ELDGOS HAFIÐ Í MERADÖLUM

Birta á :
Þessa mynd tók síðuhöfundur við Reykjanesbraut rétt eftir að gosið braust út. Greina má gosmökkinn yfir Fagradalsfjallgarðinn.

ELDGOS HÓFST Í MERADÖLUM UM KL. 13 20 Í DAG.  GOSIÐ ER MIKLU STÆRRA EN GOSIÐ Í FYRRA, UM 5 – 10 SINNUM STÆRRA.  GOSSPRUNGAN ER UM 4-500 METRA LÖNG OG HRAUN RENNUR NIÐUR Í  MERADALI.  INNVIÐIR ERU EKKI TALDIR Í HÆTTU HALDIST GOSIÐ Á ÞESSUM STAÐ.

Það kom jarðvðisindamönnum allsekki á óvart þegar gosið hófst í dag, það þótti ljóst þegar gervihnattamyndir bárust í gær að kvikugangurinn lægi mjög grunnt undir yfirborðinu og stutt væri í gos. Staðsetningin kemur heldur ekki á óvart nema hvað alveg eins var búist við að sprunga opnaðist nokkuð norðar í átt að Keili.  Þessi staðsetning er  þó óumdeilanlega betri því hraunið rennur í Meradali og lokast þar af.  Það þarf að gjósa ansi lengi af þessum krafti á þessum stað ef hraun á að fara að ógna innviðum.

Helsta ógnin frá þessu gosi er gasmengun.  Þar sem gosið er miklu stærra þá má reikna með að gas geti orðið til vandræða og mögulega hættulegt nálægt gosstöðvunum. Það þarf því að gæta þess að ganga ekki um í lægðum nærri nýju hrauni eða gossprungum þegar verið er á svæðinu.  Óþægindi geta vel skapast vegna gasmengunar í byggð, td. Grindavík ef og þegar mökkinn leggur þangað.

Framvinda gossins er auðvitað með öllu óljós. Jarðskjálftavirkni er enn nokkur þrátt fyrir að gosið sé hafið en ætti að draga úr henni á næstu dögum.  Enn er eftir að efnagreina gosefnin en telja verður langlíklegast að þau séu þau sömu og í síðasta gosi og kvikan því ættuð úr möttlinum.  Gætum við því aftur fengið nokkurra mánaða langt gos.

Scroll to Top