.
Í gærkvöldi hófst skjálftahrina við Geirfuglasker á Reykjaneshrygg, um 30 km. suðvestur af Reykjanestá. Nokkrir skjálftar mældust um 3M af stærð, svo dró úr hrinunni í morgun en laust fyrir kl. 11 tók hún sig upp aftur með skjálfta af stærðinni 4,1 og fannst hann á Reykjanesskaga og höfuðborgarsvæðinu.
Hrinur verða á þessum slóðum alloft. Í mars 2012 varð hrina svo að segja á sama stað en hrinan nú er þó mun öflugri. Þá urðu hrinur í apríl og september í fyrra en þær voru heldur fjær landi.
Jarðskjálftahrinur á þessum slóðum tengjast flekaskilunum sem liggja þarna um. Mörg dæmi eru um eldgos á Reykjaneshrygg en ekkert sérstakt bendir til þess nú.
Myndin hér til hægri er tekin af vef Veðurstofu Íslands.
Fréttir um skjálftana í fjölmiðlum:
Ruv.is: Skjálfti á Reykjanestanga
Mbl.is: Skjálfti á Reykjanestanga
Visir.is: Tugir eftirskjálfta
—
UPPFÆRT 10/5 kl. 01 20
Skjálftahrinan færist í aukana – Skjálfti upp á 4,5
Skjálftahrinan á Reykjaneshrygg hefur haldið látlaust áfram frá því í morgun og hefur heldur færst í aukana. Um kl. 19 20 í kvöld varð skjálfti upp á 4,5 M og fannst hann víða á Suðvesturlandi. Hrinan er enn í fullum gangi þegar þetta er skrifað og má því búast við skjálftum um og yfir 4 M eitthvað áfram. Ekki er að sjá á upptakakorti Veðurstofunnar að staðsetning á upptökum skjálftanna hafi breyst síðan hrinan hófst.