ELDGOS ER HAFIÐ Á REYKJANESSKAGA

Birta á :
  • UPPTÖKIN VIÐ LITLA-HRÚT OG HRAUN RENNUR TIL SUÐURS
  • GOSIÐ MARGFALT STÆRRA EN SÍÐUSTU TVÖ GOS
  • GOSSPRUNGAN NÆRRI KÍLÓMETRA LÖNG
  • LÍTIL SEM ENGIN HÆTTA STAFAR AF HRAUNRENNSLI EN GASMENGUN GÆTI ORÐIÐ TALSVERÐ
Kort frá vefnum Map.is Rauða strikið sýnir hvar gosstöðvarnar eru.

Eldgosið sem hafði verið beðið eftir undanfarna sólarhringa hófst rétt fyrir kl 17 í dag.  Fyrst um sinn var sprungan stutt, um 200 metrar en lengdist mikið á fyrstu tveim klukkustundunum.  Jarðfræðingur lýsti gosinu í sjónvarpsfréttum sem töluverðu.

Gosið er á þægilegum stað hvað innviði varðar og ættu þeir ekki að vera í neinni hættu frá hraunrennsli.  Þar sem megin hraunstraumurinn rennur til suðurs þá fer það líklegast yfir hraunið frá 2022 á leið sinni lengra suður og þarf ansi langt gos til þess að það nálgist Suðurstrandaveg eða aðra innviði á þeim slóðum.  Ef sprungan lengist til norðurs þá gæti hraun farið að renna í átt að Reykjanesbraut en það er ansi löng leið.

Gönguleiðir að gosinu eru liklega stystar frá slóðunum að síðasta gosi en ganga þarf 2-3 km í viðbót til að komast nærri gosstöðvunum.  Fólki er ráðlagt að leggja ekki af stað fyrr en viðbragðsaðilar hafa gefið grænt ljós á það.  Þar sem gosið er allstórt þá gæti gasmengun orðið töluverð sérstaklega nærri gosinu.  Ekki er ráðlagt að ganga frá Reykjanesbrautinni að gosinu. Slóðanum að Keili verður væntanlega lokað enda þolir hann enga umferð.  Það er því ansi langur gangur yfir úfið hraun ef fólk ætlar þá leiðina.

Þar sem gosið er nýhafið er ómlögulegt að segja til um hvernig það þróast, hvort það líkist fyrsta gosinu sem mallaði í  hálft ár eða öðru gosinu sem var kraftmikið í upphafi en dró fljótt af því.  

 

Scroll to Top