Óbreytt ástand við Bárðarbungu – Askjan sígur áfram og gosið kraumar

Birta á :

Ástandið við Bárðarbungu er stöðugt ef svo má segja, askjan er að síga um hálfan til einn meter á sólarhring og er sigið mest þegar stóru skjálftarnir mælast.  Ekki er að sjá að neitt sé að hægja á siginu en heldur hefur þó dregið úr gosinu í Holuhrauni síðustu vikuna.  Þessi fasi umbrotanna gæti varað í einhverjar vikur til viðbótar en á endanum verða breytingar.  Helsta ógnin núna virðist vera mengunin vegna brennisteinstvíildis (SO2) sem hefur víða mælst mikil á austur og norðausturlandi síðustu daga.  Þessi mengun er fyrst og fremst óþægileg en varla hættuleg, til þess þarf hún að aukast mjög mikið.  Fólk sem er viðkvæmt  fyrir eða með undirliggjandi sjúkdóma ætti því að halda sig innandyra þegar mengunin er sem mest.  Hér er hægt að fylgjast með menguninni á vef Umhverfisstofnunar.

Hvað þýðir öskjusig og hversu algengt er það ?

Þegar það varð ljóst að askja Bárðarbungu er að síga allverulega þá brá mönnum í brún því öskjusig eru fremur fátíð og gjarnan tengd stórgosum.  Eina öskjusigið sem vitað er með vissu að hafi átt sér stað hér á landi frá því land byggðist er  í Öskju í Dyngjufjöllum í kjölfar stórgossins árið 1875.   Jafnvel í stærstu gosum Íslandssögunnar, Skaftáreldum og Eldgjárgosinu hefur hingað til ekki verið talið að öskjusig hafi átt sér stað.  Sama er að segja um eldgos tengd Bárðarbungu á sögulegum tíma t.d. Vatnaöldu – og Veiðivatnagosin sem þó voru mjög stór.  Það er því margt í þessum umbrotum sem er óvenjulegt og erfitt að skýra með góðu móti.  Þar sem Bárðarbunga er algjörlega hulin ís þá er erfiðara að rannsaka söguna, vel má vera að öskjusig hafi orðið í þessum umbrotum án þess að þess hafi orðið vart enda vita menn af núverandi öskjusigi einungis vegna nútímatækni.  Sigið er enn sem komið er vart sjáanlegt nema á mælitækjum.  Til þess að öskjusig verði þarf mikið magn kviku að fara á hreyfingu.  Þannig er staðan nú, mikið magn streymir enn eftir kvikuganginum til gosstöðvanna í Holuhrauni en hinsvegar má telja víst að aðeins lítill hluti kvikunnar komi upp í gosinu.  Haraldur Sigurðsson eldjallafræðingur telur að aðeins 5-10% kvikunnar komi upp í gosinu og færir fyrir því sterk rök.

Allar öskjur hafa  á einhverjum tímapunkti orðið til.  Askjan í Bárðarbungu er mjög stór og hefur væntanlega myndast í feiknaöflugu gosi eða gosum einhverntímann í fyrndinni.  Þá er algengt að megineldstöðvar geymi tvær eða jafnvel fleiri öskjur, þannig eru amk. þrjár öskjur í Dyngjufjöllum, hver ofan í annarri.

Hve lengi standa rek- og gliðnunarhrinur ?

Oft árum saman.  Tvær slíkar hrinur eru þekktar úr Kröflukerfinu á sögulegum tíma , önnur stóð yfir í 5 ár frá 1724-9 með allmörgum gosum.  Flest  smá en hraun rann þó til byggða við Mývatn.  Kröflueldar síðari stóðu yfir í 9 ár frá 1975-84 með allmörgum minniháttar gosum.  Gosið nú í Holuhrauni er nú líklega  þegar  orðið meira en öll þau gos til samans í rúmmáli hrauns talið og þessi umbrot öll eru af miklu stærra kaliberi, miklu meira magn kviku á hreyfingu.  Þessi umbrotahrina gæti því staðið í nokkur ár með gosum víðsvegar í sprungukerfi Bárðarbungu, allt frá smágosum upp í hugsanlega eitt eða fleiri meiriháttar eldgos.  Fyrri gliðnunarhrinur í Bárðarbungu eru lítt þekktar nema stærstu gosin í þeim.  Því er ekki vitað hve lengi þær stóðu yfir.

