Í kvöld varð skjálfti M 4,1 í sunnanverðri Kötluöskjunni. Nokkrir eftirskjálftar fylgdu, allir mun minni. Skjálftinn virðist ekki hafa fundist í nágrenninu, amk. hafa engar tilkynningar um það borist.
Skjálftavirkni er venjulega mest í Mýrdalsjökli síðsumars og á haustin. Reikna má með skjálftahrinum í jöklinum næstu mánuði en það er svosem ekkert sem bendir til stærri atburða þrátt fyrir að goshléið í Kötlu sé orðið það lengsta sem vitað er um á sögulegum tíma, enda ekki gosið svo staðfest sé síðan 1918.
Þessir skjálftar eru á vatnasviði Sólheimajökuls en hlaup úr jöklinum frá því svæði eru vel þekkt þó ekki komi til eldgoss, þar er væntanlega jarðhitavirkni um að kenna.