Rétt fyrir kl 17 í dag reið yfir jarðskjálfti að stærð M 4,8 sem átti upptök sín í Þrengslunum. Skjálftinn fannst víða á Suður- og Suðvesturlandi og virkaði snarpari á höfuðborgarsvæðinu en margir þeir skjálftar sem riðu yfir fyrir gosið í fyrra og voru þó ívið sterkari. Er það vegna nálægðar við borgina en innan við 20 km eru frá upptökum að borgarmörkunum.
Þrátt fyrir að upptökin séu á svipuðum slóðum og niðurdælingarskjálftarnir svokölluðu hafa orðið þá má heita útilokað að svo snarpur skjálfti verði að þeim völdum auk þess sem skjálftinn er á tæplega 8 km dýpi. Upptökin eru á mörkum áhrifasvæða Hengilskerfisins og Brennisteinsfjalla. Fremur ólíklegt er þó að þessi skjálfti tengist umbrotum í Henglinum enda ekkert annað sem bendir til óróa í því kerfi.
Það hefur ítrekað verið bent á að það hafi vantað skjálfta austan Kleifarvatns síðan umbrotin á Reykjanesskaganum hófust fyrir um þrem árum. Nú virðist það vera að breytast og hin mikla virkni sem verið hefur vestars á skaganum er að teygja sig austar. Á svæðinu frá Kleifarvatni að Þrengslunum hafa orðið mjög snarpir skjálftar, síðast árið 1986 en þá varð skjálfti upp á M 6,0 á þeim slóðum. Telja verður frekar líklegt að slíkur skjálfti ríði yfir innan fárra ára. Áhrifasvæði umbrotanna á Reykjanesskaganum hefur því stækkað.
En það reið ekki bara þessi skjálfti yfir í dag. Mikil virkni hefur verið á Svartsengissvæðinu og staðfest er að landris er að eiga sér stað í grennd við fjallið Þorbjörn rétt norðan Grindavíkur. Það er því mikið að gerast á Reykjanesskaganum og jarðfræðingar eru á tánum.
Á undangengnum eldgosaskeiðum á Reykjanesskaganum hafa gosin hafist í Brennisteins-Bláfjalla eldstöðvakerfinu. Það ferli hefur þegar verið brotið upp með gosinu í Geldingadölum en hvað goshlé varðar á Reykjanesskaganum þá er Brennisteinsfjallakerfið það kerfi þar sem goshlé hefur staðið hvað lengst. Þar hefur hinsvegar ekkert verið að gerast í þessum umbrotum fyrr en nú.
Allmörg gos urðu í þessu kerfi á árunum í kringum landnám og fram yfir árið 1000 en þá rann Kristnitökuhraunið sem líklega var síðasta gosið í þeirri hrinu. Síðar teygði þessi virkni sig vestur eftir Reykjanesskaganum og lauk með gosum vestast á Skaganum um árið 1240.
Ef til jarðelda kæmi í Brennisteinsfjallakerfinu þá geta eldgos þar gert okkur verulega skráveifu. Þarna liggja að sjálfsögðu um mikilvægar vegasamgöngur, Hellisheiði og Þrengslin en það yrðu nú varla meira en tímabundin óþægindi. Hraun frá gosum á þessu svæði geta leitað bæði til norðurs og suðurs eftir upptökum. Fyrir rúmum 5000 árum rann hraun frá Leitinni sem er dyngja í kerfinu alla leið niður Elliðaárdalinn til sjávar í Elliðaárvogi í Reykjavík. Það er nú reyndar afskaplega ólíkleg sviðsmynd og þyrfti til verulega langt og mikið gos. Þá eru hraun í Heiðmörk ættuð úr kerfinu að hluta til en einnig reyndar úr Krísuvíkurkerfinu.