Eldgos.is heimsótti á dögunum steinasafnið Ljósbrá í Hveragerði. Það er staðsett í húsnæði N1 bensínstöðvarinnar þegar komið er inn í bæinn. Hér er um að ræða eitt stærsta steinasafn í einkaeigu á Íslandi og má finna þar langflestar steindir sem finnast á landinu auk fróðlegra jarðfræðilegra útskýringa. Mælum við eindregið með heimsókn í Ljósbrá fyrir áhugafólk um jarðfræði og ekki skemmir fyrir að aðgangur er ókeypis.
Íslensk náttúra er ríkari af merkilegum steindum en marga grunar þrátt fyrir ungan aldur landsins í jarðfræðilegum skilningi.
Það er Hafsteinn Þór Auðunsson sem rekur safnið ásamt fjölskyldu sinni en steinum sem finna má á safninu hefur verið safnað síðan um árið 1960. Þá er einnig mjög áhugavert handverk að finna á safninu.
Safnið er opið frá 9 – 17 á virkum dögum og 10-17 um helgar. Vefsíða safnsins: mineralsoficeland.com