Hraun tók að renna þvert á gönguleið A í gær og lokaði þar með leiðinni að helsta útsýnisstaðnum. Svonefndur “Gónhóll” hafði þegar lokast af en hóll aftan við hann hafði tekið við hlutverkinu sem besti útsýnisstaðurinn. Svo er ekki lengur og var svæðinu lokað í dag. Verið er að hugsa næstu skref hvað varðar gönguleiðir.
Gosið sjálft hefur einnig breytt um takt. Nú er sírennsli úr gígnum. Mikil hrauntjörn er í gígnum sem kraumar og sýður í. Hraunár eru sjáanlegar á yfirborði til austurs og suðausturs en líklega er rennslið þó mest í lokuðum rásum undir storknuðu yfirborði.
Meradalir eru nú vel botnfullir af hrauni. Nú rennur niður á Nátthaga frá þremur stöðum, stíflunum tveim í “Nafnlausadal” og svo liggur nú taumur frá Geldingadal yfir gönguleið A og beint niður í Nátthaga. Sá dalur getur þó tekið við allmiklu og þó hraunið þokist nær þjóðveginum þá verður að telja líklegt að það taki enn nokkrar vikur í viðbót fyrir hraunið að ógna veginum.
Einnig er möguleiki að hraunið í Geldingadal finni sér leið niður í Nátthagakrika eftir gönguleið A. Hvað sem þessum vangaveltum líður er ljóst að sífellt erfiðara er að finna aðgengilegan stað til þess að horfa á gíginn sjálfan þar sem hraunið flæðir lengra frá gígnum í allar áttir eftir því sem á líður.
Síðustu mælingar benda til þess að hraunrennslið sé um 13 rúmmetrar á sekúndu en það kæmi ekki á óvart þó næsta mæling sýndi nokkra aukningu.