GOSIÐ Í FAGRADALSFJALLI ER DYNGJUGOS – ÞAÐ FYRSTA Á ÍSLANDI Í ÞÚSUNDIR ÁRA

Birta á :
  • EFNAGREINING KVIKUNNAR BENDIR TIL UPPTAKA Í MÖTTLI Á UM 15-20 KM DÝPI

  • FYRSTA DYNGJUGOSIÐ Á ÍSLANDI Í LÍKLEGA 3-4000 ÁR

  • DYNGJUGOS GETA VARAÐ ÁRUM SAMAN

Það er óhætt að segja að eldsumbrotin á Reykjanesskaganum haldi áfram að koma jarðvísindamönnum á óvart.  Nú liggja fyrir frumefnagreiningar á kvikunni og í ljós hefur komið að hún samanstendur af ólivín-þóleiíti sem er ættað úr efri lögum möttulsins en ekki úr jarðskorpunni eins og algengast er.  Þessi kvika er því að koma mjög djúpt að án viðkomu í kvikuþró eða kvikuhólfi.  Þannig má segja að opin rás sé alla leið úr möttlinum að gosstöðinni.

Það reyndar benti ýmislegt fljótlega til þess að gosið væri ekki hefðbundið sprungugos.  Það byrjaði mjög rólega en ekki af krafti eins og eldgos gera gjarnan.  Vissulega dró eitthvað úr því fyrstu nóttina en síðustu þrjá sólarhringa hefur það mallað stöðugt áfram og ekki dregið úr því.  Reyndar virðist heldur meiri kraftur í því nú á þriðjudegi heldur en var t.d. á laugardaginn.  Yfirleitt hefjast eldgos af miklum krafti en dregur svo hægt og rólega úr þeim uns þau lognast útaf.  Það er vegna þess að verið er að tæma ákveðið hólf eða þró.  Í þessu tilfelli er ekki verið að því, það er bara beintenging við möttulinn!  Þá bentu mjög djúpir jarðskjálftar til þess að kvika væri að koma djúpt að.  Einnig er lögun hraunsins sérstök, mjög þunnfljótandi helluhraun.

Blómaskeið dyngjugosanna á Íslandi var um það leiti sem ísaldarjökullinn tók að hopa og miklum þrýstingi var aflétt af landmassanum.  Við það opnaðist auðveld leið fyrir kvikuna til yfirborðs.  Á þessum tíma, þ.e. fyrir 10-14,000 árum mynduðust margar geysistórar dyngjur t.d. Skjaldbreiður og Þráinsskjöldur.  Síðarnefnda dyngjan er reyndar rétt við núverandi gosstöðvar.  Dyngjugos núna er því vægt til orða tekið óvænt.

Rúmlega 20 dyngjur eru þekktar á Reykjanesskaganum en engin yngri en um 3-4000 ára.  Stærstu þekktu hraunin á skaganum eru öll úr dyngjugosum.  

HVAÐ ER DYNGJUGOS?

  • FRUMSTÆTT GOSBERG ÆTTAÐ ÚR MÖTTLI ÁN VIÐKOMU Í JARÐSKORPUNNI, GETA ORÐIÐ UTAN ELDSTÖÐVAKERFA 
  • STAÐSETNING TILVILJANAKENNDARI EN ÖNNUR ELDGOS
  • DYNGJUGOS GETA VERIÐ MJÖG LANGVARANDI, VARAÐ Í ÁR EÐA ÁRATUGI
  • YFIRLEITT EINN VIRKUR AÐALGÍGUR ÞEGAR LÍÐUR Á GOSIÐ EN GETA BYRJAÐ SEM SPRUNGUGOS
  • HRAUNIÐ ER ÞUNNT, REIPÓTT HELLUHRAUN ÞAR SEM HRAUNLÖGIN HLAÐAST OFAN Á HVERT ANNAÐ

Hér að neðan er reynt að skýra muninn á dyngjugosi og hefðbundnu gosi á myndum

Dyngjugos. Kvikan flæðir stystu leið úr möttlinum til yfirborðs og vellur uppúr einum aðalgíg í fremur afllitlu gosi. Smámsaman myndast dyngja umhverfis gosrásina.  Vegna þess hve greiðan aðgang kvikan á frá möttlinum geta þessi gos orðið mjög löng.  Það er þó engin regla, þau geta líka staðið stutt.
Sprungugos. Kvikan flæðir úr möttli í kvikuþró eða kvikuhólf þar sem hún situr gjarnan í áratugi, aldir eða jafnvel árþúsund áður en hún brýtur sér leið til yfirborðs í gosi sem gjarnan er öflugt fyrst en dregur fljótt úr því. Gígaraðir á gossprungum sem eru frá nokkur hundruð metrum upp í nokkra kílómetra algengar. Geta orðið tugir kílómetra að lengd í stórum gosum.

NOKKUÐ HEFUR DREGIÐ ÚR GOSINU

Birta á :

Talsvert hefur dregið úr gosinu í Fagradalsfjalli í nótt og virtist lítil sem engin kvikustrókavirkni vera í gangi þegar þyrla Landhelgisgæslunnar flaug yfir gosstöðvarnar í morgun.  Hraun vellur þó enn uppúr sprungunni.

