Kvikuinnskotið við Fagradalsfjall hefur stöðvast

Birta á :

Um jólaleitið stefndi allt í nýtt eldgos við Fagradalsfjall þegar áköf skjálftahrina gekk yfir.  Ljóst var að um kvikuinnskot var að ræða, ekki þó eins öflugt og það sem átti sér stað fyrir gosið í mars í fyrra.  Um og uppúr áramótum tók mjög að draga úr skjálftum og gerfihnattagögn ásamt Gps mælingum sýndu að innskotið sem þó skorti aðeins um 1600 metra til að ná til yfirborðs var við það að stöðvast.  

Líklega var mun minni kvika á ferðinni en í undanfara gossins í mars og ekki nægur þrýstingur til að koma henni til yfirborðs í þetta skiptið.  Líkur á eldgosi hafa því minnkað til mikilla muna í þessari lotu.

Hvað framhaldið varðar þá verður að telja allar líkur á því að umbrot haldi áfram á Reykjanesskaganum á komandi árum og áratugum.  Nokkur líkindi virðast vera með þessum umbrotum og því sem gekk á í Kröflukerfinu á árunum 1975-84.  Þá urðu um 20 kvikuinnskot á 9 árum og 9 þeirra urðu að eldgosum en hin storknuðu neðanjarðar eins og þetta virðist vera að gera.  

Umbrotin á Reykjanesskaga hófust með landrisi við Svartsengi í janúar 2020 og síðan hafa nokkrar slíkar rishrinur gengið yfir. Má því fastlega gera ráð fyrir frekari tíðindum innan ca 6 mánaða eða svo. 

 

Scroll to Top