þó mjög lítið og allt eins víst að það nái ekki upp úr jökli sem er mjög þykkur á þessum slóðum.  Samskonar atburður átti sér líklega stað 1955 en þá voru mælitæki ekki jafn fullkomin og nú.

UPPFÆRT KL. 2045

Allar líkur eru á að lítið gos hafi orðið í suðaustur horni Kötluöskjunnar í nótt en það hafi ekki náð uppúr ísnum sem er allt að 700 metra þykkur í Kötluöskjunni.  Þetta er því mjög svipaður atburður og átti sér stað árið 1955 en þá varð að öllum líkindum smágos í norðurenda öskjunnar.   Barmar sigkatlanna sem mynduðust í jöklinum í nótt eru allt að 50 metra háir og verður að telja mjög ólíklegt að jarðhiti einn og sér valdi svo snöggri og mikilli bráðnun.  Líklega hefur minniháttar kvikuinnskot náð til yfirborðs undir jöklinum.

Þetta gæti verið einskonar “forgos” líkt og á Fimmvörðuhálsi í fyrravor en þetta gæti líka verið stakur atburður.  Hinsvegar hafa verið hræringar í Kötlu undanfarnar vikur, margir smáskjálftar sem bendir til þess að hreyfing sé að eiga sér stað í kvikuhólfinu.  Framhaldið er óljóst en fjallið er vel vaktað.  Snarpir jarðskjálftar ca 4-5 ár Richter eru að jafnaði undanfarar venjulegs Kötlugoss og þeir færu ekki framhjá neinum.

Brúin yfir Múlakvísl sópaðist í burtu í hamförunum sem þó eru aðeins örlítið sýnishorn af Kötluhlaupi eins og þau eru þegar um meiriháttar gos er að ræða.  Hér að neðan er youtube videó sem sýnir skemmdir og jakahröngl á þjóðvegi eitt eftir hlaupið.

httpv://www.youtube.com/watch?v=oMTTyztwKpg&feature=player_embedded

Scroll to Top