Sviðsmynd eitt.  Gosið í Holuhrauni fjarar smámsaman út og öskjusigið stöðvast.
Sviðsmynd 1. Gosið í Holuhrauni fjarar smámsaman út og öskjusigið stöðvast.

Aftur að mögulegum sviðsmyndum

Allnokkuð hefur verið fjallað um þær sviðsmyndir sem taldar eru líklegastar.  Nú eru aðallega þrjár slíkar í umræðunni.  Skýringarmyndir hafa verið uppfærðar.  Nú er helst talið að kvikuþró undir Bárðarbungu sé á nokkru dýpi, hve miklu er ekki vitað.  Ekki er vitað hvort grunnstætt kvikuhólf sé þar fyrir ofan, etv. er líklegra að stóra kvikuþróin sjálf sé lagskipt.  Miðað við dýpt skjálfta í kvikuganginum þá er gangurinn á um 10-15km. dýpi en efsti hluti kvikuþrónnar gæti verið töluvert nær yfirborði.  Þar sem mjög fáir skjálftar mælast í miðju öskjunnar þá bendir það til þess að ofan við kvikuþróna sé seigt efni og styður þannig lagskiptinguna.  Út frá því er gengið í þessum skýringarmyndum.  Smellið á myndirnar til að stækka þær.

1.  Öskjusig í Bárðarbungu hættir áður en það verður mikið og gosið í Holuhrauni fjarar út.   Þetta er enn til í stöðunni en kannski ekki líklegt.  Þegar öskjusig er á annaðborð hafið þá er líklegra að það haldi áfram þar til umtalsvert magn kviku hefur með einhverju móti komist undan eldstöðinni.  Besta sviðsmyndin er að umbrotin fjari út, gosið kraumi í einhverjar vikur og því ljúki hægt og rólega.

.

2.  Stórt öskjusig í Bárðarbungu.  Gos í Holuhrauni verður langvinnt eða vex.  Mögulegt að sprungan lengist til suðurs inn undir Dyngjujökul og valdi jökulhlaupum og gjóskufalli.  Einnig er mögulegt að sprungur opnist annarstaðar undir jöklinum. 

Sviðsmynd 2.  Gos innan og utan jökuls.  Stór gos möguleg.
Sviðsmynd 2. Gos innan og utan jökuls. Stór gos möguleg.

Þessi sviðsmynd er kannski hvað líklegust miðað við stöðuna eins og hún er.  Við höfum þrennt sem bendir til þessarar atburðarrásar, 1. Öskjusig, 2. Gliðnunarhrinu og 3. Mikil kvika er á hreyfingu.  Nú þegar hafa orðið nokkur smágos í jöklinum sem ekki náðu að bræða sig í gegn  um ísinn og tvö smágos til viðbótar við Holuhraunið fyrir utan gosið sem nú er í gangi.  Þetta er atburðarrás sem gæti náð yfir nokkurra ára tímabil með nokkrum gosum.  Þau gætu orðið á svipuðum slóðum og nú gýs, ennfremur í Dyngjujökli og alls ekki má útiloka að kvikugangur opnist til suðvesturs og inn á Veiðivatnareinina eins og gerðist árin 870 og 1480.  Við slíkar aðstæður er hætt við að það mundi opnast mjög löng gossprunga, jafnvel yfir 30 kílómetrar til suðvesturs.  Þetta er eins og við höfum áður sagt hættulegasta svæðið hvað varðar gos í Bárðarbungu.  Jafnvel stórt gos í öskjunni sjálfri er skárra.

.

