ELDGOS HAFIÐ VIÐ FAGRADALSFJALL

Birta á :

ELDGOS HÓFST NÚ Í KVÖLD VIÐ FAGRADALSFJALL – FYRSTA GOSIÐ Á REYKJANESSKAGA Í 781 ÁR OG FYRSTA GOSIÐ Í FAGRADALSFJALLSKERFINU Í UM 6000 ÁR.  

Eiginlega öllum að óvörum þegar jarðfræðingar virtust vera að afskrifa eldgos þá skyndilega bregður fyrir gosbjarma yfir Fagradalsfjalli sem sést víða af á Reykjanesskaganum.  Beðið er eftir myndum af gosinu sjálfu en stærð þess er enn sem komið er algjörlega óráðin.  Líklegast verður þó að telja að það sé í minni kantinum miðað við hve átakalaust kvikan náði yfirborði.

Upptökin eru að því er virðist í svokölluðum Geldingadal austarlega í Fagradalsfjalli.  Það er reyndar sérlega hentugur staður fyrir eldgos því mjög ólíklegt er að hraun frá gosi á þessum stað ógni nokkrum mannvirkjum. Það eru tæpir þrír kílómetrar í Suðurstrandarveg frá gosstöðvunum.

Það að farið sé að gjósa á þessum stað þýðir einhvernskonar fasabreytingar í gossögu á Reykjanesskaga.  Undanfarin árþúsund hafa goshrinur hafist í Brennisteinsfjallakerfinu en ekki á miðjum skaganum.  Hvað þetta þýðir er svosem óljóst nema hvað að nú er öruggt að hafið er gostímabíl á Reykjanesskaga sem líklegt er að standi í nokkrar aldir með hléum.  

Þá er sérstaklega athyglisvert að gosið sé í Fagradalsfjallskerfinu sem ekki hefur látið á sér kræla í um 6000 ár að því að talið er. Meðan önnur kerfi á Reykjanesskaga hafa dælt úr sér hefur þetta kerfi ekki gert það.

Á Rúv kom fram kl. 22 45 að gosið virðist vera í vestanverðu Fagradalsfjalli og er fremur lítið.  

Sjá beina útsendingu á vefmyndavél livefromiceland.is  

Myndin að neðan er frá sömu vefmyndavél

Scroll to Top