Harður jarðskjálfti við Reykjanestá – Landris hafið aftur við Svartsengi

Birta á :
Upptök jarðskjálfta á Reykjanesi síðasta sólarhring.
Upptök jarðskjálfta á Reykjanesi síðasta sólarhring.

Snarpur jarðskjálfti M4,2 varð kl. 10:32 í morgun nokkra kílómetra norðvestan við Reykjanestá.  Fjölmargir eftirskjálftar hafa mæst og virkni er stöðug.  Enginn gosórói er sjáanlegur.  Þá er einnig virkni á svæðinu norðan og norðaustan við Grindavík og talið er að landris sé hafið aftur við Svartsengi.

Hvorutveggja er framhald á mikilli jarðsjálftavirkni og landrisi sem hefur verið í gangi nú meira og minna í tvo mánuði þrátt fyrir rólegar vikur inn á milli.  Telja verður sífellt líklegra að það sé að hefjast rek-og gliðnunarhrina á Reykjanesskaganum enda hrinan orðin ansi þrálát.

Þó er rétt að geta þess að til er sú kenning að orsök landrisins sé niðurdæling affallsvatns frá orkuverinu í Svartsengi.  Rökin fyrir því eru vissulega til staðar, þ.e. að landrisið á sér stað nákvæmlega á þeim stað þar sem niðurdælingin fer fram og jarðskjálftavirknin er nær engin akkúrat á því svæði, heldur nokkuð austan og vestan við svæðið sem rís.  Jarðfræðingar virðast þó almennt þeirrar skoðunar að kvikusöfnin sé skýringin á landrisinu og aflögunin valdi jarðskjálftum í jaðri þess svæðis.

Það er þó erfitt að sjá hvernig niðurdælingin geti tengst atburðunum við Reykjanestá sem er um 10-15 km vestar.

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt.

Scroll to Top