3. Stórt öskjusig í Bárðarbungu og gos í öskjubroti.  Slíkt gos gæti brætt mikinn ís og valdið verulegu jökulhlaupi.  Öskufall gæti orðið nokkuð.

Jarðvísindamönnum hefur orðið tíðrætt um mögulegt gos í öskjunni undanfarið.  Hinsvegar eru alls ekki mörg staðfest dæmi um gos í öskju Bárðarbungu og óvíst að þar hafi gosið mjög lengi.   Það er reyndar einnig óvíst hvenæar síðast varð öskjusig í Bárðarbungu, það gætu verið þúsundir ára síðan.  þetta er  kannski ekki líklegasta sviðsmyndin en verði gos á annað borð í öskjunni þá er líklegra en ekki að það verði stórt því þá hefur kvikan fundið tiltölulega beina leið upp á yfirborðið úr kvikuþrónni.  það verður þó tæplega langvarandi, gos undir jökli eru það yfirleitt ekki.  Mikil hætta er á jökulhlaupi, jafnvel hamfaraflóði og má sjá ummerki slíkra flóða t.d. í Jökulsárgljúfrum og Ásbyrgi.

Sviðsmynd 3.  Gos í öskju Bárðarbungu.
Sviðsmynd 3. Gos í öskju Bárðarbungu.

Mjög stórt gos í öskjunni er möguleiki og mundi eins og áður hefur verið bent á svipa til stóru gosanna í Öræfajökli og Kötlu.  “Kosturinn” við slíkt gos í Bárðarbungu er sá að eldfjallið er fjarri byggð og flóðið yrði alllengi á leið í átt að láglendi.  Það gæfist því góður tími til að koma fólki af hættusvæðum en vissulega verða einhver mannvirki í hættu á láglendi ef til meiriháttar jökulhlaups kæmi.

Staðan sem nú er uppi á óróasvæðinu, nokkuð stöðugt sig í öskjunni upp á hálfan til einn meter á sólarhring, jarðskjálfta um M5 af stærð nokkuð reglulega 1x á sólarhring og stöðuga en ekki  mjög mikla gosvirkni í Holuhrauni, gæti þessvegna varað í einhverjar vikur í viðbót.  Meiriháttar breytingar mundu væntanlega gera einhver boð á undan sér.

 

Gosið að mestu óbreytt- Kvikuhólf eða ekki kvikuhólf?

Birta á :

Enn er mikill kraftur í gosinu og eru að koma upp um 100-200 rúmmetrar upp úr sprungunni á sekúndu.  Ef eitthvað er þá hefur heldur bætt í gosið síðustu sólarhringa en þó mun aðeins nyrðri sprungan virk og hún hefur ekki lengst.  Skjálfti upp á 5,2 varð i Bárðarbunguöskjunni í nótt sem væntanlega staðfestir áframhaldandi sig i öskjunni.  Það vakti athygli að eftir þennan skjálfta varð mikil hrina örlítilla skjálfta rétt norðvestan við Herðubreið á um 5-20 km. dýpi.  Það fór að bera á skjálftum þarna fyrir nokkrum dögum en þetta var þéttasta hrinan á þeim slóðum til þessa.  Það er vitað að einhver kvika kraumar undir á þessum slóðum en þess er þó tæplega að vænta að þar verði einhver meiriháttar tíðindi en tengingin við Bárðarbungu er athyglisverð.

KVIKUHÓLF EÐA EKKI?

Skýringarmyndin sem við birtum í síðustu færslu vakti nokkra athygli.  Efra kvikuhólfið er umdeilt, sumir jarðvisindamenn telja að það sé aðeins kvikuþró á nokkru dýpi undir Bárðarbungu en ekki kvikuhólf á ca 2-6 km dýpi eins og er undir flestum megineldstöðvum á Íslandi.  Benda þeir á að þetta kvikuhólf hefur ekki fundist.

