MJÖG ÖFLUG JARÐSKJÁLFTAHRINA Á REYKJANESSKAGA- SÁ STÆRSTI M 5,7

Birta á :

EIN ÖFLUGASTA HRINA Á REYKJANESI FRÁ UPPHAFI MÆLINGA. HÆTTUSTIGI LÝSTI YFIR Á REYKJANESI OG HÖFUÐBORGARSVÆÐINU. Á ANNAN TUG SKJÁLFTA YFIR M 4,0

Upptök skjálftanna. Heimild:Veðurstofa Íslands

Laust eftir kl 10 í morgun varð jarðskjálfti af stærð 5,7 um 3,3 km SSV af Keili. Þetta er einn allra stærsti skjálfti sem mæst hefur á Reykjanesskaganum. Svipaður skjálfti varð þó í október síðastliðnum en sá mældist 5,6. Þessi er semsagt ögn stærri og virðist hafa fundist á enn stærra svæði, allt norður í land.

Mjög mikil eftirskjálftavirkni hófst strax og fyrsta klukkutímann eftir skjálftann mældust hvorki meira né minna en 35 skjálftar yfir M 3 sem er gríðarlega mikið á svo stuttum tíma. Síðan hefur heldur dregið úr skjálftum en þó varð einn um M 4,9 kl 12:37.

Þá er skjálftasvæðið allmikið umfangs. Skjálftarnir eru mest að mælast á rúmlega 20 km. löngu belti frá Svartsengi að Krýsuvík sem er óvanalegt. Skjálftarnir eru sniðgengisskjálftar og ólíklegt að þeir tengist eldsumbrotum en þar sem þeir eiga sér stað á eldvirku svæði þar sem landris hefur mælst nýlega vegna kvikuhreyfinga þá er ekki rétt að útiloka eldgos. Sniðgengisskjálftar verða þegar þversprungur á flekaskilum nuddast saman og er það reyndar algengasta tegund skjálfta sem verða á Íslandi.

Helst er óttast að þessi hrina komi af stað skjálftum á Bláfjalla-Brennisteinsfjallasvæðinu en það hefur verið undarlega rólegt á því belti meðan vesturhluti Reykjanesskagans hefur nú skolfið meira og minna í á annað ár. Skjálftar í Brennisteinsfjöllum geta orðið allt að M 6,5. Þar sem algengt er að stórir skjálftar komi í hrinum þá er best að fólk á Suðvesturhorninu hafi varann á sér meðan þetta gengur yfir.

Eins og sést á meðfylgjandi mynd þá raðast skjálftarnir á rúmlega 20km langt belti. Austan Kleifarvatns eru sárafáir skjálftar.

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt.

Scroll to Top