Margt bendir til þess að kvikuinnskot undir Eyjafjarðarál orsaki mikinn fjölda smáskjálfta sem þar hafa mælst undanfarna daga. Þessi mikli fjöldi tiltölulega lítilla skjálfta, allir undir M3 af stærð, er óvenjulegur en ætla mætti að stærri skjálftar fylgdu með. Þeir hafa hinsvegar ekki orðið. Skjálftarnir eru ennfremur á nokkuð afmörkuðu svæði og meirihluti þeirra á 10-12 km dýpi sem bendir til kvikuinnskots eins og fram kom í viðtali við jarðeðlisfræðing í hádegisfréttum Rúv í dag.
Öflugar jarðskjálftahrinur hafa orðið undanfarin misseri á brotabeltunum úti fyrir Norðurlandi og er þetta etv. eðlilegt framhald á þeirri virkni. Innskot í jarðlög á um 10 km. dýpi boðar ekki eldgos, það er amk. mjög ólíklegt. Staðreyndin er að mikill meirihluti kviku storknar djúpt í jörðu sem innskot án þess að ná nokkurntímann til yfirborðs. Að sjálfsögðu er þó rétt að fylgjast vel með þessari virkni.