Það sem mælir aftur á móti með því að kvikuhólf sé að finna á litlu dýpi ofan við stóru kvikuþróna er staðsetning flestra jarðskjálfta í öskjunni.  Þeir eru nánast allir í jöðrum öskjunnar, það vantar skjálfta i miðju hennar.  Það bendir til þess að þar sé bráðið eða hálfbráðið efni sem brotnar ekki.  Þetta hafa sumir jarðvísindamenn bent á.

Það er hinsvegar  ekkert vafamál að gríðarstór kvikuþró er undir Bárðarbungu, líklega á um 8-20 km dýpi og þaðan er kvikan sem nú er að koma upp eftir ganginum og í gosinu.   Spurningin er aðeins, hvað er þar fyrir ofan?  Þangað til jarðvísindamenn ákveða að koma sér saman um þetta verður ekki tekin afstaða hér 🙂

Þetta breytir þó í sjálfu sér ekki heilldarmyndinni mikið, efnið sem er að koma upp í gosinu er nokkuð kísilrík basaltkvika sem bendir til þess að það hafi setið um hríð í kvikuþrónni.  Það er einnig möguleiki að kvikuþróin sé lagskipt, að ofar í henni sé enn kísilríkara efni sem enn sem komið er hefur ekki hreyfst í þessum umbrotum.

Hér að neðan eru glæsilegar myndir frá gosstöðvunum sem við fengum sendar frá Ingþóri Guðmundssyni flugmanni.  Þær eru teknar 2.-5. september og veitti Ingþór elgos.is góðfúslega leyfi til að birta myndirnar.  Smellið á þær til að stækka.

20140902 20140904 20140905_1 20140905_2

 

MIKIÐ SIG Í BÁRÐARBUNGUÖSKJU – Hvað gerist ef það gýs í öskjunni ?

Birta á :

Askjan í Bárðarbungu hefur sigið um allt að 15 metra frá því umbrotin hófust fyrir þrem vikum.  Er þetta mjög mikið sig, það langmesta sem mælst hefur hér á landi frá því mælingar voru teknar upp um miðja síðustu öld. 

Vísindamenn telja þetta auka líkur á gosi í sjálfri öskjunni.  Hér að neðan er mynd sem útskýrir stöðuna í grófum dráttum en athuga ber að stærðar- og fjarlægðarhlutföll eru ekki endilega rétt.

Þegar vísindamenn tala um að þeir óttist að gos sé að hefjast í öskjunni, þá eiga þeir við að það gjósi ur efra kvikuhólfinu á myndinni. Þar er súr, kísilrík og gasrík kvika sem hefur legið óhreyfð um aldir  og fari þetta efni upp í gosi þá er það bara hreint út sagt ekki gott mál því meiri sprengivirkni fylgir súrri kviku, hún er léttari og berst lengra upp í háloftin og lengra frá eldstöðinni.
Gosið núna er úr neðri og stærri kvikuþrónni en bara “affall” mest af kvikunni storknar í sprungum á miklu dýpi.

Stóru jarðskjálftarnir að undanförnu við öskjuna verða við barma hennar (merktir X) þegar hún sígur vegna þess að kvika þrýstist úr neðri kvikuþrónni út í ganginn.

holuhraun7septHraunið frá gossprungunni í Holuhrauni hefur nú náð aðalkvísl Jökulsár á Fjöllum.  Ekki er búist við neinum langtímaáhrifum af því svo framarlega sem hraunið renni ekki mjög langt eftir farvegi Jökulsár.  Myndin er fengin af facebook síðu jarðvísindastofnunar og sýnir hraunið við Jökulsá á Fjöllum í morgun.

.

HVERSU STÓRT GETUR GOS Í ÖSKJUNNI ORÐIÐ ?

Þessari spurningu er ekki auðsvarað þar sem ekki er með vissu vitað hvenær gaus í öskjunni síðast.  Stórgosið í jöklinum árið 1477 kom líklegast upp norðan við öskjuna þ.e. í Dyngjujökli og óvíst að kvikan hafi verið úr kvikuhólfinu, liklegra úr neðri kvikuþrónni eins og kvikan sem nú kemur upp.  Flest þekkt gos í Bárðarbungu hafa einmitt komið upp í Dyngjujökli.  Því er varla til viðmiðun frá Bárðarbungu sjálfri hvað varðar gos í öskjunni. 

