Kl. 22 12 í kvöld varð jarðskjálfti í Langjökli sem mældist M 4,6. Skjálftinn fannst mjög víða, um allt vesturland, norður í Húnavatnssýslu, á Suðurlandi og á höfuðborgarsvæðinu. Miðað við þetta kæmi varla á óvart að hann hafi verið mun stærri en þessar fyrstu niðurstöður benda til. Fjöldi eftirskjálfta hafa mælst, þeir stærstu um M 3.
Skjálftinn varð í syðri hluta jökulsins, af því er virðist í jaðri öskjunnar sem þarna er undir jöklinum á tæplega 4 km dýpi. Skjálftavirkni á þessu svæði hefur verið allnokkur í gegnum tíðina en þó sjaldgæft að þetta stórir skjálftar ríði yfir. Langjökull tilheyrir vestara gosbeltinu eins og Reykjanesskaginn sem nú er að vakna upp af tæplega 800 ára blundi. Hvort Langjökulskerfið vakni líka skal ósagt látið en síðasta gos í kerfinu varð um árið 900 þegar Hallmundarhraun rann um 50km leið frá jökulsporðinum niður í Hvítársíðu í verulega stóru gosi.