Skjálfti af stærðinni M 4,2 varð um 3,2 km austur af Fagradalsfjalli á Reykjanesskaga kl. 16 15 í dag. Rúmum tveim tímum áður hafði orðið skjálfti upp á M 3,7 á sömu slóðum. Fjöldi eftirskjálfta hafa mælst og þar af þrír yfir M 3,0. Skjálftarnir eru nær allir á 5-7 km dýpi.
Þetta er framhald þeirrar atburðarásar sem hefur verið í gangi nær allt árið á Reykjanesskaganum þar sem kvikuinnskot vestar á skaganum valda spennubreytingum á stóru svæði. Nú virðast skjálftarnir vera að færast austar, þessi hrina við Fagradalsfjall er nokkrum km. austar heldur en skjálftarnir sem urðu 20. júlí sl.
Það má því algjörlega reikna með skjálftum áfram á skaganum og það nokkuð sterkum. Virknin er nú að færast nær Krísuvíkureldstöðinni og því svæði þar sem jarðskjálftar verða reglulega og ekki ólíklegt að þar fari í gang virkni á næstu vikum og mánuðum.
Skjálfti af stærðinni M 3,4 mældist í Mýrdalsjökli kl 07 41 í morgun. Annar M 2,8 mældist skammri stundu áður. Sá stærri fannst í næsta nágrenni við eldstöðina. Upptök skjálftanna voru í Kötluöskjunni.
Algengt er að jarðskjálftavirkni aukist í Mýrdalsjökli síðsumars og fram á haust vegna jökulbráðnunar og fargbreytinga. Þetta hefur einnig áhrif á jarðhitasvæði í jöklinum og hefur einmitt mælst há leiðni í Múlakvísl undanfarnar vikur, svo há að fólki er ráðlagt að gæta sín þar sem áin rennur undan jöklinum því gas getur safnast í lægðir.
Allra síðustu árin hefur verið tiltölulega rólegt á Kötlusvæðinu eftir nokkur umbrot í kjölfar gossins í Eyjafjallajökli og einning lét Katla illa árið 2016. Nú eru liðin tæp 102 ár frá síðasta Kötlugosi sem er lengsta goshlé sem vitað er um í fjallinu frá landnámi. Reyndar er talið að smágos hafi orðið nokkrum sinnum á þessu tímabili sem ekki hafi náð uppúr jöklinum.
Skjálfti um stærð M 5.0 varð um 1,6 km NV af Fagradalsfjalli á Reykjanesskaga kl. 23 36 í gærkvöldi. Skjálftinn fannst meira og minna um allt suðvesturland, einnig í Vestmannaeyjum.
Samkvæmt vef Veðurstofu Íslands varð skjálftinn á 10,4 km dýpi sem er óvenju djúpur skjálfti meðað við það sem gengur og gerist á Reykjanesskaga. Fjöldi eftirskjálfta hefur mælst, þar af amk. tveir yfir M 3 og hafa því fundist vel í nágrenninu.
Síðustu daga hefur verið enn ein hrinan í gangi í Svartsengiskerfinu nærri Grindavík, sem tengist landrisinu á þeim slóðum. Hvort þessir skjálftar við Fagradalsfjall tengist þessu landrisi á einhvern hátt er óljóst en það eru um 9-10 km á milli upptakasvæðanna.
Skjálftar eru algengir við Fagradalsfjall en þar hefur þó ekki gosið í um 6000 ár af því að talið er. það þýðir þó að sjálfsögðu ekki að þar geti ekki orðið gos.
Þar með eru upptakasvæði jarðhræringa á Reykjanesskaganum sem staðið hafa linnulítið frá áramótum orðin þrjú, Reykjaneskerfið vestast á skaganum, Svartsengi við Grindavík og nú Fagradalsfjall.
