Annáll Heklugosa
Hekla verður að teljast nokkuð líkleg til að gjósa á næstu vikum eða mánuðum þó enn sé of snemmt að fullyrða það. Því er ekki úr vegi að fara lauslega yfir Heklugos á sögulegum tíma. Vegna nálægðar Heklu við byggð þá er ekkert vafamál að öll Heklugosin eru þekkt, ólíkt því sem á við um eldstöðvar sem eru lengra uppi á hálendinu eða í Vatnajökli sem dæmi.
1104 Fyrsta gosið í Heklu eftir landnám og jafnframt það mesta. Goshlé hefur verið amk. 250 ár frá næsta gosi á undan en svo langt hlé hefur ekki orðið á Heklugosum síðan. Gosið var eingöngu gjóskugos og komu upp um 2,5 km3 af súrri gjósku. Mjög mikið tjón varð enda var blómleg byggð í Þjórsárdal um þetta leyti sem eyddist svo að segja öll í gosinu. Aðeins eitt öskugos hefur verið stærra síðan land byggðist, það varð í Öræfajökli árið 1362. Veturinn 1105 var kallaður “sandfallsvetur” og er skýringin væntanlega öskufall eða öskufok frá gosstöðvunum enda súr ríólít askan kísilrík og eðlisléttari en gosefni úr basalti sem eru algengari. Ekki er vitað hve lengi gosið stóð.
…