Ef horft er til annarra eldstöðva i vatnajökli þá eru gos í öskju Grímsvatna algeng en þau eru yfirleitt lítil.  þumalreglan er sú að að því lengra sem er á milli gosa, því stærri eru þau.   Kvikan hefur hinsvegar legið lengi í kvikuhólfi Bárðarbungu og það er mikið magn af henni enda askjan gríðarlega stór og kvikuhólfið sennilega líka.

Gos í öskju Bárðarbungu gæti svipað til gosa í Öræfajökli sem eru sjaldgæf en geta verið feiknarlega öflug.  Mesta sprengigos Íslandssögunnar varð þar árið 1362 þegar um 10 rúmkílómetrar af gjósku þeyttust uppúr fjallinu.  Til samanburðar var gjóskuframleiðslan í Eyjafjallajökli árið 2010 um 0,3 rúmkílómetrar.

Hér skal engu spáð um hvað gerist en það er alveg ljóst að stórt gos í Bárðarbunguöskjunni yrði meirháttar atburður og þyrfti ekki að koma á óvart miðað við þau gríðarlegu umbrot sem þarna eru að eiga sér stað.  Vel má vera að kvikan í efra hólfinu verði áfram á sínum stað og að eingöngu gjósi úr neðri þrónni i eða við jökulinn.  Það væri illskárra en að fá súrt sprengigos i öskjunni.

ENN MIKILL KRAFTUR Í GOSINU OG NOKKRAR SVIÐSMYNDIR UM FRAMHALD MÖGULEGAR

Birta á :

Eldgosið í Holuhrauni heldur áfram og er öflugt.  Gossprungan er um 1,5 km á lengd en nú þegar hafa runnið um 7,5 ferkilómetrar af hrauni.    Stefnir meginhrauntaumurinn í átt að Jökulsá  á fjöllum og gæti stíflað hana ef gosið heldur áfram af krafti næstu vikur.

Þá hefur allmikill sigdalur myndast í norðanverðum Dyngjujökli og að gossprungunni.  Enn er talinn möguleiki á að gossprungan lengist og teygi sig inn á jökulinn með tilheyrandi flóðahættu.

Skjálfti upp á M 5,5 varð við Bárðarbunguöskjuna í nótt.  Er þetta næststærsti skjálftinn í hrinunni en alls hafa 13 skjálftar yfir M 5 mælst sem sýnir hversu mikil þessi umbrot eru því skjálftar upp á M 5 i eldstöðvum eru alls ekki algengir, hvað þá svona margir.

Vísindamenn telja eftirfarandi möguleika líklegast í stöðunni hvað framhaldið varðar og er eftirfarandi klausa tekin af vef Veðurstofunnar.

  • “Fjórir möguleikar eru taldir líklegastir um framvindu:

    • Að innflæði kviku stöðvist og skjálftahrinan fjari út og ekki komi til annars eldgoss.
    • Gangurinn nái til yfirborðs og annað eldgos hefjist, jafnvel á nýrri sprungu. Ekki er hægt að útiloka gos með hraunflæði og/eða sprengivirkni.
    • Gangurinn nái til yfirborðs og annað eldgos hefjist en verulegur hluti eða öll sprungan verði undir Dyngjujökli. Gosið myndi leiða til jökulhlaups í Jökulsá á Fjöllum og e.t.v. einnig sprengigoss með öskufalli.
    • Gos í Bárðarbungu. Gosið gæti leitt til jökulhlaups og e.t.v. einnig sprengigoss með öskufalli. Mestar líkur eru á að hlaup kæmi niður Jökulsá á Fjöllum en ekki er hægt að útiloka aðrar hlaupaleiðir: Skjálfandafljót, Kaldakvísl, Skaftárkatla og Grímsvötn.
  • Ekki er hægt að útiloka aðrar sviðsmyndir.

