Síðastliðinn þriðjudag hófst öflug jarðskjálftahrina við Fagradalsfjall sem svipar mjög til hrinunnar sem átti sér stað í aðdraganda eldgossins sem hófst 19.mars. Síðustu tvo sólarhringa hefur virknin aukist og fjölmargir skjálftar mælst yfir M 4 en þeir finnast víða á suðvesturhorni landsins. Það eru að mælast upp undir 3000 skjálftar á sólarhring sem er gríðarlega öflug virkni.
Það er alveg ljóst að kvika er að reyna að brjóta sér leið upp á yfirborðið og veldur þar með þessum skjálftum. Það er líka alveg ljóst að það mun takast því í raun hefur verið stöðugt uppstreymi kviku úr möttli undir Fagradalsfjalli og nágrenni frá því í febrúar í febrúar á þessu ári og liklega þó lengur því land tók að rísa á skaganum árið 2020. Þótt gosinu hafi lokið í september og formlega verið blásið af fyrir viku síðan þá er ljóst að þetta var aðeins stund á milli stríða.
Líklegasta staðsetning væntanlegs eldgoss er í grennd við gosstöðvarnar frá því fyrr á árinu. Þar er þó greinilega nokkur stífla og kvikan leitar uppkomu út fyrir það svæði. Best væri að fá gosið sem fyrst á þessum stað til að minnka líkur á að það komi upp á verri stað, t.d. nær Grindavík eða austar í Krísuvíkurkerfinu.
Meðfylgjandi mynd sýnir upptök skjálftanna. Það sem helst hræðir eru skjálftar rétt norðaustur af Grindavík. Þeir eru taldir vera svokallaðir gikkskjálftar þ.e. kvika er ekki þarna á ferð heldur afleiðingar spennunnar á svæðinu. Þarna voru líka skjálftasvarmar í aðdraganda eldgossins í mars og dálítið sérstakt að það komi fram gikkskjálftar í þessu magni á fremur þröngu svæði. Þarna á sama stað eru fornar gossprungur þar sem hraunið sem Grindavík stendur á hefur runnið. Það er því full ástæða til að hafa allan vara á þessu svæði.
Síðasta sólarhring hafa einnig mælst skjálftar austan Kleifarvatns en það er á mörkum svæðis sem hefur verið “læst” þ.e. mjög lítið af skjálftum mælst alllengi austan vatnsins. Haldi þeir áfram í austurátt gæti það triggerað margumtalaðan stóran jarðskjálfta á Brennisteins/Bláfjallasvæðinu. Það má því segja að ansi stór hluti Reykjanesskagans er undir í þessum umbrotum en best að vona að gosvirknin haldi sig í það minnsta á svipuðum slóðum áfram.