Óhemjustór skriða féll ofan í Öskjuvatn í fyrrakvöld. Er talið að um 24 milljónir rúmmetra af efni hafi fallið í vatnið suðaustantil og skapað flóðbylgjur sem slettust allt að 50 metra upp á hamraveggina umhverfis vatnið. Náði vatn meira að segja að komast yfir haftið á milli Öskju og gígsins Víti. Varla þarf að spyrja að leikslokum hefði einhver verið niður við vatnið þegar þetta átti sér stað en til allrar hamingju var enginn á svæðinu. Yfirborð Öskjuvatns er nú tveim metrum hærra en fyrir berghlaupið.
Svo miklar voru hamfarirnar að óróapúls kom fram á jarðskjálftamælum í um 20 mínútur eftir atburðinn og ljós mökkur steig til himins.
Talið er að mikil hlýindi og snjóbráð að undanförnu hafi komið skriðunni af stað. Öskjuvatn myndaðist eftir stórgos árið 1875 og því er landslagið þarna mjög ungt og rof-og mótunaröfl í fullum gangi á svæðinu. Þessi atburður sem slíkur hefur ekkert með eldvirkni að gera né þann óróa og jarðskjálftahrinur sem átt hafa sér stað á svæðinu undanfarin ár.
Fréttir í fjölmiðlum um atburðinn:
RUV: Mikið rof í jarðlögum við Öskju
Visir.is: Flóðbylgjan náði inn í Víti
Mbl.is: Stór skriða féll í Öskjuvatn
Mbl.is: “Bráðabani” að fara niður að vatninu