STÓR JARÐSKJÁLFTI ÚTI FYRIR NORÐURLANDI – M 5,3

Birta á :

Um kl. 1 í nótt fannst jarðskjálfti víða á Norðurlandi sem átti upptök um 16km austur af Grímsey.  Skjálftar hafa verið þarna undanfarna daga og þeir stærstu um 3 stig þar til stóri skjálftinn kom nú í nótt en fyrstu mælingar benda til þess að hann hafi verið um 5,3 M af stærð.  Skjálftinn er á Tjörnesbeltinu en þar eru stórir skjálftar vel þekktir.  Skjálftahrinan nú virðist vera á sömu brotalínu og skjálfti sem varð árið 1910 og er talinn hafa verið um 7 stig, þ.e. nyrstu brotalínunni í Tjörnesbeltinu sem teygir sig inn í Öxarfjörð.  Hér má sjá umfjöllun um svæðið eftir jarðskjálftana i september í fyrra.

Fullvíst má telja að eftirskjálftar verða margir næstu sólarhringa en ómögulegt er að segja til um hvort þetta sé stærsti skjálftinn í þessari hrinu.  Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands. og sýnir skjálftaupptökin í hrinunni.

Fréttir fjölmiðla af skjálftanum í nótt

Pressan.is:  Harður jarðskjálfti austur af Grímsey

mbl.is:  Stór skjálfti austur af Grímsey

Ruv.is:  Snarpur skjálfti fyrir norðan

Uppfært kl. 12:15

Óvissustigi lýst yfir

Almannavarnir hafa lýst yfir óvissustigi vegna jarðskjálftanna.  Stóri skjálftinn í gær reyndist vera 5,5 M af stærð.  Eins og búist var við hafa hundruð eftirskjálfta mælst, sá stærsti þeirra varð um kl. 9 í morgun og mældist 4,7.  Einnig mátti búast við því að virknin teygði sig til suðausturs og það virðist einnig vera að gerast.  Á þessu svæði er fjöldi misgengja og sprungna og óvíst hvaða áhrif þessir skjálftar hafa á þau.  Eldvirkni á þessu svæði tengd skjálftunum er afar ólíkleg.

Uppfært 3.apríl kl. 00 30

Enn er mikil virkni á svæðinu og í kvöld urðu skjálftar uppá 4,7 og 4,4 talsvert suðaustan við skjálftaupptökin í gær og er ljóst að misgengið er að brotna upp í átt að Öxarfirði og Kópaskeri.  Líklegt er að sú þróun haldi áfram.

Á neðri myndinni sem tekin er af vef Veðustofunnar um kl. 00 15 sést þessi færsla vel en grænu stjörnurnar tákna skjálfta yfir M 3,0.  Þessi hrina er allsekkert einsdæmi á þessum slóðum, þarna varð öflug hrina árið 2002 með skjálfta yfir 5 M.  Hrinan sem nú er í gangi er þó enn öflugri.

 

 

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt.

Scroll to Top