Katla

Yfir 100 skjálftar í Kötlu í dag

Jarðskjálftar í Kötlu síðasta sólarhringinn.  Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.
Jarðskjálftar í Kötlu síðasta sólarhringinn. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Yfir 100 jarðskjálftar hafa mælst í Kötluöskjunni  í Mýrdalsjökli síðasta sólarhringinn sem er mesta tíðni skjálfta þar síðan amk. árið 2011.  Skjálftarnir eru flestir grunnir og smáir.  Ekki fylgir gosórói og ekkert sem bendir enn til þess að skjálftarnir tengist kvikuhreyfingum í eldstöðinni.  Líklegast tengjast skjálftarnir jarðhitavirkni í jöklinum.  Stærstu skjálftarnir eru um M3 af stærð en fyrir réttum mánuði mældust skjálftar um M 4,5 sem voru þá stærstu skjálftar í Kötlu í tæp 40 ár.   Þá er fremur há leiðni í Múlakvísl sem aftur bendir til þess að jarðhitavirkni valdi skjálftunum.

Þrátt fyrir að ekki virðist um kvikuhreyfingar að ræða og eldgos því fremur ólíklegt í óbreyttri stöðu þá hefur virkni verið með mesta móti í Kötlu þetta haustið.

——–

 

UPPFÆRT 30.SEPT KL 1800

ÓVISSUSTIGI LÝST YFIR OG SKJÁLFTARNIR NÚ TALDIR TENGJAST KVIKUHREYFINGUM

Skjálftahrinan hefur haldið áfram af fullum krafti í dag og mældust nokkrir skjálftar yfir M3 um hádegisbilið.  Í framhaldi af því hefur verið lýst yfir óvissustigi vegna Kötlu sem þýðir að stærri atburðir séu mögulegir.  Nákvæm skilgreining á óvissustigi samkvæmt vef Almannavarna er þessi:

“Óvissustig almannavarna þýðir að aukið eftirlit er haft með atburðarrás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað. Að lýsa yfir óvissustigi er hluti af verkferlum í skipulagi almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf á milli viðbragðsaðila.”

Vísindamenn funduðu um stöðu mála í dag og telja skv. fréttum á Rúv að skjálftarnir tengist kvikuhreyfingum undir eldstöðinni.   Það vekur óneitanlega athygli hversu grunnir skjálftarnir mælast því vitað er að kvikuhólf Kötlu er á nokkurra kílómetra dýpi.  Þessir skjálftar mælast hinsvegar við yfirborð öskjunnar.  Skýringin gæti verið sú að þrýstingur að neðan vegna kvikuhreyfinganna brjóti upp bergið ofar í öskjunni.  Ef sú er raunin þá er alls ekki hægt að útiloka eldgos í framhaldinu en enn verður að meta það svo að meiri líkur eru á  því að hrinan lognist útaf.

Hinsvegar eru menn einnig á varðbergi gagnvart svipuðum atburðum og urðu árið 2011 þegar allstórt hlaup kom í Múlakvísl og nú er talið að það hafi verið vegna lítils eldgoss sem náði ekki að bræða sig í gegnum jökulinn.  Slíkt kann oft að hafa gerst áður en ekki er vitað um tíðni þessara “leynigosa” en atburðir undanfarin ár bæði í Mýrdalsjökli og Vatnajökli benda til þess að þau kunni að vera nokkuð tíð.

Fréttir af jarðskjálftunum í Kötlu

Visir.is:  Fimmtíu jarðskjálftar í Kötlu

Ruv.is: Aukin skjálftavirkni í Kötluöskju

Mbl.is: Skjálftahrinur í Kötlu

 

Stærstu skjálftar í Kötlu í 39 ár

Katla29ag2016Tveir snarpir jarðskjálftar urðu í Kötlu laust fyrir kl. 2 í nótt.  Mældust þeir M 4,6 og 4,5 sem eru stærstu skjálftar í Mýrdalsjökli síðan árið 1977 þegar skjálfti upp á M 5.1 varð í Kötluöskjunni.

Stóru skjálftarnir nú áttu upptök nærri sigkötlum norðarlega í öskjunni en einnig urðu skjálftar sunnan til í henni.  Skjálftarnir munu hafa fundist í Langadal í Þórsmörk en ekki annarsstaðar.  Enginn gosórói hefur mælst og ólíklegt að eldgos sé yfirvofandi en svona stórir skjálftar í eldfjalli setja menn þó í viðbragðsstöðu.  Samkvæmt heimildum um fyrri Kötlugos þá gerir hún boð á undan sér  með hörðum jarðskjálftum sem verður vart í byggð.  Til þess þurfa þeir líkast til að vera yfir M 5 af stærð.

Nú í haust eru 98 ár síðan Katla gaus síðast sem er eitt lengsta goshlé sem orðið hefur í eldstöðinni síðan land byggðist.  Nokkur órói var í Kötlu í kjölfar gossins í Eyjafjallajökli og árin 2011-12 og svo aftur 2014 þegar hlaupvatns varð vart í ám frá Mýrdalsjökli.  Skjálftavirkni í Kötlu er yfirleitt mest á haustin og á þeim árstíma hafa einnig orðið flest eldgos í eldstöðinni.  Skýringin á haustjarðskjálftunum er væntanlega þrýstingsbreytingar vegna sumarbráðnunar í jöklinum.

Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir upptök skjálfta í Mýrdalsjökli síðustu sólarhringa.

