Síðastliðna viku hefur land risið nokkuð hratt í svokölluðu Svartsengiskerfi sem er eitt eldstöðvakerfanna á Reykjanesskaganum. Nær öruggt má telja að kvika sé að troða sér upp úr möttli og inn í sprungur og glufur ca 4-5 km. undir yfirborði.
Jarðskorpan á Reykjanesskaganum er mjög þunn og í eldstöðvakerfunum þar eru ekki kvikuhólf eins og algengast er í megineldstöðvum.
.
ERU LÍKUR Á ELDGOSI Í KERFINU Á NÆSTUNNI ?
Þegar kvikusöfnun eða innskot á sér stað er alltaf hætta á að kvikan nái til yfirborðs í formi eldgoss. Hinsvegar eru ákveðin atriði sem virðist draga úr líkum á að eldgos sé yfirvofandi.
Í fyrsta lagi þá er algengt að kvikusöfnun verði án eldgosa og dæmi frá síðustu áratugum eru mörg. Dæmi: Hengillinn rétt fyrir aldamót, Eyjafjallajökull sýndi merki um kvikusöfnun í nærri tvo áratugi fyrir gosið þar, Öræfajökull – þar virðist kvikusöfnun hafa stöðvast. Landris átti sér stað við Krísuvík á árunum 2010-2012 sem nær örugglega var vegna kvikusöfnunar. Það stöðvaðist. Þá má nefna kvikuinnskot i grennd við Herðubreið sem var viðvarandi á svipuðum tíma og gaus í Holuhrauni, þar er að mestu rólegt núna.
.
Í öðru lagi er eldgosavirkni á Reykjanesskaganum lotubundin en goshlé er vissulega orðið langt, síðasta gos á Reykjanesskaga varð árið 1240 eða fyrir 780 árum. Goshléin eru talin standa að jafnaði í um 6-800 ár og því í sjálfu sér eðlilegt að hléið sé senn á enda. Hinsvegar amk. í síðustu tveim goshrinum hefur gosvirknin hafist austast á Reykjanesskaganum, þ.e. í Brennisteinsfjallakerfinu (Bláfjöll, Hellisheiði) og unnið sig svo vestur eftir skaganum á næstu 2-3 öldum. Ef það færi að gjósa í Svartsengiskerfinu þá er þessi “regla” brotin! Goshlé í Brennisteinsfjallakerfinu er lika orðið mun lengra en annarsstaðar á skaganum, þar með talið Svartsengiskerfinu sem lætur illa núna. Lítið hefur verið um jarðhræringar í Brennisteinsfjallakerfinu undanfarin ár í samanburði við Krísuvíkur- og Svartsengiskerfin.
.
Þrátt fyrir þetta verður að hafa varann á vegna nálægðar mögulegra eldstöðva við byggð, það er jú vissulega kvika á ferð. Gossprunga gæti opnast einhverja kílómetra frá Grindavík í mögulegu eldgosi en ólíklega það nærri að ekki gæfist ráðrúm til að forða íbúum frá bænum.
Öðru máli gegnir því miður um mannvirkin í Svartsengi, virkjunina og Bláa Lónið, þau eru beinlínis inni á mögulegu svæði þar sem gossprungur geta opnast.
Þá er miðað við líklegustu staðsetningu á gossprungu samkvæmt jarðfræðingum , norðvestan við fjallið Þorbjörn sem mundi þá veita Grindavík ákveðið skjól fyrir hraunrennsli. Ekki er þó loku fyrir það skotið að það geti gosið austar í kerfinu, í eða við svokallaða Sundhnúkasprungu en hún teygir sig inn fyrir bæjarmörk Grindavíkur. Landrisið hefur þó ekki orðið þar en hinsvegar virðist mesta skjálftavirknin vera á því svæði,
Hafa ber í huga að gos í kerfinu eru alltaf hraungos eða svokölluð flæðigos þar sem hraunrennsli getur verið talsvert í byrjun gossins. Það er því full ástæða til að taka þetta landris og kvikusöfnun mjög alvarlega og fylgjast grannt með stöðu mála.
Uppfært: Milli kl 4:30 og 5 í morgun 29. janúar urðu tveir snarpir skjálftar, M 3,5 og 3,2. Upptök þeirra eru nánast við bæjarmörk Grindavíkur að norðanverðu.
Á næstu sólarhringum verður kaflinn um Reykjanesskagann á eldgos.is uppfærður enda mikil þekking bæst við hjá vísindamönnum eftir að hann var ritaður og búið að endurnefna og fjölga eldstöðvakerfunum í samræmi við nýjar upplýsingar.