Nú ætlum við að velta þessum möguleikum aðeins upp og útskýra þá.

1. Að innflæði kviku stöðvist.  – Þar sem hér er um rek- og gliðnunarhrinu að ræða sem oftast standa mánuðum og jafnvel árum saman þá verður þessi möguleiki að teljast óliklegur.  Hinsvegar gæti virknin í hrinunni orðið lotubundinn, gætu komið mánuðir þar sem lítið innstreymi verður og taki þá við ný óróleikatímabil með kvikuinnstreymi, kvikuhlaupum og eldsumbrotum.

2.  “Gangurinn nái til yfirborðs og annað eldgos hefjist, jafnvel á nýrri sprungu. Ekki er hægt að útiloka gos með hraunflæði og/eða sprengivirkni.”   Þó að nú gjósi þá er ekki hægt að tala um að gangurinn nái til yfirborðs, meginkvikan er enn á miklu dýpi og gosið skilar aðeins broti af kvikunni upp.  Ef megingangurinn nær yfirborði þá má búast við miklu öflugra gosi, meira hrauni ef það yrði utan jökuls og lengri gossprungu.

3.  “Gangurinn nái til yfirborðs og annað eldgos hefjist en verulegur hluti eða öll sprungan verði undir Dyngjujökli. Gosið myndi leiða til jökulhlaups í Jökulsá á Fjöllum og e.t.v. einnig sprengigoss með öskufalli.”  Hér er viðraður sami möguleiki nema hvað að gosið yrði undir jökli.  Á sama hátt, ef megingangurinn nær yfirborð, undir jökli í þetta sinn, þá yrði um sprengigos að ræða hugsanlega á nokkuð langri sprungu undir jökli og hætta á hamfaraflóði.

4.  “Gos í Bárðarbungu. Gosið gæti leitt til jökulhlaups og e.t.v. einnig sprengigoss með öskufalli. Mestar líkur eru á að hlaup kæmi niður Jökulsá á Fjöllum en ekki er hægt að útiloka aðrar hlaupaleiðir: Skjálfandafljót, Kaldakvísl, Skaftárkatla og Grímsvötn.”   Gos í Bárðarbunguöskjunni hefur alla burði til að valda meiriháttar hamförum.  Kvikuhólf öskjunnar er sennilega fullt af kviku sem hefur staldrað þar lengi við, orðin súr og gasrík.  Það gæti því orðið “súrt sprengigos” í öskjunni með gríðarlegu gjóskufalli og jökulhlaupum sem gætu fallið í þrjár áttir.

Þessi miklu umbrot geta því þróast í ýmsar áttir og aðrir möguleikar heldur ekki útilokaðir.  Skjálftavirknin í Öskju veldur  einnig vissulega áhyggjum.

 

 UPPFÆRT 5. SEPTEMBER KL. 12 00

Myndin er frá jarðvísindastofnun og sýnir báðar sprungurnar í morgun.
Myndin er frá jarðvísindastofnun og sýnir báðar sprungurnar í morgun.

NÝ GOSSPRUNGA HEFUR OPNAST Á SÖMU REIN OG ELDRI SPRUNGAN EN MIKLU NÆR DYNGJUJÖKLI.  Gýs þar á um 700 metra kafla en gosið í nyrðri endanum er enn öflugt og rennur allmikið hraun sem nálgast óðfluga Jölulsá á Fjöllum.

Þá eru jarðskjáfltar á svæðinu töluvert grynnri en þeir hafa verið hingað til sem bendir til þess að meginkvikugangurinn nálgist yfirborðið.  Það er væntanlega skýringin á nýju sprungunni og má búast við aukinni gosvirkni ef gangurinn nálgast yfirborðið meira.  Gæti sprungan þá náð inná Dyngjujökul, jafnvel töluvert langt inná hann. Einnig er mögulegt að jörð rifni á milli gömlu og nýju gossprungunnar.

