Eldgosið sem nú stendur yfir í Grímsvötnum er stórgos og eitt af öflugustu eldgosum sem hér hafa orðið í yfir 100 ár.
Krafturinn í gosinu var þegar hann var mestur áætlaður 10-20 sinnum meiri en krafturinn í gosinu í Eyjafjallajökli fyrir rúmu ári síðan. Er þá miðað við áætlað gosefnamagn sem eldstöðin lætur frá sér á tilteknu tímabili. Má ætla að aðeins Kötlugosið 1918 og Heklugosið 1947 séu sambærileg við þetta gos hvað sprengikraft varðar sé litið til gosa á þessari öld og síðustu. Gosmökkurinn náði um tíma 20 kílómetra hæð sem er mesta hæð sem gosmökkur hefur náð síðan í upphafi Heklugossins 1947. Gríðarlegur fjöldi eldinga hefur mælst í gosmökknum, yfir 2000 á klukkustund þegar mest var í nótt. Hér hefur Veðurstofan sett upp vefsvæði sem sýnir tíðni eldinga yfir gosstöðvunum. Athyglisvert er að fylgjast með gosóróanum á mælum Veðurstofunnar. Á kortinu er smellt á punktinn á vestanverðum Vatnajökli en þar eru Grímsvötn.
Þrátt fyrir að rúmur sólarhringur sé liðinn frá því gosið hófst þá hefur ekki tekist að komast nærri gosstöðvunum en ca 30 km. og því ekki enn vitað nákvæmlega hve löng gossprungan er en það getur skipt nokkru máli upp á hugsanlegt hlaup. Þó er ekki talið að stórhlaup sé yfirvofandi því stutt er síðan hljóp úr Grímsvötnum og því ekki mikið vatnsmagn í þeim.
Gos í Grímsvötnum eru venjulega öflugust í upphafi en svo dregur úr þeim og yfirleitt standa þau ekki lengi yfir. Hitt verður þó að athuga að þetta gos er gríðarlega öflugt og gæti því staðið lengur fyrir vikið. Í flestum tilvikum eru Grímsvatnagos tiltölulega saklaus og lítil en það á svo sannarlega ekki við nú. Einnig verður forvitnilegt að sjá hvaða breytingar verða á eldstöðinni í kjölfar gossins því stærð þess er þess eðlis að það gæti breytt landslagi við Grímsvötn og þeirri hefðbundnu rútínu sem Grímsvatnahlaup hafa verið í. Mjög öflug gos geta einnig valdið landsigi undir eldstöðinni (öskjumyndun) en ekkert bendir þó til þess að það sé að eiga sér stað nú.
Öskufall hefur orðið mjög víða um landið, mest þó sunnan og suðaustan lands. Undir kvöld lagði mökkinn vestur og náði höfuðborgarsvæðinu um kvöldmatarleytið. Myndirnar hér að neðan voru teknar á suðurlandi í dag.
Hér er Youtube videó tekið skömmu eftir gosbyrjun
httpv://www.youtube.com/watch?v=oMStcqHfwQ4
I edge to skibidi toilet