NOKKUÐ HEFUR DREGIÐ ÚR GOSINU

Birta á :

Talsvert hefur dregið úr gosinu í Fagradalsfjalli í nótt og virtist lítil sem engin kvikustrókavirkni vera í gangi þegar þyrla Landhelgisgæslunnar flaug yfir gosstöðvarnar í morgun.  Hraun vellur þó enn uppúr sprungunni.

Gosið hefði vart getað komið upp á betri stað en í dalverpinu sem kallast Geldingadalur í Fagradalsfjallgarðinum.  Hrauntungurnar eru svo gott sem lokaðar af í dalnum og fara varla mikið lengra en orðið er.  Eina ógnin frá gosinu eru gosgufur en í svo litlu gosi eru þær eingöngu hættulegar alveg við gosstöðvarnar.  En það í sjálfu sér er næg ástæða til að vara fólk við því að nálgast gosið of mikið.  

HVAÐ GERIST NÆST?  Líklegast verður að telja að þessu gosi ljúki á næstu dögum og verður það eiginlega flokkað sem örgos.  EN, þetta gos markar nær örugglega upphaf eldgosavirkni á Reykjanesskaganum sem mun vara með hléum í nokkrar aldir.  Reikna má með hrinum á nokkurra áratuga fresti sem standa í einhver ár upp í áratugi með nokkrum gosum.  Hér er miðað við forsöguna en þessi umbrot skera sig reyndar strax úr sögulegu samhengi með því að hefjast í Fagradalsfjalli sem hefur verið lítt virkt síðustu árþúsund.  

Fyrirfram hefði mátt ætla að gosvirkni hæfist í Brennisteinsfjallakerfinu og færðist svo vestur eftir skaganum eins og gerðist líklega á síðustu tveim gosskeiðum á Reykjanesskaganum.  Hinsvegar hefur það kerfi verið hvað minnst virkt hvað varðar jarðskjálfta alllengi meðan önnur kerfi hafa bæði sýnt mikla jarðskjálftavirkni og verið vettvangur kvikuinnskota síðasta árið.  Brennisteinsfjallakerfið virðist “læst” og gæti brotnað upp í nokkuð stórum skjálfta hvenær sem er og þá hugsanlega kvikuinnskot og eldgos í kjölfarið.

Þá verður að hafa augun á kerfunum sem hafa sýnt virkni undanfarið, Reykjaneskerfið og Svartsengi.  Þar urðu smávægileg kvikuinnskot á síðasta ári sem gætu verið byrjunin á einhverju meiru.  Krísuvíkurkerfið hefur einnig sýnt virkni síðustu ár hvað varðar jarðskjálfta og smávægileg kvikuinnskot.  Það virðist því vera að allur Reykjanesskaginn sé að vakna af löngum dvala.

Það var líka viðbúið að fyrsta gosið yrði smátt.  Þannig var það í Kröflueldum, þannig var það í Eyjafjallajökli (gosið á Fimmvörðuhálsi) og í Holuhrauni varð einnig smágos áður en stórgosið varð stuttu síðar.  Reykjanesskaginn ef af þessum kerfum líkastur Kröflueldstöðinni en þó lítt þróaðri og frumstæðari eldstöðvar enda ekki kvikuhólf og öskjumyndanir í þeim.  

Næstu vikur og mánuðir verða fróðlegir.  Munu jarðskjálftahrinur og kvikuinnskot verða viðvarandi með stuttu millibili eða líða margir mánuðir og ár á milli þeirra?  Líklegra verður að teljast að þar sem virknitímabil er hafið þá verða þessar hrinur með fremur stuttu millibili. Ólíklegt er að eldgos fylgi þeim öllum en eflaust einhverjum.  Þá er bara að vona að þessi gos verði á stöðum þar sem þau valda ekki tjóni.

 

Rúv er með virka vefmyndavél frá Fagradalsfjalli, örskammt frá gosinu.  Smellið á myndina að neðan til að nálgast hana

Scroll to Top