Fréttir af atburðunum í Kötlu:

Ruv.is : Enginn gosórói en fylgst með Kötlu

Mbl.is : Jarðskjálftahrina í Kötluöskjunni

Visir.is : Katla minnir á sig með öflugri jarðskjálftahrinu

 

 

Haustskjálftar í Kötlu

Jarðskjálftar í Kötlu og á Torfajökulssvæðinu undanfarna sólarhringa.  Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.
Jarðskjálftar í Kötlu og á Torfajökulssvæðinu undanfarna sólarhringa. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Hrina af grunnum jarðskjálftum varð í Kötlu í Mýrdalsjökli í nótt.  Stærsti skjálftinn mældist M 3,3 og hefur tæplega fundist í byggð, til þess þurfa skjálftar í Kötlu að vera töluvert öflugri.    Þar sem skjálftarnir eru grunnir þá bendir það til jarðhitavirkni frekar en að kvika sé á hreyfingu.

Jarðskjálftavirkni í Kötlu er að jafnaði meiri á haustin en á öðrum árstímum og orsakast væntanlega af þrýstingsbreytingum vegna bráðnunar á jöklinum yfir sumartímann.  Í sögunni hafa einnig flest eldgosin þar hafist að hausti til, oftast í október.  Fremur rólegt hefur verið yfir Kötlu hin allra síðustu ár.  Hlaupvatn komst þó í ár sem renna frá jöklinum í júlí 2014 í kjölfar jarðskjálftavirkni en ekkert meira varð úr því.

Í heild hefur verið afar rólegt yfir landinu síðan gosinu í Holuhrauni lauk, helst að snarpar jarðskjálftahrinur á Reykjaneshrygg hafi vakið athygli.

Nú gætum við verið að horfa fram á óróatíð hvað varðar Kötlu sem gaus síðast árið 1918.  Einnig hefur verið nokkuð um smáskjálfta á Torfajökulssvæðinu norðan við Mýrdalsjökul en það gerist endrum og eins og tengist tæplega Kötlu.

Þá virðist órói vera að aukast aftur í grennd við Bárðarbungu og jafnvel taldar líkur á að kvika sé farin að safnast saman aftur í iðrum eldfjallsins.

Jarðskjálftar í Kötluöskjunni – Hlaupvatn í ám

Skjálftar í Kötlu undanfarna sólarhringa.  Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.
Skjálftar í Kötlu undanfarna sólarhringa. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur lýst yfir óvissustigi vegna óróa í Mýrdalsjökli.  Síðastliðna viku hafa mælst fjölmargir grunnir jarðskjálftar austarlega í Kötluöskjunni og nú hefur orðið vart við aukna leiðni og hlaupvatn i ám sem renna frá jöklinum, þ.e. Jökulsá á Sólheimasandi og Múlakvísl.

Það er þó ekkert sem bendir til þess að Kötlugos sé í aðsigi, skjálftarnir tengjast nær örugglega jarðhitakerfum i jöklinum og einnig hlaupvatnið.  Veðurfarslegar ástæður eru því líklegri heldur en að kvika sé að stíga upp en þegar Katla á í hlut þá er fylgst sérlega vel með og gefnar út tilkynningar um leið og eitthvað breytist.   Skjálftavirkni eykst að jafnaði um mitt sumar í Kötlu og helst fram á haust.  Virknin núna er eitthvað meiri en á sama tima undanfarin ár.

Sumarið 2011 varð eins og menn muna talsvert hlaup í Múlakvísl sem olli tjóni  á þjóðveginum auk þess að gjöreyðileggja brú yfir ána.  Bráðabirgðabrú var reist á nokkrum dögum og svo vill til að nýbúið er að hleypa umferð á nýja fullgerða brú yfir ána.  Eins og staðan er núna ætti hún þó ekki að vera í hættu.

Fréttir um óróann i Kötlu:

Rúv: Vísindamenn fylgjast grannt með Kötlu

Vísir.is: Órói í Kötlu bræðir hlaupvatn í jökulár

Mbl.is: Óvissustig vegna jökulhlaups

DV.is: Leiðsögumaður:”Það er venjulega ekkert vatn á þessu svæði”

 

 

 

Smáskjálftar bæði í Heklu og Kötlu

Skjálftar í eldstöðvum á Suðurlandi undanfarinn sólarhring.  Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.
Skjálftar í eldstöðvum á Suðurlandi undanfarinn sólarhring. Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.

 

Undanfarna sólarhringa hafa smáskjálftar orðið bæði í Heklu og Kötlu.  Hvað Heklu varðar þá birtust um það fréttir nýlega að kvikusöfnun væri orðin meiri í kvikuhólfi fjallsins en fyrir síðasta gos, reyndar var hún orðin það þegar árið 2006.  Skjálftar eru fátíðir í Heklu á milli gosa en undanfarnar vikur hefur mátt greina einn og einn smáskjálfta.  Í gær (föstudagur 28.mars) urðu nokkrir slíkir skjálftar á mjög litlu svæði um 4 km. norðaustur af Heklu og voru mældir á 6-14km dýpi samkvæmt vef Veðurstofu Íslands.  Ómögulegt er að segja hvort eldgos sé beinlínis yfirvofandi í Heklu en þar sem aðeins gæti gefist klukkustund og jafnvel minna en það frá því mælingar gefa til kynna að gos sé að hefjast, þá er engan veginn hægt að mæla með því að gengið sé á fjallið.

Í Kötlu hafa mælst um 20 smáskjálftar í dag, flestir mjög litlir í grennd við Goðabungu.  Þegar stillur eru þá eru mælar næmari fyrir smáum skjálftum og því þarf þetta í sjálfu sér ekki að vera neitt óeðlilegt en þó merki þess að eldstöðin sé lifandi.  Svo smáir skjálftar (0-1) geta reyndar allt eins verið íshrun í grennd við jarðhitasvæðin sem eru fjölmörg í Mýrdalsjökli.  Katla hefur reyndar verið mun rólegri í vetur en búast hefði mátt við eftir óróleika undanfarin ár.

Scroll to Top