Nokkur virkni hefur verið á Tjörnesbrotabeltinu undanfarna sólarhringa með skjálftum upp undir M 4 af stærð. Stærsti skjálftinn, M 3.7 varð um 8 km NNV af Gjögurtá aðfaranótt sunnudags en sólarhring áður hafði orðið skjálfti upp á M 3.4 skammt norðaustur af Grímsey. Tjörnesbrotabeltið er í raun þrjú stór misgengi. Í þessu tilviki er virknin á tveimur þeirra en það gerist alloft að fleiri en eitt misgengi eru virk samtímis. Skjálftar eru algengir á þessum slóðum og standa hrinurnar oft vikum saman. Af og til verða mjög öflugar hrinur á þessum slóðum. Þannig mældust skjálftar vel yfir M 5 árin 2012 og 2013 en síðan hefur verið heldur rólegra á svæðinu.
Meðfylgjandi mynd sem fengin er af vef Veðurstofu Íslands sýnir vel hvernig misgengin á Tjörnesbrotabeltinu liggja og upptöks skálfta þar. Hringir utan um ártöl segja til um stærstu skjálfta sem orðið hafa á svæðinu en sumir þeirra hafa náð M 7 af stærð t.d. Skagafjarðarskjálftinn árið 1963.