Gosið er á um 1 km. langri sprungu og því sem stendur mjög lítið. Það gat varla komið upp á heppilegri stað, utan jökuls og ekki nær Öskju en þetta. Hraun sem kemur upp á þessum stað þarf að renna svo langt til að valda skaða að það má telja útilokað að það gerist.
Meðan þarna er gos þá ætti kvikugangurinn ekki að lengjast þ.e. ef gosið nær að létta af mesta þrýstingnum. Miðað við hve lítið gosið er þá er það hinsvegar alls ekki víst. Það er enn margfalt meira magn kviku sem hefur verið á ferðinni heldur en er að koma upp í þessu gosi þannig að óvíst er að þetta smágos marki lok þessarar hrinu.
Rétt er þó að benda á að stórir kvikugangar storkna oft í jörðu án þess að ná yfirborði þannig að spurningin núna er hvort það sé að hægjast á uppstreymi kvikunnar úr kvikuþrónni undir Bárðarbungu, sé svo þá gæti þetta markað lok þessarar lotu í hrinunni að minnsta kosti. Óróatímabil í Bárðarbungu gæti hinsvegar staðið í áratugi með mörgum misöflugum gosum. Við bendum sérstaklega á vefsíðu Mílu þar sem hægt er að fylgjast með gosinu í beinni útsendingu.
.
Myndin hér til hliðar er tekin af skjálftavefsjá veðurstofunnar og þar sést greinilega að mesta virknin er nálægt gosstöðvunum rétt norðan Dyngjujökuls, þ.e. i Holuhrauni sem myndaðist í gosi árið 1797. Menn hafa hingað til hallast að því að það hraun hafi sprottið úr eldstöðvakerfi Öskju en má telja víst að það hafi runnið i kjölfar kvikuhlaups frá Bárðarbungu.
Fréttir af gosinu í fjölmiðlum:
Mbl.is: Eldgos hafið norðan Dyngjujökuls
Ruv.is: Eldgos hafið i Holuhrauni
Visir.is: Sprungan talin vera um 1 kílómetri á lengd
.
UPPFÆRT KL. 12 50
GOSINU LOKIÐ, SMÁGOS SEM BREYTIR ENGU UM FRAMVINDUNA. Það fór eins og lá strax nokkuð ljóst fyrir að gosið var alltof lítið til þess að létta þrýstingi af kvikuganginum frá Bárðarbungu út í Holuhraun. Því er lokið í bili amk. en skjálftavirknin hefur haldið áfram og aukist síðustu klukkustundir. Tveir stórir skjálftar urðu um hádegisbilið við norðanverða Bárðarbunguöskjuna, annar M 4,8 og hinn 5,2.
Vísindamenn eru nokkuð sammála um að aðeins brotabrot af kvikunni sem er á ferð kom upp, þetta var í raun aðeins örlítill leki upp úr kvikuganginum. Mikil skjálftavirkni er á þeim slóðum sem gosið varð, þ.e. við enda kvikugangsins en hann hefur lítið sem ekkert skriðið fram síðustu sólarhringa og virðist því vera einhver fyrirstaða í berginu sem stöðvar hann í bili að minnsta kosti. Áframhaldandi skjálftavirkni þýðir einfaldlega að kvika er enn að streyma upp úr kvikuþró Bárðarbungu og inn ganginn fram eftir Dyngjujökli. Óvissan og möguleiki á stóru gosi er þvi enn fyrir hendi.
Þá vekur athygli að skjálftar raða sér nokkurnveginn hringinn í kringum Bárðarbunguöskjuna. Mjög fróðlegt væri að vita hvað GPS færslur segja um hvort hún hefur sigið síðustu sólarhringa, sumir vísindamenn segja að skjálftarnir í öskjunni séu vegna aðlögunar og sigs en nefna ekki hvort þetta sig sjáist á GPS mælingum sem framkvæmdar hafa verið.
UPPFÆRT 31 ÁGÚST KL. 9 15
GOSIÐ Í HOLUHRAUNI HAFIÐ AFTUR – MUN STÆRRA
Í nótt hóf að gjósa á nýjan leik í holuhrauni , að huta til á sömu sprungu og fyrir 2 dögum en hún nær þó mun lengra í norður en áður og út fyrir svæðið sem hraunið og sprungan frá 1797 nær yfir. Sprungan mun vera vel á annan kilómeter á lengd og kvikustrókar ná um 60 metra hæð að sögn sjónarvotta.
Þrátt fyrir að þetta sé stærra gos en “slysið” fyrir tveim dögum þá er um smágos að ræða. Það má etv. líta á þessi gos sem einskonar yfirfall frá aðrennslisæðinni neðanjarðar, þ.e. það er bara sáralitið brot af kvikunni að skila sér upp á yfirborðið.
Mjög hefur dregið úr skjálftavirkni á svæðinu síðustu klukkustundir sem bendir til þess að kvikustreymið fari minnkandi í bili en það má fastlega reikna með því að virknin aukist aftur miðað við hvernig atburðarrásin hefur verið síðust tvær vikur.
Hér er slóð á vefmyndavél Mílu á svæðinu en veðrið er afleitt þar þessa stundina og sést lítið til gossins.