Skjálftahrina í Skjaldbreið

Birta á :
Skjaldbreiður séður frá Þingvöllum Mynd  Óskar Haraldsson
Skjaldbreiður séður frá Þingvöllum
Mynd Óskar Haraldsson

Allmargir jarðskjálftar mældust í Skjaldbreið í gærkvöldi og í nótt.  Sá stærsti M 3,7 og tveir aðrir yfir M 3.   Heldur dró úr virkninni með morgninum en hún gæti vel tekið sig upp aftur.  Skjaldbreið er innan sprungusveims Langjökulskerfisins og það er algengt að í því kerfi verði hrinur, jafnvel nokkuð öflugar.  Þær hrinur eru þó oftast vestan til í kerfinu, i grennd við Eiríksjökul eða Þórisjökul.

Skjaldbreiður er um 9000 ára gömul hraundyngja og mjög líklega mynduð i einu löngu gosi sem jafnvel hefur mallað í áratug.  Skjaldbreiður er því ekki sjálfstætt eldfjall eða eldstöðvakerfi.  Dyngjugosin voru um margt sérstök, þau virtust geta komið upp hvar sem er innan eldstöðvakerfanna og kvikan kom mjög djúpt að, úr möttlinum.  Slík eldgos eru afar sjaldgæf í dag og hafa í raun ekki orðið á Íslandi í nokkur þúsund ár.  Ástæða dyngjugosanna var bráðnun ísaldarjökulsins, landið lyftist tiltölulega hratt, miklar þrýstingsbreytingar fylgdu því og eldgosavirkni var allt að þrítugföld miðað við það sem nú er.

Það verður því að telja afar ólíklegt að Skjaldbreiður sé að fara að gjósa , líklega eru þetta dæmigerðir brotaskjálftar í grennd við flekaskil.  Langjökulskerfið sem heild er þó síður en svo dautt úr öllum æðum, það er mikil jarðskjálftavirkni í því en gosvirkni hinsvegar mjög lítili.  Aðeins eitt gos frá landnámi , er Hallmundarhraun rann um árið 900.  Það var reyndar mikið gos og hraunið rann um 50 km leið til byggða við Hvítársíðu.  Þetta hraun myndar t.d. landslagið í Kringum Hraunfossa nærri Húsafelli.

Scroll to Top