Snörp jarðskjálftahrina hófst um 20 km. norðaustur af Siglufirði uppúr hádegi í gær föstudaginn 19. júní. Mikið bætti svo í hrinuna í dag og mældist stærsti sjálftinn M 5,3 og fannst hann víða á Norðurlandi, frá Blönduósi til Húsavíkur. Snarpastur var hann í grennd við Siglufjörð og Ólafsfjörð. Ekki er vitað um tiltakanlegt tjón. Skjálftar af þessari stærð geta auðveldlega valdið hruni úr fjöllum og það er kanski helsta hættan á þessu svæði.
UPPFÆRT: KL. 19:26 VARÐ SKJÁLFTI SEM ER TALINN VERA M 5,6 AF STÆRÐ.
Almannavarnir hafa lýst yfir óvissustigi, ekki síst vegna hættu á stærri skjálftum en á þessu svæði er mikið af misgengjum og óvíst hvaða áhrif skjálftarnir geta haft á þau. Mjög stórir skjálftar eru þekktir úr sögunni á þessu svæði, jafnvel yfir M 7 en slíkur skjálti er um 20 sinnum öflugri en sá sem varð í dag.
Skjálftarnir eru á Tjörnesbrotabeltinu sem er er tvískipt auk minna hliðarbeltis. Nyrðra beltið er venjulega mun virkara en það liggur frá Grímseyjarsundi inn yfir Axarfjörð. Það er þó syðri hlutinn sem er að hristast núna. Lítil sem engin eldgosahætta er talin vera á þessu svæði þó dæmi séu um gos úti fyrir Norðurlandi, þau eru þó fá á sögulegum tíma.
Reikna má með að áfram skjálfi á svæðinu enda eiga skjálftahrinur á Tjörnesbrotabeltinu það til að vera nokkuð þrálátar og geta varað með einhverjum hléum vikum saman. Það er væntanlega ein ástæða þess að lýsti hefur verið yfir óvissustigi.
Þessi hrina líkist mjög hrinu sem varð á sömu slóðum í september og október 2012 en þá varð einmitt skjálfti upp á M 5,6. Lesa má um þá skjálfta hér og hér
UPPÆRT 24. JÚN KL 01:20
ELDGOS.IS LÁ NIÐRI UM HELGINA VEGNA TÆKNIÖRÐUGLEIKA EN Á MEÐAN VARÐ STÆRSTI SKJÁLFTINN HINGAÐ TIL Í ÞESSARI HRINU, M 5,8. HRINAN HEFUR HALDIÐ ÁFRAM UNDANFARNA DAGA OG ENN ER HÆTTA Á STÆRRI SKJÁLFTUM.
Snarpur jarðskjálfti M4,2 varð kl. 10:32 í morgun nokkra kílómetra norðvestan við Reykjanestá. Fjölmargir eftirskjálftar hafa mæst og virkni er stöðug. Enginn gosórói er sjáanlegur. Þá er einnig virkni á svæðinu norðan og norðaustan við Grindavík og talið er að landris sé hafið aftur við Svartsengi.
Hvorutveggja er framhald á mikilli jarðsjálftavirkni og landrisi sem hefur verið í gangi nú meira og minna í tvo mánuði þrátt fyrir rólegar vikur inn á milli. Telja verður sífellt líklegra að það sé að hefjast rek-og gliðnunarhrina á Reykjanesskaganum enda hrinan orðin ansi þrálát.
Þó er rétt að geta þess að til er sú kenning að orsök landrisins sé niðurdæling affallsvatns frá orkuverinu í Svartsengi. Rökin fyrir því eru vissulega til staðar, þ.e. að landrisið á sér stað nákvæmlega á þeim stað þar sem niðurdælingin fer fram og jarðskjálftavirknin er nær engin akkúrat á því svæði, heldur nokkuð austan og vestan við svæðið sem rís. Jarðfræðingar virðast þó almennt þeirrar skoðunar að kvikusöfnin sé skýringin á landrisinu og aflögunin valdi jarðskjálftum í jaðri þess svæðis.
Það er þó erfitt að sjá hvernig niðurdælingin geti tengst atburðunum við Reykjanestá sem er um 10-15 km vestar.