Orsakaði eldgos hlaupið úr Hamrinum ?

Birta á :

Nú eru taldar líkur á að lítið eldgos hafi orsakað jökulhlaupið í Sveðju og Köldukvísl í fyrradag. Samkvæmt frétt Bylgjunnar og Vísis átti hlaupið upptök sín á svæði skammt austan við Hamarinn og mynduðust tveir sigkatlar á stað þar sem ekki var vitað um jarðhita áður.  Þó þetta hafi verið mjög lítið gos þá er þetta staðfesting á aukinni virkni á þessu svæði.  Ekki er vitað nákvæmlega hvenær gaus í Hamrinum síðast en algengara er að gos í Bárðarbungukerfinu verði nær Bárðarbungu sjálfri.  Hamarinn er megineldstöð sem tilheyrir Bárðarbungukerfinu.  Jarðskjálftar hafa verið tíðir í grennd við Hamarinn undanfarin ár.

7 thoughts on “Orsakaði eldgos hlaupið úr Hamrinum ?”

  1. Hvernig er það, eru líkur á stórgosi á þessu svæði?

    Nú er hamarinn og katla að bæra á sér með þessum hugsanlegu smá gosum og sigkötlum er þetta eitthvða tengt svæði eða ?

    En annars er þetta frábær síða hjá þér 🙂 mikill fróðleikur og skemmtileg lesning.

    kveðja

    Daníel.

  2. Takk fyrir Daníel
    Ef einhversstaðar eru líkur á stórgosi á Íslandi á næstu árum þá er það einmitt þetta svæði, þ.e. Bárðarbunga og syðri hlutar þess kerfis, niður í Veiðivatnareinina. Engin önnur eldstöð er eins líkleg í stórgos eins og stendur.
    Stöðug jarðskjálftavirkni hefur verið í Bárðarbungu í tvo áratugi, jafnvel lengur. Nú veit ég ekki hvort einhverjar gps mælingar á landrisi hafa farið fram á svæðinu en það veitti allavega ekkert af því. Ég mundi segja já að það sé veruleg hætta á stórgosi í Bárðarbungukerfinu enda segir sagan að þar verða mjög mikil gos á 5-800 ára fresti. Síðast gerðist það árið 1480.

  3. …og nei ég held að það sé ekki tenging milli Kötlu og Bárðarbungu til þess er fjarlægðin of mikil. Mjög sennilega hrein tilviljun að þetta gerist með svona stuttu millibili.

  4. Þakka fyrir þessi svör .

    Maður fylgist bara vel með og sér hvað gerist, Þetta er nú einusinni náttúran okkar þannig að ALLT getur gerst.

  5. Góðan daginn,

    Þar sem ég hef persónulega nokkrum sinnum rekist á gögn að það sé ekki hægt að “Staðfesta gos” með 100% vissu (t.d. Katla 1955), þá fer ég að hugsa hvort það verði einhverntíma staðfest með Hamarinn?? Svo líka, eru til mörg dæmi um “möguleg gos” hér á landi?? Þriðja og seinasta spurninginn snýst um tæknimálinn, þar sem ég veit að við íslendingar eigum flugvél með háþróuðum mæli tækjum til að mæla eldgos og man ég að það var sýnt myndir í fréttunum frá Eyjafjallajökuls gosinu þar sem maður sá gíginn í gegnum allan fjandan, ég geri ráð fyrir að sú tækni virki ekki í gegnum ís en er forvitinn engu að síður hverskonar tækni fagmenn nota þegar þarf að rannsaka svona lagað þegar eldstöðinn er undir jökli semsé, eru öðruvísi vinnubrögð þá og ef svo hvernig??

    Fyrirfram þakkir þar sem ég veit að þessar spurningar kunna að hljóma furðulega.

  6. Sæll Árni Þór
    Nú er umsjónarmaður þessarar síðu aðeins áhugamaður sem hefur ekki aðgang að tækjabúnaði vísindamanna og veit í raun lítið um þann búnað. Í einu viðtali sá ég að jarðfræðingur taldi það “skilgreiningaratriðið” hvort eldgos varð við Hamarinn eða ekki. Ég skil það ekki alveg, annaðhvort náði kvikuinnskot til yfirborðs undir jöklinum eða ekki! Hafi það náð alla leið þá varð eldgos, hafi það ekki gert það þá varð ekki eldgos! Eitt er á hreinu og það er að þarna varð kvikuinnskot sem annaðhvort náði alveg til yfirborðs undir jöklinum í fáeinar klukkustundir eða þá nógu grunnt undir yfirborð til að valda mikilli ísbráðnun.
    Ég er samt álíka hissa og þú á þvi að ekki sé hægt með nútima tækjabúnaði að fá úr því skorið hvort eldgos varð eða ekki og það sama á við um hlaupið undan Kötlu nokkrum dögum fyrr. Nú veit ég að til eru þrívíddarmyndir af yfirborði undir jökli bæði hvað varðar Mýrdals- og Vatnajökul. Ég veit ekki hve nákvæmar myndirnar eru en hefði haldið að hægt væri að mynda svæðið aftur og athuga hvort breytingar hafi átt sér stað. t.d. hlaðist upp gígur undir kötlunum. En þetta er greinilega ekki einfalt mál miðað við hvað það vefst fyrir vísindamönnum að skera úr um þetta.

  7. ég þakka fyrir skjótt svar, það var einmitt sem ég var að furða mig á hví sú tækni sé ekki til staðar en þetta líka sýnir hvað þetta eru rosalega flókinn mál til að rannsaka fyrir vísindamenn.

    En eins og ég er að skrifa vill ég hrósa þér fyrir þessa heimasíðu, kem hingað alltaf annað slagið til að forvitnast og skoða.

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt.

Scroll to Top