Styttist í næsta atburð í Svartsengi – Eldgos líklegt innan tveggja vikna

Birta á :

Spár sumra eldfjallafræðinga um að gosum við Sundhnúka sé senn lokið virðast ekki ætla að rætast.  Landris er mjög stöðugt með rismiðju í og við Svartsengi.  Þar hefur land risið um rúma 20 cm frá því snemma í júní,  vestar þ.e. í Eldvörpum er risið í kringum 12 cm og í og við Grindavík um 8-12 cm.  Líklega streyma um 4-6 rúmmetrar á sekúndu úr stóru kvikuþrónni á 9-12 km dýpi upp í minna kvikuhólfið undir Svartsengi á um 4 km dýpi. 

Nú telur Veðurstofan að vænta megi goss eða kvikuhlaups innan tveggja vikna.  Skjálftavirkni á svæðinu er smámsaman að aukast og hættustigi hefur verið lýst yfir.  Þá hafa menn sérstaklega áhyggjur af Grindavík núna því jörð þar er svo sundursprungin að kvika gæti átt auðvelt með að ferðast eftir sprungukerfi frá Hagafelli og koma upp um gossprungu inni í bænum.  Sú sviðsmynd er reyndar frekar ólíkleg en allsekki hægt að útiloka þennan möguleika.

Kort frá ISOR þar sem  litum hefur verið breytt til að auka sýnileika.  Hraunin frá 2021-2024 eru rauð, hraunin frá 1211-1240 eru græn og ath. að þá gaus einnig í sjó við Reykjanes og amk eitt af þeim gosum töluvert stórt.
Bláu svæðin eru svo frá goshrinu fyrir 1900-2400 árum. Þau hraun eru enn víðáttumeiri en hraunin frá 13.öld en hinsvegar er ekki vitað á hve löngum tíma þau runnu. Þar sem þetta gengur í hrinum í hverju kerfi fyrir sig þá verður að telja líklegast að þau séu runnin á fáum áratugum frekar en öldum. Ath. að hraunin 1211-1240 runnu yfir eldri hraunin á löngum köflum og auðvelt að sjá það á kortinu. Bláa svæðið því að hluta til undir því græna.
Þá eru nýjustu Sundhnúkahraunin einnig að stórum hluta runnin yfir 1900-2400 ára gömlu (bláu) hraunin.

Það er nú þannig að fortíðin getur sagt ansi mikið um framtíðina.  Þegar borin eru saman hraun sem runnin eru á þessu svæði í núverandi eldsumbrotum og í eldsumbrotum annarsvegar fyrir 1900-2400 árum og hinsvegar í goshrinu árin 1211-1240 þá sést greinilega að aðeins brot af þeirri kviku sem þá kom upp er komin upp núna.  Þetta sést vel á meðfylgjandi korti.  Hafa verður einnig í huga að í báðum fyrri hrinunum urðu einnig eldgos í sjó skammt undan ströndinni við Reykjanestá.  Þá rann hraun í Eldvarpagosunum um 1230-1240 heila 3 km út í sjó þótt ótrúlegt sé.

Talið er að kvikuþróin sem er á 9-12 km dýpi sé um 50 rúmkílómetrar að stærð.  Þetta er gífurlegt magn, til samanburðar er talið að um 14  rúmkílómetrar af gosefnum hafi komið upp í Skaftáreldum.  Þetta magn er að vísu aldrei á leiðinni allt upp á yfirborðið og líklega aðeins lítið brot af því.  Þetta er hinsvegar kvikan sem væntanlega mun fæða það gosskeið sem nú er nýhafið á Reykjanesskaganum næstu þrjár aldir eða svo.   

Þegar horft er til fyrri gosskeiða þá er auðvitað aðeins það síðasta nokkuð vel þekkt hvað varðar tímasetningar.  Þá er vitað að goshrinur virðast hafa staðið í um 30 – 40 ár og sjálfsagt mislöng hlé á milli gosa.  Goshrina gekk yfir í Krísuvíkurkerfinu árin 1151-1188 og svo í Reykjaneskerfinu árin 1211-1240.  Núverandi goshrina hófst með gosinu í Geldingadölum árið 2021 og við gætum því verið að horfa á virkni fram yfir árið 2050 á svæðinu frá Sundhnúkum og að eða jafnvel út fyrir Reykjanestá.  Það verða vitaskuld ekki stöðug gos, sjálfsagt góð hlé á milli þeirra en landris, jarðskjálftar og jarðhnik ýmisskonar verður sjálfsagt viðvarandi.  Þá er ekkert víst að Brennisteinsfjallakerfið og Krýsuvík bíði endilega þar til þessum umbrotum er lokið.   

Spurningin núna er kanski ekki hversu lengi þessi goshrina varir , heldur frekar hve lengi hún heldur sig við Sundhnúkaröðina.  Líklega færist virknin vestar og þá fyrst yfir í Eldvörp.  Þá verður einnig að horfa á þá staðreynd að í Svartsengi, örskammt suður af orkuverinu eru fornir gígar og ekki hægt að útiloka eldsuppkomur á þessu svæði.

Veðurstofan er komin með nýtt vefsvæði sem er afskaplega fræðandi og má finna hér Aflogun (vedur.is)  þarna er hægt að sjá gps stöðvar um allt land sem og landris eftir gervihnattarmyndum.  Á skjáskotinu hér að neðan má vel greina stærð grynnra kvikuhólfsins með miðju undir Svartsengi.

 

Scroll to Top