Jarðvisindastofnun Háskólans mælir vikulega hraunrennsli og efnasamsetningu kvikunnar í eldgosinu í Fagradalsfjalli. Nýjustu mælingarnar frá því í gær verða að teljast allnokkur tíðindi því nú mælist meðal hraunflæði 12,9 rúmmetrar á sekúndu en hefur hingað til verið á milli 5-7 m3. á sekúndu. Það er því greinilegt að gosið er að sækja í sig veðrið svo um munar, þetta er tvöföldun á hraunrennsli frá því sem áður var.
Líklegasta ástæðan fyrir aukningunni er trúilega útvíkkun gosrásarinnar frá kvikuþrónni í efri lögum möttuls, sennilega hlutbráð, þ.e. kvikan bræðir veggi gosrásarinnar smámsaman og víkkar hana þannig að meira magn kviku getur flætt um hana.
Það eru ekki komnar nýjar tölur um gaslosun en hún hlýtur að vera í samræmi við hraunrennslið sem þýðir að meiri hætta stafar af gasi í grennd við gosstöðvarnar en áður.
Hvað þetta þýðir fyrir framhald gossins er ekki gott að segja nema þá að fullyrða má að það sé langt í goslok. Eins og áður hefur verið fjallað um þá er efnasamsetning kvikunnar mjög lík efnasamsetningu í dyngjum á Reykjanesskaganum, sér í lagi stóru dyngjunum. Líkur á löngu gosi sem endar í dyngjumyndum verða að teljast allmiklar. Þá erum við að tala um nokkur ár eða jafnvel lengur.