Undanfarið hefur verið heldur órólegt í Bárðarbungukerfinu í Vatnajökli og þá helst i kringum Kistufell sem er um 25 km. norðaustur af hásléttu (öskju) Bárðarbungu. Aðfaranótt sunnudags mældust tveir skjálftar yfir 3 á richter og fjölmargir smærri. Flestir skjálftarnir eru á talsverðu dýpi, um 7-10 km, og ekkert sem bendir til þess að kvika sé í þann veginn að brjótast upp á yfirborðið. Sem fyrr er svæðið þó mjög virkt og líkur á að fyrr en síðar gjósi í Bárðarbungukerfinu. Síðasta goshrina á þessum slóðum varð á árunum 1862-4.
Gos í Bárðarbungukerfinu geta þróast með þrennum hætti: Í fyrsta lagi gos í eða við öskjuna sjálfa í jöklinum. Vitað er að árið 1477 varð allstórt gos af þessu tagi. Í öðru lagi geta orðið kvikuhlaup til suðvesturs og virðist þetta gerast á um 5-800 ára fresti. Síðast varð slikur atburður árið 1480, Veiðivatnagosið. Er því lýst hér. Það er athyglisvert að þetta mikla gos á sér stað aðeins fáum árum eftir mikið gos í jöklinum. Kvikuhlaup til suðvesturs með allstóru gosi á jökullausu svæði varð einnig i kringum árið 870 og myndaði Landnámslagið svokallaða sem er tvílitt öskulag enda gaus á sama tima í Torfajökulskerfinu. Það gerðist reyndar einnig árið 1480. Í þriðja lagi verða gos norðaustur af Bárðarbungu, í eða norðan Kistufells og jafnvel á jökullausu svæði þar norður af. Slíkt gerðist síðast á árunu 1862-4 eins og áður sagði. Þetta eru hættuminnstu gosin í Bárðarbungusvæðinu enda víðsfjarri mannabyggðum og komi gos upp á jökullausu svæði veldur það engu tjóni. Það gildir auðvitað allt annað um stórgos i jöklinum sjálfum, þar kemur bæði til öskufall og flóðahætta.
Myndin er fengin af vef Veðurstofu Íslands og sýnir skjálfta í Vatnajökli undanfarna sólarhringa.