Jarðskjáltar um víða veröld

 • Mon 18:57:39 (UTC) 3.2,Sumbawa Region, - Details
 • Mon 18:50:24 (UTC) 4.4,New Zealand - Details
 • Mon 18:27:54 (UTC) 3.2,New Zealand - Details
 • Mon 18:15:00 (UTC) 3.4,7 km al Suroeste de Vena.. - Details
 • Mon 17:55:25 (UTC) 3.3,Northern Alaska (USA) - Details
 • Mon 17:37:42 (UTC) 3.6,Halmahera, - Details
 • Mon 17:33:25 (UTC) 3.7,Offshore El Salvador - Details
 • Mon 17:15:48 (UTC) 4.3,Irian Jaya Region, - Details
 • Mon 17:07:22 (UTC) 4.2,New Zealand - Details
 • Mon 16:54:30 (UTC) 5.4,Myanmar (Myanmar (Burma).. - Details
(http://www NULL.chess NULL.com?ref_id=4222785)
Free online chess games! (http://www NULL.chess NULL.com/)

admin

Skjálftahrina í Skjaldbreið

Skjaldbreiður séður frá Þingvöllum Mynd Óskar Haraldsson

Skjaldbreiður séður frá Þingvöllum
Mynd Óskar Haraldsson

Allmargir jarðskjálftar mældust í Skjaldbreið í gærkvöldi og í nótt.  Sá stærsti M 3,7 og tveir aðrir yfir M 3.   Heldur dró úr virkninni með morgninum en hún gæti vel tekið sig upp aftur.  Skjaldbreið er innan sprungusveims Langjökulskerfisins og það er algengt að í því kerfi verði hrinur, jafnvel nokkuð öflugar.  Þær hrinur eru þó oftast vestan til í kerfinu, i grennd við Eiríksjökul eða Þórisjökul.

Skjaldbreiður er um 9000 ára gömul hraundyngja og mjög líklega mynduð i einu löngu gosi sem jafnvel hefur mallað í áratug.  Skjaldbreiður er því ekki sjálfstætt eldfjall eða eldstöðvakerfi.  Dyngjugosin voru um margt sérstök, þau virtust geta komið upp hvar sem er innan eldstöðvakerfanna og kvikan kom mjög djúpt að, úr möttlinum.  Slík eldgos eru afar sjaldgæf í dag og hafa í raun ekki orðið á Íslandi í nokkur þúsund ár.  Ástæða dyngjugosanna var bráðnun ísaldarjökulsins, landið lyftist tiltölulega hratt, miklar þrýstingsbreytingar fylgdu því og eldgosavirkni var allt að þrítugföld miðað við það sem nú er.

Það verður því að telja afar ólíklegt að Skjaldbreiður sé að fara að gjósa , líklega eru þetta dæmigerðir brotaskjálftar í grennd við flekaskil.  Langjökulskerfið sem heild er þó síður en svo dautt úr öllum æðum, það er mikil jarðskjálftavirkni í því en gosvirkni hinsvegar mjög lítili.  Aðeins eitt gos frá landnámi , er Hallmundarhraun rann um árið 900.  Það var reyndar mikið gos og hraunið rann um 50 km leið til byggða við Hvítársíðu.  Þetta hraun myndar t.d. landslagið í Kringum Hraunfossa nærri Húsafelli.

Gos í eldfjallinu Agung á Balí

frá gosinu sem hófst í Agung í gær

frá gosinu sem hófst í Agung í gær

Indónesía er eldvirkasta svæði jarðar, hundruð eldfjalla raða sér eftir endilöngum eyjunum, Súmötru , Jövu og minni eyjunum austan við Jövu.  Balí er ein þeirra.  Það sem veldur eldvirkninni í Indónesíu er að Indó-Ástralíuflekinn svokallaði rennur undir Evrasíu flekann.  Sá fyrr nefndi er gerður úr úthafsskorpu sem er mun þyngri en meginlandsskorpan sem Evrasíuflekinn er gerður úr.  Það verða því mikil átök þegar þessir tveir stóru flekar mætast og Indó-Ástralíuflekinn treður sér undir Evrasíuflekann.  Þetta þýðir mikil jarðskjálftavirkni sem og eldvirkni í Indónesíu.

Balí er vinsæl ferðamannaparadis i Indónesíu.  Þrátt fyrir að eyjan sé lítil, aðeins um 5000 ferkílómetrar þá eru á henni nokkur eldfjöll.  Mest virkni hefur verið í eldkeilunni Agung sem jafnframt er hæsta fjallið eyjunni eða 3.142 metrar.  Agung gaust síðast árið 1963 og fórust þá um 1,500 manns.  Það er því engin furða að eyjaskeggjar séu óttaslegnir þegar þetta mikla eldfjall bærir á sér.