Skjálftum hefur fækkað mikið á svæðinu sem bendir til þess að ákveðið jafnvægi gæti verið að nánst þ.e. nokkurnveginn jafnmikili kvika streymir inn gagninn og kemst uppúr honum i eldgosinu.  Framhaldið veltur því á hversu mikið magn kviku og hve lengi hún streymir inn ganginn frá kvikuþrónni undir Bárðarbungu.

Myndin er fengin af facebook vef jarðvísindastofnunar Íslands en þar eru birtar reglulega upplýsingar um framþróun atburðanna á Bárðarbungusvæðinu.

 

 

NÝJA GOSIÐ Í HOLUHRAUNI MIKLU STÆRRA EN TALIÐ VAR Í FYRSTU

Birta á :
Skjáskot af vefmyndavél Milu þar sem glittir í kvikustróka og nýtt hraun.
Skjáskot af vefmyndavél Milu þar sem glittir í kvikustróka og nýtt hraun.

Nú virðist vera ljóst að um töluvert mikið gos er að ræða þó það sé á tiltölulega stuttri sprungu.  Gosið er jafnvel mun stærra en gosið í Eyjafjallajökli en þar sem þetta er eingöngu hraungos þá hefur það auðvitað ekki sömu áhrif.  Það var því mikil lukka að fá þetta gos á auðu landi.

Ljóst er að það er gosið sem veldur því að jarðskjálftum fækkaði skyndilega á svæðinu, kvikan hefur fundið sér tiltölulega greiða leið til yfirborðs og vel má vera að sprungan sé að dæla sama magni út og kemur eftir kvikuganginum frá Bárðarbungu.

Það er mikilvægt að rannsaka sem fyrst hvaðan kvikan er upprunin.  Sé hún komin djúpt að , úr kvikuþró undir Bárðarbungu á 8-15 km dýpi þá er sviðsmyndin dálítið önnur en ef um er að ræða kviku beint úr grunnstæðu kvikuhólfi.  Kvika úr djúpri kvikuþró styður kenningar um að “megingangur” hafi opnast og eykur líkur á langvarandi umbrotum í Bárðarbungukerfinu.  Þessu verður væntanlega skorið úr með efnagreiningum á gosefnum næstu daga.

Þetta er þriðja gosið á rúmri viku og það langstærsta.

.

UPPFÆRT 1. SEPT. KL. 13 00

DREGUR HRATT ÚR GOSINU – STÓRIR SKJÁLFTAR Í BÁRÐARBUNGUÖSKJUNNI

Samkvæmt Ruv.is  þá hefur dregið hratt úr gosinu i morgun og að öllu óbreyttu má gera ráð fyrir því að þessu gosi ljúki á næstu dögum.  Það þýðir hinsvegar ekki að umbrotunum sé lokið því enn er mikil jarðskjálftavirkni við enda kvikuganganna og þá virðist skjálftavirkni vera að aukast i Bárðarbunguöskjunni.  Þar urðu í morgun tveir stórir skjálftar upp á 5 og 5.3 stig.

Þá hefur komið i ljós að gliðnunarhreyfingar eru enn í fullum gangi og því ljóst að gosið var ekki að skila því magni upp sem rann eftir kvikugöngunum.  Enn eru því möguleikarnir á stóru gosi í jöklinum til staðar, jafnvel í öskjunni sjálfri eða þá Dyngjujökli. Allt bendir til þess að enn streymi mikið magn kviku upp undir Bárðarbungueldstöðina og eftir kvikuganginum margnefnda.

VAXANDI SKJÁLFTAVIRKNI VIÐ HERÐUBREIÐARTÖGL vekur einnig athygli en skjálftavirkni hefur aukist mjög á Öskjusvæðinu við umbrotin i Bárðarbungu.  Skjálftarnir við Herðubreiðartögl eru miklu grynnri en skjálftarnir við kvikuganginn.  Ljóst er að umbrotin í Bárðarbungu hafa áhrif á spennu á stóru svæði.

 

Vefmyndavél Mílu sem sýnir gosið

Scroll to Top