Snarpir jarðskjálftar norður af Siglufirði

Birta á :

Í morgun tók sig upp aftur jarðskjálftahrina sem hófst fyrr í vikunni um 25 km. NA af Siglufirði.  Snarpasti skjálftinn í morgun mældist 4,3 M og annar um 4.  Þá hafa mælst allnokkrir skjálftar á milli 2,5 og 3.  Hrinan er í fullum gangi ennþá og má því búast við fleiri skjálftum á bilinu 3-4.  Þetta er velþekkt jarðskjálftasvæði og er hluti af Tjörnesbrotabeltinu.  Þetta eru hefðbundnir brotaskjálftar á svæðinu en dæmi eru um mjög stóra jarðskjálfta á þessu svæði.  Þessir skjálftar tengjast á engan hátt eldsumbrotum. Myndin sem fengin er af vef Veðurstofu Íslands sýnir upptök skjálftanna í morgun.

Tjörnesbrotabeltið er þrískipt, þ.e. þrjár meginsprungur með VNV-ASA stefnu eins og sést ágætlega á meðfylgjandi korti hér til hægri (neðri myndin)  Nyrsta sprungan liggur nokkurn veginn frá Grímsey  og inn í Öxarfjörð.  Þar eru skjálftar mjög algengir og árið 1910 varð skjálfti í Öxarfirði sem er talinn hafa verið M 7,1 af stærð.  Nær okkur í tíma er Kópaskersskjálftinn árið 1976 sem var um 6,2 stig.   (Kortið er fengið af vef Veðurstofu Íslands, ath. þetta er pdf skjal)  Kópaskersskjálftinn tengdist reyndar eldsumbrotum á Kröflusvæðinu enda gekk yfir mikil rek og gliðnunarhrina á svæðinu með alls 9 eldgosum frá árinu 1976-1984.

Skjálftarnir nú eru nálægt vesturenda svonefnds Flateyjar- Húsavíkur misgengis sem einnig er mjög virkt.  Skjálftarnir virðast þó ekki vera á misgenginu sjálfur, heldur rétt norðan við það.  Stærsti atburðurinn á F-H misgenginu er jarðskjálfti sem varð árið 1755 og var nokkuð örugglega yfir M 7 þó jarðskjálftamælingar  hafi að sjálfsögðu ekki verið til staðar á þeim tíma.

Syðsta beltið er svonefnt Dalvíkurbeltið en það er að mestu leiti inni á landi.  Á því varð Dalvíkurskjálftinn árið 1934.  Hann var um M 6,3,

Þá er ótalinn mjög stór skjálfti sem varð í minni Skagafjarðar árið 1963 en upptök hans eru líkast til í vesturenda Dalvíkurbeltisins.  Hann var um 7,1 af stærð.   Þó Dalvíkurbeltið sé minna virkt en hin tvö þá sýnir sagan að á því geta orðið mjög harðir skjálftar rétt eins og hinum tveim.  Að öllum líkindum geta skjálftar úti fyrir norðurlandi orðið stærri en öflugustu suðurlandsskjálftar en valda þó yfirleitt minna tjóni þar sem upptökin eru í flestum tilfellum nokkuð frá landi.

Fréttir fjölmiðla af skjálftunum í dag:

Ruv.is:  Jarðskjálfti 4,3 í Eyjafjarðarál

Mbl.is: Harðir jarðskjálftar fyrir norðan

Pressan.is: Jarðskjálftahrina fyrir norðan

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt.

Scroll to Top