Við áramót

Birta á :

Nú er árið 2012 gengið í garð og rétt að fara yfir það markverðasta sem gerðist árið 2011.  Þar er að sjálfsögðu efst á lista stórgosið í Grímsvötnum í maí.  Það kom engum á óvart að þar yrði gos en krafturinn í því var miklu meiri en menn eiga að venjast í Grímsvatnagosum.  Gosið stóð hinsvegar stutt, kanski til allrar hamingju því nóg voru lætin meðan það stóð.  Mikið öskufall varð á suðausturlandi, að hluta til á sömu svæðum og höfðu orðið fyrir barðinu á Eyjafjallajökli árið áður.  Þetta 5 sólarhringa gos framleiddi jafnmikið af gosefnum og gosið í Eyjafjallajökli sem stóð i 40 daga!

Katla var með derring allt árið, sérstaklega þó um sumarið þegar talið er að smágos hafi orsakað hlaup í Múlakvísl.  Gosið, ef eitthvað var, náði ekki uppúr jöklinum.  Á haustmánuðum urðu öflugar jarðskjálftahrinur í Kötlu en sú gamla lét það duga að sinni.  Heldur hægðist um undir lok ársins enda á Katla það helst til að gjósa á tímabilinu september til nóvember miðað við söguna.  Tengist það vænntanlega þrýstingsbreytingum vegna snjóbráðnunar á jöklinum seinni part sumars.

Krísuvíkursvæðið var á talsverðri hreyfingu af og til á árinu.  þar gengu yfir skjálftahrinur og nokkuð landris hefur einnig mælst á svæðinu.   Ekki er enn ljóst hvað veldur því, væntanlega þó annaðhvort kvikusöfnun undir svæðinu eða breytingar á háhitasvæðinu.

Bárðarbunga hristist stundum hressilega á árinu og virtist hreyfingin ná yfir stórt svæði, frá Hamrinum í suðri að Kistufelli norðan við Bárðarbungu.  Þetta kerfi hefur verið órólegt lengi, reyndar síðustu áratugi en ekki enn gosið.  Gjálpargosið 1996 tilheyrði Grímsvatnaeldstöðinni þó stór skjálfti í Bárðarbungu hafi komið gosinu af stað.

Þá urðu einnig hrinur í Suðvesturhorni Langjökuls eins og reyndar stundum vill verða.  Mikla athygli vöktu svo manngerðir jarðskjálftar á Hellisheiði í tengslum við dælingu vatns í borholur á svæðinu.

HVAÐ SEGJA VÖLVURNAR UM 2012 ?

Það er séríslenskur siður að ákveðnir fjölmiðlar fá völvur til liðs við sig um áramót og svona til gamans kíkjum við á hvað völvur Vikurnnar og DV hafa um næsta ár að segja hvað hamfarir varðar.  Er fyrst til að nefna að þær eru algjörlega á öndverðum meiði og virðast hafa mjög ólík tengsl í andaheimum.  Vikuvölvan spáir miklum hamförum í Kötlu á árinu  og reyndar miklum umbrotum víða á landinu.  Katla á að hreyfa bæði við Heklu og Vatnajökli.  Nefnir hún einnig Grímsey og Kolbeinsey til sögunnar en þó líklega frekar fyrir jarðsjálfta á því svæði en eldgos.  Þá nefnir hún Bláfjallasvæðið og Reykjaneshrygginn, hann fer að gera “einhverja vitleysu” á næstunni. Þá sér hún byggð fara undir hraun.  Hvað Kötlu varðar sér hún mikla gjósku og einnig hraun.  Okkar mat: Að allt þetta gerist á einu ári er nú frekar hæpið, jafnvel þó um 2012 sé að ræða!  Einnig er mjög ólíklegt að hraun renni frá Kötlu, slíkt gerist ekki í gosi sem er í öskjunni undir 700 metra þykkum ís en þar eru langflest Kötlugosin.  Hinsvegar getur gosið í hlíðum fjallsins eða eins og gerðist árið 934 að sprungan nái úr öskjunni og norður fyrir jökulinn en hvort tilfellið sem er verður að telja mjög ólíklegt enda virknin síðustu ár bundin við öskjuna fyrst og fremst en einnig Goðabungu.  Hún er reyndar nær íslausu svæði á Fimmvörðuhálsi og A-V sprunga gæti tæknilega séð náð inn á íslaust svæði þar.

DV völvan tekur svo allt annan pól í hæðina og segir Kötlu sofa áfram!  – Hún spáir hinsvegar gosi í sjó á milli lands og Vestmannaeyja. Það væri reyndar grafalvarlegur atburður að fá gos á þeim slóðum enda ekki nema tæpir 10 km. á milli Heimaeyjar og fastalandsins – Gosið gæti allt eins teygt sig inn á Heimaey.  Elliðaey er norðaustan við Heimaey, mynduð í stóru gosi fyrir um 5-6000 árum.  Það er reyndar ekkert útilokað að hrinan sem hófst við Vestmannaeyjar 1963 með Surtseyjargosinu (?) sé ekki liðin hjá.  En í þessu sambandi er vert að geta þess að það er ekki alveg á hreinu að goshrinan í Vestmannaeyjakerfinu hafi hafist með Surtsey.  nokkuð áreiðanlegir annálar benda til þess að gos hafi orðið í sjó við Vestmannaeyjar árið 1896 og hér má svo sjá frásögn af hugsanlegu gosi árið 1941 en af því fer þó fáum sögum.  Vestmannaeyjakerfið er svolítið líkt Heklu að því leiti að nánast enginn fyrirvari er á gosum þar, einhverjir skjálftar fáum klukkustundum fyrir gos virðist vera allt og sumt.  En vonum bara að DV völvan hafi rangt fyrir sér.

Talandi um Heklu þá telur sá er þetta ritar langlíklegast að hún láti á sér kræla á árinu – reyndar miklu líklegri en aðrar eldstöðvar.  Vitað er að kvika hefur safnast í kvikuhólfið frá síðasta gosi og þrýstingur orðinn nokkuð mikill.

Eldgos.is óskar lesendum gleðilegs árs og friðar.

1 thought on “Við áramót”

  1. Sammála þessu með Heklu. Hugsa að hún fái hríðir í apríl næstkomandi og gjósi tignarlega, held að Katla safni í sarpinn fyrir október sama ár og að Landvættir Ríkisins sýni mátt sinn í verki og komist í heimspressuna með eftirminnilegum hætti enn einu sinni. Kæmi mér ekkert á óvart þó flóðbylgja eða einhver ósköp ættuð frá Kötlu grandi helstu forkálfum vogunarsjóðanna eða eitthvað álíka. Einnig væri týpískt að gosið milli lands og eyja sem DV völvan nefnir yrði að veruleika. Það er líka möguleiki að það séu tilvonandi gríðarleg gosefnin frá Kötlu sem villi um fyrir DV völvunni og það sé það sem hún sér. Reikna bara hálfpartinn með að geta keyrt þurrum fótum alla leið í febrúar- mars 2013 eftir að atvinnulausir fv. þingmenn suðurkjördæmis hafa glaðhlakkalegir malbikað leiðina með berum höndum, það er að segja ef Inkarnir hafi rangt fyrir sér og það komi 2013, þrátt fyrir að tímatal þeirra hafi endað í des 2012. Spái spennandi ári á öllum vígstöðvum… hehehehehe… Gleðilegt ár 😉

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt.

Scroll to Top