Um hádegisbil í dag hófst öflug jarðskjálftahrina skammt norðaustur af Fagradalsfjalli á Reykjanesskaga. Fljótlega varð ljóst að kvikuhreyfingum á um 5-7 km dýpi væri um að kenna. Langlíklegast er að um sé að ræða kvikuinnskot eða kvikugang líkt og í undanfara gossins í fyrra.
Svipaður atburður átti sér stað í desember sl. en hrinan núna virðist mun öflugri sem þýðir einfaldlega að það er meiri kvika á hreyfingu. Þó er hrinan ekki nærri eins öflug og sú sem varð fyrir gosið , amk. ekki enn sem komið er.
Stærstu skjálftarnir hafa verið M 4,4 og M 4,0 og fundust báðir víða á suðvesturhorninu. Skjálftarnir eru flestir staðsettir fáeinum km. norðaustur af gosstöðvunum frá því í fyrra en engu að síður verður að telja líklegast að ef til eldgoss kæmi þá væri líklegasta staðsetning áðurnefndar gosstöðvar því þar er fyrirstaðan minnst.
Þessi atburður hefur verið kallað kvikuhlaup en það er nú varla réttnefni því þá er oftast átt við að kvika ferðist úr grunnstæðu kvikuhólfi lárétt eftir sprungukerfum. Þarna er ekkert grunnstætt kvikuhólf, heldur kvikuþró á 16-20 km dýpi og er því freka um að ræða lóðrétta hreyfingu kviku, þ.e. kvikuinnskot.
Þessi hrina getur vel staðið í nokkra daga en ómögulegt er að segja hvort hún endi með gosi. Líklega eru minni en helmings líkur á því. Svona hrinur munu verða oft og reglulega næstu áratugina eins og jarðfræðingar hafa bent á þar sem Reykjanesskaginn er vaknaður af tæplega 800 ára svefni.
Það er hægt að fá rauntímakort á vef Veðurstofu Íslands en einnig bendum við á mjög góð rauntímakort hér: Skjálfti 2.0 (vafri.is)