Gosið hefði vart getað komið upp á betri stað en í dalverpinu sem kallast Geldingadalur í Fagradalsfjallgarðinum.  Hrauntungurnar eru svo gott sem lokaðar af í dalnum og fara varla mikið lengra en orðið er.  Eina ógnin frá gosinu eru gosgufur en í svo litlu gosi eru þær eingöngu hættulegar alveg við gosstöðvarnar.  En það í sjálfu sér er næg ástæða til að vara fólk við því að nálgast gosið of mikið.  

HVAÐ GERIST NÆST?  Líklegast verður að telja að þessu gosi ljúki á næstu dögum og verður það eiginlega flokkað sem örgos.  EN, þetta gos markar nær örugglega upphaf eldgosavirkni á Reykjanesskaganum sem mun vara með hléum í nokkrar aldir.  Reikna má með hrinum á nokkurra áratuga fresti sem standa í einhver ár upp í áratugi með nokkrum gosum.  Hér er miðað við forsöguna en þessi umbrot skera sig reyndar strax úr sögulegu samhengi með því að hefjast í Fagradalsfjalli sem hefur verið lítt virkt síðustu árþúsund.  

Fyrirfram hefði mátt ætla að gosvirkni hæfist í Brennisteinsfjallakerfinu og færðist svo vestur eftir skaganum eins og gerðist líklega á síðustu tveim gosskeiðum á Reykjanesskaganum.  Hinsvegar hefur það kerfi verið hvað minnst virkt hvað varðar jarðskjálfta alllengi meðan önnur kerfi hafa bæði sýnt mikla jarðskjálftavirkni og verið vettvangur kvikuinnskota síðasta árið.  Brennisteinsfjallakerfið virðist “læst” og gæti brotnað upp í nokkuð stórum skjálfta hvenær sem er og þá hugsanlega kvikuinnskot og eldgos í kjölfarið.

Þá verður að hafa augun á kerfunum sem hafa sýnt virkni undanfarið, Reykjaneskerfið og Svartsengi.  Þar urðu smávægileg kvikuinnskot á síðasta ári sem gætu verið byrjunin á einhverju meiru.  Krísuvíkurkerfið hefur einnig sýnt virkni síðustu ár hvað varðar jarðskjálfta og smávægileg kvikuinnskot.  Það virðist því vera að allur Reykjanesskaginn sé að vakna af löngum dvala.

Það var líka viðbúið að fyrsta gosið yrði smátt.  Þannig var það í Kröflueldum, þannig var það í Eyjafjallajökli (gosið á Fimmvörðuhálsi) og í Holuhrauni varð einnig smágos áður en stórgosið varð stuttu síðar.  Reykjanesskaginn ef af þessum kerfum líkastur Kröflueldstöðinni en þó lítt þróaðri og frumstæðari eldstöðvar enda ekki kvikuhólf og öskjumyndanir í þeim.  

Næstu vikur og mánuðir verða fróðlegir.  Munu jarðskjálftahrinur og kvikuinnskot verða viðvarandi með stuttu millibili eða líða margir mánuðir og ár á milli þeirra?  Líklegra verður að teljast að þar sem virknitímabil er hafið þá verða þessar hrinur með fremur stuttu millibili. Ólíklegt er að eldgos fylgi þeim öllum en eflaust einhverjum.  Þá er bara að vona að þessi gos verði á stöðum þar sem þau valda ekki tjóni.

 

Rúv er með virka vefmyndavél frá Fagradalsfjalli, örskammt frá gosinu.  Smellið á myndina að neðan til að nálgast hana

ELDGOS HAFIÐ VIÐ FAGRADALSFJALL

Birta á :

ELDGOS HÓFST NÚ Í KVÖLD VIÐ FAGRADALSFJALL – FYRSTA GOSIÐ Á REYKJANESSKAGA Í 781 ÁR OG FYRSTA GOSIÐ Í FAGRADALSFJALLSKERFINU Í UM 6000 ÁR.  

Eiginlega öllum að óvörum þegar jarðfræðingar virtust vera að afskrifa eldgos þá skyndilega bregður fyrir gosbjarma yfir Fagradalsfjalli sem sést víða af á Reykjanesskaganum.  Beðið er eftir myndum af gosinu sjálfu en stærð þess er enn sem komið er algjörlega óráðin.  Líklegast verður þó að telja að það sé í minni kantinum miðað við hve átakalaust kvikan náði yfirborði.

Upptökin eru að því er virðist í svokölluðum Geldingadal austarlega í Fagradalsfjalli.  Það er reyndar sérlega hentugur staður fyrir eldgos því mjög ólíklegt er að hraun frá gosi á þessum stað ógni nokkrum mannvirkjum. Það eru tæpir þrír kílómetrar í Suðurstrandarveg frá gosstöðvunum.

