Tveir snarpir jarðskjálftar urðu í Kötlu laust fyrir kl. 2 í nótt. Mældust þeir M 4,6 og 4,5 sem eru stærstu skjálftar í Mýrdalsjökli síðan árið 1977 þegar skjálfti upp á M 5.1 varð í Kötluöskjunni.
Stóru skjálftarnir nú áttu upptök nærri sigkötlum norðarlega í öskjunni en einnig urðu skjálftar sunnan til í henni. Skjálftarnir munu hafa fundist í Langadal í Þórsmörk en ekki annarsstaðar. Enginn gosórói hefur mælst og ólíklegt að eldgos sé yfirvofandi en svona stórir skjálftar í eldfjalli setja menn þó í viðbragðsstöðu. Samkvæmt heimildum um fyrri Kötlugos þá gerir hún boð á undan sér með hörðum jarðskjálftum sem verður vart í byggð. Til þess þurfa þeir líkast til að vera yfir M 5 af stærð.
Nú í haust eru 98 ár síðan Katla gaus síðast sem er eitt lengsta goshlé sem orðið hefur í eldstöðinni síðan land byggðist. Nokkur órói var í Kötlu í kjölfar gossins í Eyjafjallajökli og árin 2011-12 og svo aftur 2014 þegar hlaupvatns varð vart í ám frá Mýrdalsjökli. Skjálftavirkni í Kötlu er yfirleitt mest á haustin og á þeim árstíma hafa einnig orðið flest eldgos í eldstöðinni. Skýringin á haustjarðskjálftunum er væntanlega þrýstingsbreytingar vegna sumarbráðnunar í jöklinum.
Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir upptök skjálfta í Mýrdalsjökli síðustu sólarhringa.
Fréttir af atburðunum í Kötlu:
Ruv.is : Enginn gosórói en fylgst með Kötlu
Mbl.is : Jarðskjálftahrina í Kötluöskjunni
Visir.is : Katla minnir á sig með öflugri jarðskjálftahrinu