Mikil skjálftavirkni hefur verið í Agung undanfarna mánuði og hefur verið ljóst í nokkurn tíma að fjallið mundi gjósa fljótlega.  Hafa því verið gerðar ráðstafanir

Á þessari mynd sést hvernig Indó-Ástralíuflekinn rennur undir Evrasíuflekann við Indónesíu

Á þessari mynd sést hvernig Indó-Ástralíuflekinn rennur undir Evrasíuflekann við Indónesíu

til að rýma hættusvæði.  Helstu ferðamannastaðir á Balí eru nokkuð frá Agung og ættu ekki að vera í neinni hættu þó aska gæti fallið þar.

Eldgos hófst fyrir alvöru í fjallinu í gær, sunnudag 26.nóvember og hefur þegar orðið talsvert öskufall í næsta nágrenni fjallsins og flug til og frá Balí hefur farið úr skorðum.  Efnahagur Balí byggir nær eingöngu á ferðamannaþjónustu svo fyrir heimamenn er þetta bagalegt ástand.

Eldfjöll í Indónesíu eru oft óútreiknanleg.  Á Íslandi er algengast að mestur kraftur sé upphafi eldgoss. Það er ekki endilega þannig í Indónesíu og þó gosið sé enn sem komið er fremur lítið þá er ómögulegt að segja til um hvernig það þróast.

Eldgos.is lá niðri í rúma viku vegna bilunar

Vegna alvarlegrar kerfisbilunar hjá hýsingaraðila okkar, 1984.is lá eldgos.is niðri í rúma viku. Til allrar hamingju virðast engin gögn hafa tapast og það er auðvitað fyrir mestu. -   Þetta leit alls ekki vel út á tímabili en við þökkum starfsfólk 1984.is fyrir  að    leggja nótt við dag við að koma vefsíðum hýstum hjá þeim í lag.

Aukin rafleiðni og líklega hlaup í Jökulsá á Fjöllum

Jökulsá á Fjöllum

Jökulsá á Fjöllum

Rennsli Jökulsár á Fjöllum er tvöfalt á við rennslið á þessum árstíma að jafnaði og rafleiðni hefur hækkað verulega í ánni undanfarnar tvær vikur.   Áin er að auki mórauð og það er lykt af henni.   Vatnasvið Jökulsár á Fjöllum í Vatnajökli er nokkuð stórt og koma þar tvær eldstöðvar við sögu, Kverkfjöll og Bárðarbunga.  Oftast eru það einhver umbrot á Kverkfjallasvæðinu sem valda hlaupum í ánni en einnig geta umbrot í austanverðum Dyngjujökli valdið þeim en það svæði er á virknissvæði Bárðarbungu.

Engir skjálftar hafa mælst nýlega í Kverkfjöllum og ekkert sem bendir til neinna umbrota þar.  Jarðhitasvæði undir jökli geta þó lekið án þess að það valdi skjálftum.

Hinsvegar hefur verið mikill óróleiki í Bárðarbungu undanfarið, nýlega urðu þar stærstu skjálftarnir frá goslokum og að auki mældust óvenju djúpir skjálftar um 10-15km austur af Bárðarbungu en djúpir skjálftar vekja alltaf grun um kvikuhreyfingar.  Ekki er því útilokað að lítið kvikuinnskot á austanverðu Bárðarbungusvæðinu sé að valda þessu.  Í öllu falli er mun líklegra miðað við skjálftavirkni að Bárðarbunga sé að valda þessu frekar en jarðhitasvæðið við Kverkfjöll.

Ekki hefur reynst hægt að fljúga yfir svæðið vegna veðurs en þegar það tekst þá ættu upptökin að sjálst því ef katlar eru að leka þá sést það væntanlega á yfirborði jökulsins.

Uppfært 9. Nóvember

UPPTÖKIN LÍKLEGA Í KVERKFJÖLLUM

Nú bendir flest til þess að upptök þessa smáhlaups og aukinnar rafleiðni séu í Kverkfjöllum, nánar tiltekið í jarðhitasvæði sem nefnist Gengissig.  Vísindamenn hjá Járðvísindastofnun Háskóla Íslands hafa borið saman ratsjármyndir af svæðinu teknar  mismunandi timum nýlega og þær sýna smávægilegar breytingar á þessu svæði.

 

Hvað er að gerast í Öræfajökli ?

Hvannadalshnjúkur

Hvannadalshnjúkur og Öræfajökull

Öræfajökull er stór og mikil eldkeila og hæsta fjall Íslands.  Siðan jarðskjálftamælingar hófust hefur verið afskaplega lítil skjálftavirkni í eldstöðinni en nú allra síðustu ár hefur farið að bera á smáskjálftum og tíðni þeirra virðist vera að aukast.  Þann 4. október s.l.  varð skjálfti upp á M 3,4 í fjallinu og smáskjálftar á bilinu M 0,5-2 eru að mælast flesta eða alla daga.

Gos í Öræfajökli eru fátíð, aðeins tvö frá landnámi og meðal tímalengd á milli gosa hefur verið áætluð um 400-900 ár.  Eldfjöll breyta þó oftar en ekki um goshegðun og nærtækasta dæmið um slikt er Hekla sem áður gaus nokkuð reglulega tvisvar á öld en kemur svo með fjögur gos á aðeins 30 árum.

