Ofureldfjöll – Yellowstone

Birta á :

Á næstunni ætlum við að bæta við efni um svokölluð ofureldfjöll (Super volcanoes) en þau eru talin vera 4-5 á jörðinni, ekkert þó á Íslandi til allrar hamingju.  Ofureldfjall er eldfjall sem getur framleitt yfir 1000 rúmkílómetra af gosefnum í einu eldgosi.  Til samanburðar komu upp um 19-20 rúmkílómetrar í Eldgjárgosinu  árið 934 sem er mesta gos Íslandssögunnar.   Eins og gefur að skilja hefði stórgos í ofureldfjalli mikil áhrif um allan heim og gæti jafnvel leitt til endaloka núverandi siðmenningar á jörðinni.  Á Youtube má finna mikið af góðu efni um ofureldfjöll og hér er vandaður þáttur úr smiðju BBC um ofureldstöðina Yellowstone í Bandaríkjunum. httpv://www.youtube.com/watch?v=o-zM8IQHVzI

 

Uppfærsla

Birta á :

Nú er unnið af uppfærslu síðunnar.  Reynt verður að forðast að taka hana niður en það gæti þó verið óhjákvæmilegt í einhverjar klukkustundir næstu daga.

Að þessu sinni er um nokkra útlitsupplyftingu að ræða.  “Content” svæðið er stækkað til að nýta betur pláss en einnig til að síðan njóti sín betur á stærri skjám.  Síðuhausinn er uppfærður með nýjum myndum og litum á síðunni breytt eitthvað.

Fljótlega fara að birtast greinar um erlent efni og ýmis fróðleikur um jarðfræði.   Allar hugmyndir um viðbætur eða efnistök eru sem fyrr vel þegnar:)

Mikil smáskjálftavirkni við Bláfjöll

Birta á :

Síðasta sólarhring hafa nokkrir tugir smáskjálfta nærri upptökum stóra skjálftans í síðustu viku við Bláfjöll.  Virknin hefur því tekið sig upp aftur og við það eykst hættan á fleiri stórum skjálftum á svæðinu.  Meðfylgjandi mynd af vef Veðurstofu Íslands sýnir upptök skjálfta, þeir nýjustu eru merktir með rauðu.  Flestir skjálftarnir eru af stærðinni 0,5-1,5 og á 4-7 km dýpi.  Á tímanum frá kl. 10 – 12 30  í morgun hafa mælst yfir 20 skjálftar á svæðinu og því mikil virkni í gangi.

3,2 stiga skjálfti við Grindavík

Birta á :

Um kl. 16 30 varð jarðskjálfti með upptök nærri Fagradalsfjalli á Reykjanesskaga 3,2 af stærð og á um 7,4 km dýpi samkvæmt gögnum Veðurstofu Íslands.  Skjálftinn fannst í Grindavík enda upptökin mjög nálægt bænum.  Nokkrir smærri eftirskjálftar hafa fylgt.  Skjálftar á þessum slóðum eru algengir og fyrir rétt rúmu ári varð skjálfti upp á 3,7 á svipuðum stað.

Myndin er fengin af vef Veðurstofu Ísland og sýnir upptök skjálftans í dag.

Mikið hefur dregið úr skjálftavirkninni við Bláfjöll eftir stóra skjálftann á fimmtudaginn.  Þessir skjálftar tengjast ekki enda langt  á milli upptaka þeirra.

Umfjallanir í fjölmiðlum:

Mbl.is : 3,2 stiga skjálfti við Grindavík

Ruv.is :  Jarðskjálfti á Reykjanesskaga

Snarpur jarðskjálfti við Bláfjöll – fannst vel á höfuðborgarsvæðinu

Birta á :

Um hádegið fannst snarpur jarðskjálfti á höfuðborgarsvæðinu.  Fyrstu mælingar benda til þess að hann hafi verið um 4,5 á Richter.  Upptökin eru við skíðasvæðið í Bláfjöllum.  Samkvæmt vef veðurstofunnar mældist skjálftinn nú  á 5,8 km. dýpi og stærð skjálftans er 4,6 sem gerir hann að stærsta jarðskjálfta í nokkur ár á Reykjanesskaganum.

Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands.  Græna stjarnan sýnir upptök stóra skjálftans en eins og sést á myndinni hefur verið í gangi smáskjálftahrina á Hengilssvæðinu í morgun. Þessir atburðir þurfa þó ekki að tengjast og reyndar er mjög óliklegt að þeir geri það.  Fastlega má búast við eftirskjálftum eftir skjálfta af þessari stærð.

Svæðið er þekkt jarðskjálftasvæði, þarna liggja flekaskil um og mikill fjöldi smærri misgengja og brota út frá þeim.  Skjálftar geta ferið yfir 6 af stærð á þessu svæði en talið er að skjálfti sem varð árið 1929 í Bláfjöllum hafi verið um 6.3 og skjálfti árið 1968 hafi verið um 6.  Hér má sjá grein um þá á mbl.is

Uppfært kl. 14 30

Samkvæmt frétt á Ruv.is eru upptök skjálftans við endann á stóru misgengi sem kortlagt var fyrir nokkrum árum að sögn Páls Einarssonar jarðeðlisfræðings.  Páll telur mögulegt að skjálftinn geti leitt af sér stærri skjálfta vegna spennubreytinga á svæðinu.

Jarðskjálftar á Bláfjallasvæðinu geta orðið að jafnaði mun stærri heldur en á Krísuvíkursvæðinu.   Þó svo þetta svæði sé mjög eldbrunnið þá er engin ástæða til að ætla að þessi skjálfti tengist eldsumbrotum.  Að öllum líkindum eru þetta hefðbundnir brotaskjálftar á flekaskilum.

Fréttir fjölmiðla af skjálftanum:

mbl.is :  Jarðskjálfti upp á 4,6 stig

Ruv.is : Jarðskjálfti upp á 4,6 stig við Bláfjöll

Visir.is :  Jarðskjálftinn var 4,6 stig

Pressan.is :  Snarpur  jarðskjálfti á höfuðborgarsvæðinu – stærsti skjálftinn í 3 ár

Scroll to Top