HARÐIR JARÐSKJÁLFTAR ÚTI FYRIR NORÐURLANDI

Birta á :

Snörp jarðskjálftahrina hefur gengið yfir úti fyrir norðurlandi síðan í gærkvöldi.  Skjálftarnir eru á svipuðum slóðum og skjálftar sem urðu NA af Siglufirði fyrir rétt rúmum mánuði síðan, þann 19. september en hrinan sem nú gengur yfir er þó mun harðari.  Stærsti skjálftinn í nótt mældist 5,2 M og er þar með  að öllum líkindum stærsti jarðskjálfti sem mælst hefur á eða við Ísland síðan Suðurlandsskjálftinn reið yfir árið 2008.  Fjöldi skjálfta hefur verið á bilinu 3-4 og nokkrir yfir 4 af stærð.  Skjálftarnir í nótt hafa fundist um svo að segja allt mið- norðurland, vestur á Ísafjörð og í Dalasýslu.  Harðastir hafa þeir verið á Siglufirði enda bærinn aðeins í um 25 km. fjarlægð frá upptökunum. Myndin hér til hliðar ef fengin af vef Veðurstofunnar og sýnir upptök skjálfta í gærkvöldi og í nótt.  Dreyfing skjálftanna er þó varla með þessum hætti sem myndin sýnir því þegar mjög margir skjálftar verða þá koma oft upp villur varðandi staðsetningu.  Flestir þeirra eiga upptök um 25 km. norður af Siglufirði.

Þetta eru  brotaskjálftar nálægt svokölluðu Flateyjar-Húsavíkur misgengi en þó líklega ekki á misgenginu sjálfu.  Þessi hrina er hinsvegar að verða nokkuð þrálát, segja má að hún hafi hafist fyrir mánuði síðan, lá svo að mestu niðri þar til fyrir nokkrum dögum að  hún tók sig svo upp aftur og herti svo mjög á hrinunni í gærkvöldi og nótt.   Þetta er fremur óvenjuleg þróun á jarðskjálftahrinu því í flestum tilfellum verða stærstu skjálftarnir fyrst og svo smádregur úr hrinunni.  Þetta er ekki eldvirkt svæði og engin ástæða til að óttast neitt slíkt, en eins og mál standa núna er ekki hægt að útiloka fleiri mjög snarpa jarðskjálfta á svæðinu.

Fréttir fjölmiðla af skjálftunum:

Mbl.is:  Lítið lát á jarðskjálftum

Visir.is:  Allt nötrar og skelfur á Norðurlandi

Pressan.is: Jörð nötrar fyrir norðan: Rúður hafa sprungið og hlutir dottið úr hillum

 

UPPFÆRT KL. 19 20

Enn er talsverð skjálftavirkni á svæðinu þó það hafi dregið úr hrinunni.  Stóri skjálftinn í nótt hefur verið endurmetinn og stærð hans er nú talin hafa verið 5,6 M og er þar með stærsti jarðskálfti á Tjörnesbrotabeltinu frá því árið 1976 eða í 36 ár.  Upptök skjálftanna eru í sigdal í Eyjafjarðarál.   Sigdalur þýðir að landsvæði eða hafsbotn sígur á milli tveggja meginbrotalína.  Sigið á sér yfirleitt ekki stað jafnt og þétt, heldur gerist í umbrotahrinum þar sem saman fer rek, gliðnun og jarðskjálftar.

1 thought on “HARÐIR JARÐSKJÁLFTAR ÚTI FYRIR NORÐURLANDI”

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt.

Scroll to Top