Það að farið sé að gjósa á þessum stað þýðir einhvernskonar fasabreytingar í gossögu á Reykjanesskaga.  Undanfarin árþúsund hafa goshrinur hafist í Brennisteinsfjallakerfinu en ekki á miðjum skaganum.  Hvað þetta þýðir er svosem óljóst nema hvað að nú er öruggt að hafið er gostímabíl á Reykjanesskaga sem líklegt er að standi í nokkrar aldir með hléum.  

Þá er sérstaklega athyglisvert að gosið sé í Fagradalsfjallskerfinu sem ekki hefur látið á sér kræla í um 6000 ár að því að talið er. Meðan önnur kerfi á Reykjanesskaga hafa dælt úr sér hefur þetta kerfi ekki gert það.

Á Rúv kom fram kl. 22 45 að gosið virðist vera í vestanverðu Fagradalsfjalli og er fremur lítið.  

Sjá beina útsendingu á vefmyndavél livefromiceland.is  

Myndin að neðan er frá sömu vefmyndavél

SKJÁLFTAR M 5,4 OG 5,0 Í DAG VIÐ FAGRADALSFJALL

Birta á :

EKKERT LÁT ER Á SKJÁLFTAHRINUNNI VIÐ FAGRADALSFJALL SEM HEFUR NÚ STAÐIÐ Í TÆPAR ÞRJÁR VIKUR. NÆSTSTÆRSTI SKJÁLFTI HRINUNNAR MÆLDIST Í DAG M 5,4 MEÐ UPPTÖK AÐEINS 4 KM FRÁ GRINDAVÍK. FANNST HANN VESTUR Á FIRÐI OG Á SAUÐÁRKRÓKI.

Það er eiginlega með ólíkindum að kvikan sem er á ferð grunnt undir yfirborðinu við Fagradalsfjall hafi ekki enn fundið sér leið upp á yfirborðið. Það þýðir að hún er enn að finna sér sprungur og glufur neðanjarðar til að troða sér í. Jarðfræðingar telja auknar líkur á eldgosi í kjölfar svo stórra skjálfta sem urðu í dag.

Kvikugangurinn virðist þó hafa staðið í stað undanfarna sólarhringa að færst eitthvað örlítið til suðurs. Aukið uppstreymi kviku hefur því etv. breikkað ganginn og hugsanlega fært hann nær yfirborði.

Myndin er fengin af skjálftavefsjá á vef Veðurstofunnar og sýnir upptök yfirfarinna skjálfta síðasta sólarhring.

Á myndinni að ofan sést að upptök stóra skjálftans voru aðeins um 4 km frá Grindavík enda lék allt á reiðiskjálfi þar meðan hann gekk yfir. Eitthvað tjón mun hafa orðið. Það að skjálftinn sé svona nálægt bænum þýðir ekki að kvikan sé þar, heldur er þetta talinn vera svokallaður gikkskjálfti sem er afleiðing spennubreytinga á allstóru svæði sem aftur er af völdum kvikuinnskotsins.

HVERNIG VERÐUR FRAMHALDIÐ?

Kvika streymir enn af allmiklu afli upp í jarðskorpuna undir Fagradalsfjalli. Það sýna um 2500-3000 jarðskjálftar á sólarhring sem er gríðarlegur fjöldi. Það er ekker sem bendir til þess að það sé að hægja á þessu uppstreymi. Kvikan er nú talin vera á aðeins 1 km dýpi og jafnvel minna en það. Enn verður telja líkur á eldgosi yfirgnæfandi, amk. meðan uppstreymið er svona mikið.

SKJÁLFTI M 5.1 Í NÓTT. KVIKAN KOMIN MJÖG NÁLÆGT YFIRBORÐI

Birta á :

Skjálftavirkni jókst mjög uppúr kl 18 í gærkvöldi og náði hámarki um kl 3 15 í nótt með skjálfta upp á M 5,1. Nokkrir skjálftar hafa náð M 4 af stærð og fjölmargir milli M 3 og 4, amk. 16 talsins frá miðnætti þar til þetta er ritað um kl 6 40. Margir þeirra hafa fundist á Reykjanesskaganum og höfuðborgarsvæðinu.

Kvikan hefur enn ekki náð að brjóta sér leið upp á yfirborðið en eins og staðan er núna virðist fátt geta komið í veg fyrir eldgos í eða við Fagradalsfjall. Kvikugangurinn er á um eins kílómetra dýpi að því að talið er og hefur verið að færast heldur í suðvestur og suðurátt. Virðist sem svo að hann hafi kvíslast í tvo ganga miðað við jarðskjálftavirknina. Annan til suðvesturs og hinn til suðurs frá Fagradalsfjalli.

Ef eldsuppkoma verður á þessum slóðum þá eru engin mannvirki í hættu nema ef vera skildi að hraunstraumur næði að Suðurstrandarvegi.

Mynd af skjálftavefsjá Veðurstofunnar. Hér má sjá líklega tvo ganga frá Fagradalsfjalli til suðvesturs og suðurs. Sá sem er nær Grindavík er í um 6 km fjarlægð frá bænum en fjallið Þorbjörn skýlir væntanlega bænum. Þá er Suðurstrandarvegur í um 1,6 km fjarlægð frá ganginum sem liggur til suðurs.
Scroll to Top