Öræfajökull gaus árið 1362 griðarlegu sprengigosi ,mesta sprengigosi á Íslandi síðan land byggðist.  Það er talið að allt að 400 manns hafi farist í því gosi þegar blómleg byggð í Öræfasveit er nefndist Litla Hérað, varð gusthlaupum og eða jökulhlaupum að bráð í gosinu og eyddist með öllu.   Til allrar hamingju eru ekki öll gos í Öræfajöklu svona stór, gosið árið 1727 var miklu minna og hefur líklega svipað til gossins í Eyjafjallajökli árið 2010.   Ef Öræfajökull er að undirbúa gos þá verður að telja mun líklegra að gosið verði minniháttar eða miðlungsgos fremur en eitthvað í ætt við hamfarirnar árið 1362.

En miðlungsstórt gos í Öræfajökli er þó ekkert gamanmál.  Þar sem fjallið er mjög bratt  þá mundi jökulhlaup ná niður á þjóðveg og í byggð á mun skemmri tíma en frá flestum öðrum eldstöðvum undir jöklum á Íslandi.  Mögulegar og líklegar hlaupleiðir eru líka lítt þekktar og kannaðar miðað við t.d. frá Kötlu.

En spurningunni hvort Öræfajökull sé að undirbúa gos er hægt að svara játandi.  Tíðni jarðskjálfta er smámsaman að aukast og þeir eru á dýpi þar sem verður að telja liklegt að kvikuhólf sé til staðar í fjallinu.  Kvika virðist því vera að streyma í hólfið og Gps mælingar staðfesta jafnramt að fjallið er að þenjast út.

Þar sem vísindamenn þekkja ekki  forsögu gosa í Öræfajökli þá er ómögulegt að áætla hve löng þessi þróun getur verið áður en til goss kemur.  Svo má heldur ekki gleyma því að “áfylling kvikuhólfa” stöðvast stundum en slíkt gerðist t.d. í Henglinum um aldamótin þegar allt virtist stefna í gos þar.  En það er full ástæða til að fylgjast með Öræfajöki enda stór og varasöm eldstöð.

Vístindamenn hafa getið sér til að minnkandi jökulfarg kunni að skýra skjálftana.  Það getur meira en verið en minnkandi jökulfarg getur jafnframt þýtt aukna tíðni gosa.  Mörg gríðarstór gos urðu t.d. á landinu þegar ísaldarjökullinn var að bráðna og tíðni þeirra jókst mikið.  Það er ekki óliklegt að virkni eldstöðva í Vatnajöki muni sýna svipaða þróun næstu áratugi og aldir ef jökullinn heldur áfram að hopa vegna loftslagsbreytinga.

Snarpir skjálftar í Bárðarbungu

Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands en breytt af síðuhöfundi. Sjá texta til skýringar.

Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands en breytt af síðuhöfundi. Sjá texta til skýringar.

Í gærkvöldi og fyrri hluta nætur mældust snarpir jarðskjálftar í Bárðabungu.  Sá stærsti var M4,7 og er stærsti skjálftinn í eldfjallinu frá goslokum árið 2015.  Stóri skjálftinn varð á um 5 km dýpi.  Nokkrir aðrir skjálftar urðu á bilinu M3-4 og fjöldi minni skjálfta.

Það virðist vera að tíðni stærri skjálfta fari vaxandi og það sem einnig vekur athygli er að þeir verða nánast allir á svipuðum slóðum í öskjunni, norðvestan eða norðantil í henni.  Í aðdraganda eldgossins í Holuhrauni dreyfðust þeir víðar og enduðu flestir í suðausturhluta öskjunnar þar sem kvika fann sér svo farveg í sprungusveim sem lá norður og kom að lokum upp í Holuhrauni.

Það er vitað að frá Bárðarbungu liggur einnig sprungusveimur til suðvesturs.  Það var áhyggjuefni fyrir gosið hvort kvika mundi ná að komast inn í þann sprungusveim og gæti á hugsanlega komið upp á Veiðivatnasvæðinu eins og hefur tvívegis gerst eftir landnám.   Það gerðist ekki.

Spurningin er hinsvegar hvað er að gerast þarna norðan til í öskjunni því eins og áður segir virðast allir stærstu skjálftarnir eftir gosið verða þar.  Er kvika að reyna að troða sér þar upp sem gæti leitað til suðvesturs?  Það er ekki útilokað.  Engu að síður er þetta þróun sem gæti tekið mörg ár áður en næsta gos verður.  Þó verður að áætla að miðað við fjölda og stærð jarðskjálfta frá því gosinu lauk þá sé þessari umbrotahrinu í Bárðarbungu alls ekki lokið.

Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir upptök skjálftanna.  Ég teiknaði inn á hana líklega sprungusveima frá bárðarbungu, annan í átt að Holuhrauni, leið kvikunnar í gosinu 2014-15 og hinn sem ég tel liklegt að liggi til suðvesturs frá öskjunni.

Færslusafn eftir mánuðum