Snörp jarðskjálftahrina hófst um 20 km. norðaustur af Siglufirði uppúr hádegi í gær föstudaginn 19. júní. Mikið bætti svo í hrinuna í dag og mældist stærsti sjálftinn M 5,3 og fannst hann víða á Norðurlandi, frá Blönduósi til Húsavíkur. Snarpastur var hann í grennd við Siglufjörð og Ólafsfjörð. Ekki er vitað um tiltakanlegt tjón. Skjálftar af þessari stærð geta auðveldlega valdið hruni úr fjöllum og það er kanski helsta hættan á þessu svæði.
UPPFÆRT: KL. 19:26 VARÐ SKJÁLFTI SEM ER TALINN VERA M 5,6 AF STÆRÐ.
Almannavarnir hafa lýst yfir óvissustigi, ekki síst vegna hættu á stærri skjálftum en á þessu svæði er mikið af misgengjum og óvíst hvaða áhrif skjálftarnir geta haft á þau. Mjög stórir skjálftar eru þekktir úr sögunni á þessu svæði, jafnvel yfir M 7 en slíkur skjálti er um 20 sinnum öflugri en sá sem varð í dag.
Skjálftarnir eru á Tjörnesbrotabeltinu sem er er tvískipt auk minna hliðarbeltis. Nyrðra beltið er venjulega mun virkara en það liggur frá Grímseyjarsundi inn yfir Axarfjörð. Það er þó syðri hlutinn sem er að hristast núna. Lítil sem engin eldgosahætta er talin vera á þessu svæði þó dæmi séu um gos úti fyrir Norðurlandi, þau eru þó fá á sögulegum tíma.
Reikna má með að áfram skjálfi á svæðinu enda eiga skjálftahrinur á Tjörnesbrotabeltinu það til að vera nokkuð þrálátar og geta varað með einhverjum hléum vikum saman. Það er væntanlega ein ástæða þess að lýsti hefur verið yfir óvissustigi.
Þessi hrina líkist mjög hrinu sem varð á sömu slóðum í september og október 2012 en þá varð einmitt skjálfti upp á M 5,6. Lesa má um þá skjálfta hér og hér
UPPÆRT 24. JÚN KL 01:20
ELDGOS.IS LÁ NIÐRI UM HELGINA VEGNA TÆKNIÖRÐUGLEIKA EN Á MEÐAN VARÐ STÆRSTI SKJÁLFTINN HINGAÐ TIL Í ÞESSARI HRINU, M 5,8. HRINAN HEFUR HALDIÐ ÁFRAM UNDANFARNA DAGA OG ENN ER HÆTTA Á STÆRRI SKJÁLFTUM.