Gosvirknin lotubundin – Veruleg gosmengun á höfuðborgarsvæðinu

Birta á :
Gosmóðan var greinileg á höfuðborgarsvæðinu síðustu nótt. Mynd: Óskar Haraldsson

Gosið í Fagradalsfjalli hefur enn einu sinni tekið hamskiptum.  Í Tvígang hefur það algjörlega legið niðri í upp undir 12 tíma en tekið sig svo upp aftur af enn meiri krafti en áður.  Hefur virknin fallið svo mikið og lengi að margir hafa talið að gosinu væri hreinlega lokið.  Hafa goshléin verið útskýrð með því að hrun hafi orðið í gígnum og hann stíflast.  Þetta verður að teljast heldur hæpin kenning því gosórói hefði átt að mælast ef kvikan væri að hamast við að brjóta sér leið upp aftur.  Líklegra er að framboð kviku að neðan hafi tímabundið minnkað.  Ef svo er þá má ætla að farið sé að styttast í goslok.

Það er þó ekki að sjá á gosinu í dag að því sé að ljúka, það hefur verið mjög öflugt frá því í gærkvöldi.  Hraun rennur bæði í Nátthaga og Meradali, þó heldur meira í Meradali.  Það hefur ekki bæst við það mikið í Nátthaga að stíflunni sem þar var gerð til varnar Suðurstrandavegi sé ógnað í bili amk.  

Í hægum vindi safmanst gosmóðan gjarnan upp og mjakast einhverja tugi kílómetra frá upptökunum.  Í gær lá talsverð móða yfir höfuðborgarsvæðinu og voru viðkvæmir beðnir að halda sig helst innandyra. 

Lítil jarðskjálftavirkni hefur fylgt gosinu alveg frá því það hófst og mælast nú mjög fáir og litlir skjálftar á Reykjanesskaganum.  Það bendir til þess að gosrásin sé vel smurð og kvikan flæðir áreynsulaust upp á yfirborðið.

Scroll to Top